Fara í efni

TÍMAMÓT Í INNANRÍKISRÁÐUNEYTI

Hanna Birna tekur við IRR
Hanna Birna tekur við IRR

Á föstudag afhenti ég Hönnu Birnu Kristjánsdóttur lykla að Innanríkisráðuneytinu með ósk um velfarnað í starfi innanríkisráðherra nýrrar ríkisstjórnar. Jafnframt þakkaði ég starfsfólki ráðuneytisins gott og gjöfult samstarf á undanförnum árum. Ég varð dómsmála- og mannréttindaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í  byrjun september 2010. Þegar ráðuneytin voru sameinuð í ársbyrjun 2011 varð ég síðan innanríkisráðherra.

Að sameina og sundra

Sameining ráðuneytanna var ekki auðvelt verk en gekk hins vegar framar vonum. Starfsfólk, undir kröftugri og góðri forystu Ragnhildar Hjaltadóttur ráðuneytisstjóra, var staðráðið í því að láta verkefnið ganga upp og sú varð raunin.
Þess vegna brá mörgum í brún þegar þær fréttir bárust í tengslum við stjórnarmyndunarviðræður  að til stæði að sundra ráðuneytinu að nýju. Það varð mörgum léttir að þau áform urðu ekki að veruleika.

Mannréttindin eru fjöreggið

Ég nefndi það við afhendingu lyklanna að í þessu ráðuneyti væri að finna sjálft fjöreggið, mannréttindamálin, en á sviði þeirra hefðu verið stigin ýmis framfaraspor á liðnum misserum og árum þótt málaflokkurinn væri þess eðlis að þar væri verkefnum aldrei lokið í eitt skipti fyrir öll. Þá nefndi ég sérstaklega að mikilvægt væri að gæta að hagsmunum okkar samfélags þegar eignarhald á auðlindum og landi væri annars vegar en þau málefni koma að hluta inn undir verksvið Innanríkisráðuneytisns.

Leggur upp úr góðu samstarfi

Margt annað mætti nefna þegar litið er til hinna fjölbreyttu málaflokka sem heyra undir Innanríkisiráðuneytið: Sveitarstjórnarmál, rafræn stjórnsýsla, samgöngumál, málefni trúfélaga og lífsskoðunarfélaga, löggæslumál, dómsmál, fangelsismál, happdrættismál, neytendamál, barnalög og ættleiðingar, málefni útlendinga og hælisleitenda, framkvæmd kosninga, þjóðskráin, slysavarnamál, landhelgisgæsla og almannavarnir og svo mætti lengi telja.
Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur getið sér gott orð fyrir að leggja mikið upp úr góðu samstarfi við fólk og þykir mér gott til þess að hugsa nú þegar hún sest í stól innanríkisráðherra.

Frumkvöðull og drifkraftur

Að lokinni lyklaafhendingu gekk ég um allar hæðir ráðuneytisins og kvaddi fólk og að lokum ráðgjafa mína þessi ár, Höllu Gunnarsdóttur og Einar Árnason, þótt við séum að sjálfsögðu ekki endanlega skilin að skiptum. Fjarri því.
Halla hafði verið mér til ráðgjafar í Heilbrigðisráðuneytinu og þekkti ég því til starfa hennar að góðu. Í Innanríkisráðuneytinu lét hún  mjög til sín taka. Nefni ég þar fyrst aðgerðir til að uppræta kynferðisofbeldi en einnig fjölmörg önnur málasvið svo sem málefni útlendinga og flóttafólks en nefnd undir hennar forystu hefur lagt grunn að gerbyltingu á því sviði.  Vitundarvakning um kynferðisofbeldi gegn börnum  á vegum þriggja ráðuneyta, Innanríkisráðuneytisins, Menntamálaráðuneytisins og Velferðarráðuneytisins, var sett á laggirnar og síðan drifin áfram undir verkstjórn Höllu. Leyfi ég mér að segja að þar hafi hennar frumkvæði og dugnaður skipt sköpum. Verkefnisstjórn ráðuneytanna þriggja sem vann að vitundarvakningunni á hrós skilið fyrir elju og vinnusemi og verður þar áfram gott fólk sem mun halda starfinu til streitu, enda er fátt eins aðkallandi í okkar samfélagi og að uppræta kynferðisofbeldi.

