Fara í efni

TÍMI ER SVIPSTUND EIN SEM ALDREI LÍÐUR

AE IV
AE IV

Áramótin eru alltaf tilfinningaþrungin í mínum huga. Fram streyma minningar úr barnæsku þegar ég spurði móður mína hvort það væri rétt að gamla árið sem væri að kveðja kæmi aldrei aftur. Nei, það kemur aldrei aftur, sagði mamma. Þá fór ég að gráta af óútskýrðum trega og eftirsjá. En mamma huggaði mig og sagði að framundan væri rísandi dagur, senn færi sólin að hækka á lofti og svo kæmi vorið og sumarið í allri sinni dýrð. Lífið framundan væri dásamlegt.

En sumt kemur til baka. Þannig minnti Andrés Björnsson, fyrrverandi útvarpsstjóri, okkur á það í viðtali við Guðrúnu Guðlaugsdóttur í lesbók Morgunblaðsins í árslok 1996, að góð ljóð kæmu til baka eins og hann orðaði það. Og vissulega er það svo að með því að hlú að vermætum fyrri tíðar geta þau lifað um ókominn tíma.

Á viðtalið við Andrés rakst ég nánast fyrir tilviljun við leit að kvæðum eftir einn okkar allra mestu andans manna fyrr og síðar, Einar Benediktsson, skáld. Yfir jólin hafði ég hlustað á hljómdisk sem Ríkisútvarpið gaf út undir aldarlok með lestri Andrésar á ljóðum nokkurra höfuðskálda okkar. Þar á meðal er kvæðið Kvöld í Róm eftir Einar Benediktsson. Þetta er eitt uppáhaldsljóða minna, enda geymir það mikla speki og orðsnilld.

Í viðtalinu við Andrés Björnsson kemur fram að þetta var fyrsta kvæðið sem hann las í útvarp. Það var árið 1939. Þá hefur Andrés verið 22 ára gamall. Hann átti eftir að lesa mörg ljóð í útvarpið og verða einn ástsælasti upplesari þjóðarinnar, röddin þýð og góð, skilningurinn næmur enda sjálfur skáld.

Um tímann sem hverfur og einnig hinn sem varir er þarft að hugleiða og áramótin gott tilefefni til þess. Gott er þá að fá þá Andrés Björnsson og Einar Benediktsson til að örva slíka hugsun og færa hana á dýptina.

Viðtal Guðrúnar Guðlaugsdóttur við Andrés Björnssona í Lesbók Morgunblaðsins í desember, 1996.

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/304686/

Hér eru svo þrjú erindi úr ljóði Einars Benediktssonar, Kvöld í Róm. Einari verður tíminn að umhugsunarefni við heimsókn sína til Rómar:

Tíber sígur seint og hægt í Ægi,
seint og þungt með tímans göngulagi.
Lopt er kyrrt. Ei kvikar grein á baðmi. -
Kvöld með rauðri skikkju og bláum faldi.
- Sál mín berst til hafs í fljótsins faðmi.
Fyrir hug mér sveima liðnar tíðir;
svífa á borði elfar aldir, lýðir,
eins og sýning skuggamynda á tjaldi.

Og síðar í kvæðinu segir Einar:

Hugann grunar, hjartað finnur lögin.
Heilinn greinir skemmra en nemur taugin.
Heimsins vjel er knúð af einu afli,
einum segulvilja er kerfin bindur.
Sama vald, sem veldur sólna tafli,
veitir sjer í gegnum mannsins æðar.
Milli lægsta djúps og hæstu hæðar
heimssál ein af þáttum strengi vindur.

Og eftirfarandi er lokaerindið af alls tólf erindum:

Eilífð, eilífð, orð á mannsins tungu,
andans bæn við dauðasporin þungu,
þrá til lífs, til lífs í lægsta ormi,
ljósblik himnadags á kvöldsins hvarmi!
Rís þú friðland, stjörnudjúps af stormi,
ströndin þar sem sál vor allra bíður;
tími er svipstund ein sem aldrei líður,
algeims rúm, ein sjón, einn dýrðarbjarmi. -