Fara í efni

TÍMAMÓT Í FANGELSISMÁLUM

Hólmsheiði 4-4-13 skóflustunga
Hólmsheiði 4-4-13 skóflustunga

Á ríkisstjórnarfundi í ágúst 2011 var samþykkt að minni tillögu að gera endurbætur í fangelsismálum og efna í því skyni til opinnar hugmyndasamkeppni um byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði í Reykjavík. Í dag hófst svo tími framkvæmda þegar fyrsta skóflustungan var tekin að byggingunni og í næstu viku mun verktaki hefjast handa við jarðvinnu.

Gert er ráð fyrir að fangelsið á Hólmsheiði verði tekið í notkun 2015 og á sama tíma verði lögð niður starfsemi í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og í Kópavogsfangelsi. Hegningarhúsið er orðið 140 ára gamalt og löngu úrelt sem fangelsi í nútímaþjóðfélagi.

Rúmlega 50 ár eru liðin frá því fyrst var rætt að reisa þyrfti nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Segir það sína sögu um hversu þörfin á úrbótum er fyrir löngu orðin brýn. Staða fangelsismála á Íslandi hefur ekki aðeins verið gagnrýnd á innlendum vettvangi á undanförnum árum. Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttindamála hérlendis er vakin athygli á því að elstu fangelsi okkar standist ekki nútímakröfur, biðlisti eftir fangelsisvist sé of langur og að ekki sé hugað nógu vel að stöðu kvenfanga og ungra afbrotamanna innan fangelsiskerfisins. Nýtt fangelsi á Hólmsheiði er mikilvægt skref til úrbóta á þessu sviði og markar tímamót í íslenskum fangelsismálum.

Sjá nánar á vef Innanríkisráðuneytisins: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28496