Fara í efni

TÍMI TÍMAMÓTANNA AÐ RENNA UPP

Kosningar nálgast. Það liggur í loftinu og má merkja á ýmsu. Prófkjörsbarátta er hafin innan flokkanna og pólitíkin að taka á sig mynd kosningabaráttu. Augljósasta merki um hvað er framundan er, eins og fyrri daginn, að finna hjá Framsókn. Borðaklippingum og hvers kyns opnunum fjölgar jafnt og þétt hjá ráðherrum flokksins, allt eins og færustu hönnuðir og ímyndarfræðingar hefðu best getað hannað. Ekki veit ég með neinni vissu hvort kosningaráðgjafar og auglýsingasérfræðingar Framsóknar eru teknir til starfa en fyrir þá sem ekki muna, þá fékk auglýsingastofan sem matreiddi Framsókn ofan í kjósendur fyrir síðustu alþingiskosningar sérstök afreksverðlaun fyrir að takast það sem flestir höfðu talið ógerlegt. Með pólitískum lýtalækningum tókst henni nefnilega að endurskapa Framsóknarflokkinn sem nýjan og ferskan stjórnmálaflokk, sem hvergi hefði komið við sögu í landstjórninni undangengið kjörtímabil! Kjósendur fylktust um þennan nýja spennandi valkost. Það var ekki fyrr en að kosningum afloknum að kjósendurnir vöknuðu upp við vörusvikin og sáu að þetta var að sjálfsögðu sama gamla Framsókn og hafði aukið misréttið í landinu, gengið erinda erlendra álrisa, ráðist gegn náttúrunni og blessað innrásina í Írak.

Skyldi þetta takast aftur? Hver fréttamannafundurinn er nú haldinn á fætur öðrum þar sem boðuð eru tímamót. Tímamót verða í matvöruverði. Að vísu ekki alveg strax, ekki fyrr en 1.mars á næsta ári. Kosningabaráttan mun þá standa í hámarki.Undarleg tilviljun, eða hvað? Að sjálfsögðu er þetta ekki meiri tilviljun en sú, að áform um skattalækkanir koma flest til framkvæmda rétt fyrir kosningar. Tímamót hafa nú verið kynnt í málefnum geðfatlaðra og tímamót eru sögð vera að bresta á í löggjöf um auðlindir.
Tími tímamótanna er þannig runninn upp. Vonandi sjá kjósendur í gegnum sjónarspilið. Það er full ásæða til að beina gagnrýnum og skærum kastljósum að fréttamannafundum sem ríkisstjórnin og ráðherrar boða til á komandi mánuðum. Allt bendir til þess að sjónhverfingarmeistararnir séu mættir til leiks.