Bréflegar athugasemdir

Margt annað gæti ég nefnt um breytingar sem Halla var frumkvöðull að og við síðan í sameiningu þokuðum fram á veginn.
Ég minnist þess hve illa ýmsir innan réttarkerfisins tóku í það þegar við efndum til markvissrar umræðu um orsakir þess að nauðgunarmál virtust utanveltu í kerfinu. Grein sem við Halla birtum í dagblaði, svo dæmi sé nefnt,  kallaði á bréflegar athugasemdir málsmetandi aðila, þ. á m. vegna fullyrðinga okkar um að nauðganir væru margfalt fleiri en meðferð málaflokksins innan réttarkerfisins gæfi til kynna. Þetta er hins vegar liðin tíð og virðist okkur fjarlægt einmitt vegna þess að okkur tókst að stuðla að samtali réttarkerfis, löggæslu, stjórnmála, akademíu og grasrótar og í kjölfar þess hefur verið gripið til aðgerða með það að markmiði að bæta meðferð kynferðisbrotamála, þótt enn sé langt í land.
Halla og Einar  

Þekking og réttlætiskennd

Einar Árnason þekkti ég að góðu sem hagfræðing BSRB og vissi að þar fór maður með stórt hjarta og þekkingu á öllu sem lýtur að skattamálum og almannatryggingum. Það er ekki nóg með að Einar þekki þessi mál í þaula heldur hefur hann eining ríka réttlætistilfinningu og er fljótur að greina félagslegar afleiðingar hvers kyns kerfisbreytinga.
Einar er mjög lifandi þjóðfélagsrýnir, vel tengdur innan lands og utan. Skuldamál heimilanna heyra ekki undir Innanríkisráðuneytið þótt stundum væri að heyra á umræðunni að svo væri og leituðu margir til ráðuneytisins um ráðgjöf og úrlausn sinna mála. Við reyndum að gera okkar besta til að stuðla að því að finna farvegina fyrir slík mál. Þar reyndist Einar Árnason vel þótt möguleikar til úrlausna væru því miður ekki alltaf fyrir hendi og ekki nema að mjög takmörkuðu leyti á okkar færi að hafa áhrif.

Happdrættismál

Á þessu tímabili hef ég notið aðstoðar fjölda fólks og fékk ég ýmsa einstaklinga til að sinna margvíslegum verkum. Kristófer Kristinsson vann að endurskipulagningu happdrættismála og skilur hann eftir sig mikilvægt starf sem vonandi á eftir að nýtast vel. Þótti mér leitt og slæmt að Alþingi skyldi ekki samþykkja frumvarp mitt um nýskipan á sviði happdrættismála sem byggðist á stefnumörkun minni og vandaðri vinnu Kristófers . En kemur dagur eftir þennan dag. Í mínum huga tengjast þessi mál mannréttindum því það er brot á slíkum réttindum að afla fjár frá fólki sem er ekki sjálfrátt gerða sinna. Okkur ber skylda til að taka mið af því í lögum og reglum.
Og nánar hvað mannréttindin áhrærir þá má nefna að á undanförnum mánuðum hefur verið unnið að því að yfirfara alla lagasetningu sem lýtur að fötluðu fólki með það fyrir augum að við uppfyllum ítrustu kröfur alþjóðlegra skuldbindinga um réttindi fatlaðs fólks.


Rafræn þjónusta og beint lýðræði

Þorleifur Gunnlaugsson reyndist dugnaðarforkur við að drífa áfram ýmis mál sem snúa að samstarfi ríkis og sveitarfélaga, ekki síst undirbúning að rafrænni þjónustu, rafrænum kosningum og þáttum sem lúta að beinu lýðræði. Ótal fundir og ráðstefnur voru haldnar um þessi efni og var Þorleifur oftar en ekki hvatamaður að þeim og skipuleggjandi. Áttum við samvinnu við fjölmiðladeild Flensborgarskóla sem aðstoðaði okkur við að koma upptökum af sumum fundanna á framfæri á netinu.

Að flytja inn þekkingu

Auk funda og rástefnuhalds með innlendum aðilum hefur verið talsvert um það að við flyttum inn þekkingu erlendis frá.  Það er góðra gjalda vert og mikilvægt að Íslendingar sæki ráðstefnur og fundi á alþjóðavettvangi, afli þar þekkingar og láti þar sjálfir til sín taka. Ekki er síðra að flytja góða og örvandi fyrirlesara til landsins og veita þannig fleira fólki aðgang að fjölþjóðlegri umræðu um mikilvæg málefni.  Dæmi um þetta er ráðstefna sem  Innanríkisráðuneytið, Edda-rannsóknarsetrið við Háskóla Íslands ásamt Institute of Cultural Diplomacy stóðu að nýlega um alþjóðleg viðbrögð við glæpum og grimmdarverkum.

Samstarf við sveitarfélög og stofnanir - heildstæð hugsun í samgöngumálum

Samstarf við samtök sveitarfélaga hefur verið með miklum ágætum, svo og samstarf við forstöðumenn og aðra starfsmenn allra þeirra stofnana sem undir Innanríkisráðuneytið heyra. Um þetta mætti hafa mörg orð en ég vil á þessum tímamótum lýsa ánægju með ótvíræðan sóknarvilja sveitarfélaganna í landinu sem markvisst eru að endurskipuleggja sig og taka á sig nýjar skyldur. Má þar sérstaklega nefna almenningssamgöngur auk málaflokka sem þau hafa verið að taka yfir, nú síðast málefni fatlaðs fólks.
Á nýliðnum vetri var birt stöðuskýrsla um verkefni í Innanríkisráðuneytinu og koma þar fram ýmsir áhersluþættir af minni hálfu á undangengnum misserum. Þar kemur fram hve mikilvægt ég tel að horfa á samgöngumálin heildstætt og til langs tíma. Á þetta hef ég lagt áherslu og oft haft á orði að horfa þurfi samtímis til samgangna á landi, í lofti og á sjó. Er það ánægjuefni að strandsiglingar eru nú hafnar að nýju en bæði Samskip og Eimskip hófu slíkar siglingar í þann veginn sem auglýsa átti útboð af hálfu ríkisins.
Nálgunin í samgöngumálum er að verða heildstæðari hvernig sem á málin er litið. Í Innanríkisráðuneytinu hefur verið lögð áhersla á hugsa á landsvísu en ekki kjördæmavísu eins og áður tíðkaðist í of miklum mæli að mínu mati. Þar hefur þokast fram á við og eru það nú undantekningarnar sem sanna regluna.

Þakklæti

Á þessum tímamótum eru mér efst í huga þakkir til þess fólks sem ég hef fengið að eiga samleið með í Innanríkisráðuneytinu. Viðfangsefnin hafa verið stór og smá og sum hlotið talsverða alþjóðlega athygli. Það má því segja að nóg hafi verið um að vera í ráðuneytinu og stundum hefur álag á starfsfólk verið í meira lagi. Nýr innanríkisráðherra tekur við viðamiklu verkefni, en mun njóta þeirra góðu starfskrafta sem ráðuneytið býr yfir. Um leið og ég þakka fyrir mig óska ég nýjum ráðherra farsældar í starfi.

Sjá vef Innanríkisráðuneytisins: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28587
Hanna Birna og ÖJ