Fara í efni

TILLÖGUR VG UM RÍKISÚTVARPIÐ

Birtist í Morgunblaðinu 04.05.05.
Í frumvarpi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs um Ríkisútvarpið, sem fram kom á Alþingi á sama tíma og frumvarp ríkisstjórnarinnar, eru settar fram tillögur um grundvallarbreytingar á stjórnsýslu stofnunarinnar og tengslum hennar við Alþingi og framkvæmdavald. Auk þess er lagt til að afnotagjöld í þeirri mynd sem nú tíðkast verði lögð niður. Enda þótt frumvarp VG hafi komið fram á sama tíma og stjórnarfrumvarpið, aðeins tveir dagar á milli, þá var búið svo um hnútana af hálfu stjórnarmeirihlutans að okkar mál komst ekki til nefndar og hefur þar af leiðandi ekki enn verið sent út til umsagnar.

Umsagnaraðilar íhugi valkosti

Eðlilegt hefði verið að samhliða frumvarpi ríkisstjórnarinnar hefðu önnur þingmál um Ríkisútvarpið, þingmál Samfylkingar og Frjálslyndaflokksins, auk frumvarps VG verið send umsagnaraðilum þannig að þeir gætu vegið og metið þær hugmyndir sem lægju fyrir Alþingi. Ég er sannfærður um að stjórnarmeirihluti sem hefði trú á eigin frumvarpi þyrði að láta slíkan samanburð fara fram. Skortur á  sjálfstrausti hvað þetta varðar er vísbending um að frumvarpshöfundar óttist að samanburður gæti reynst þeim óhagstæður. Við slíkar aðstæður hefur þessari ríkisstjórn þótt það eitt vera til ráða að beita valdi. Enn er því ósvarað hvort slíkum vinnubrögðum verður beitt nú.

Á að svíkja gefin fyrirheit?

Sannast sagna taldi ég að lærdómurinn frá síðasta vori og heitstrengingar í kjölfarið, hefðu verið á þá lund að leitað yrði sátta um lagaramma um fjölmiðlaumhverfið, þar með talið Ríkisútvarpið, og ekki reynt að keyra málin áfram með offorsi. Á nú að svíkja þessi fyrirheit með því að hundsa óskir um að frumvarpi ríkisstjórnarinnar verði skotið á frest? Frumvarp ríkisstjórnarinnar er mjög alvarlega gallað og mikil afturför ef það yrði gert óbreytt að lögum. Ríkisstjórnir koma og fara en vonandi á Ríkisútvarpið langa framtíð fyrir sér. Það er fráleitt annað en að leita víðtækrar sáttar um stjórnskipan þeirrar stofnunar, bæði þverpólitískrar sáttar og gagnvart þeim aðilum sem tengjast Ríkisútvarpinu, og þá sértaklega starfsmönnum og öðrum menningarstofnunum sem hafa tengsl við þessa mikilvægu stofnun.

Útvarpsráð endurspegli viðhorf í stað valda

Í tillögum VG er lagt til að í stað útvarpsráðs komi dagskrárráð sem allt eins mætti kalla notendaráð en hlutverk þess væri fyrst og fremst að sjá til þess að RÚV sinni lögbundnum skyldum sínum og veiti stofnuninni þannig faglegt og lýðræðislegt aðhald. Dagskrárráð hafi ekki afskipti af innri stjórnsýslu Ríkisútvarpsins að öðru leyti en því að útvarpsstjóri skal jafnan skipaður með samþykki Dagskrárráðs. Ráðið byggi ekki á pólitískum valdahlutföllum heldur yrði við skipan þess reynt að tryggja aðkomu mismunandi viðhorfa í samfélaginu. Ekki er hugmyndin að skera á tengsl Ríkisútvarpsins við Alþingi því öllum þingflokkum er ætlað að tilnefna fulltrúa í Dagskrárráð ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Bandalagi listamanna og Neytendasamtökum. Æðstu menn stjórnsýslu RÚV eiga einnig sæti í Dagskrárráði auk fulltrúa starfsmanna.

Skilvirk stjórnsýsla

Framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins skal, samkvæmt frumvarpi VG, bera ábyrgð á allri stjórnsýslu stofnunarinnar og er útvarpsstjóri ábyrgur gagnvart henni. Framkvæmdastjórn yrði skipuð forsvarsmönnum deilda Ríkisútvarpsins auk fulltrúa starfsmanna. Útvarpsstjóri í umboði framkvæmdastjórnar annist ráðningu starfsmanna en þegar um væri að ræða ráðningu þeirra sem annast dagskrárgerð skuli ætíð byggt á samþykki framkvæmdastjórnar. Með þessu móti yrði tryggt að ráðning dagskrárgerðarfólks væri aldrei á hendi eins aðila. Þannig er hin formlega umgjörð hugsuð. Að sjálfsögðu yrði reyndin sú, eins og nú, að einstakar deildir RÚV réðu fólk til starfa, án þess að hinir formlegu ábyrgðaraðilar kæmu beint að málinu.

Fasteign til grundvallar afnotagjaldi

Gerð er tillaga um að afnotagjöld í núverandi mynd verði lögð niður og þess í stað verði fasteign, íbúða- og atvinnuhúsnæði, stofn gjaldsins. Gert er ráð fyrir því að um gjöldin, fyrirkomulag og innheimtu verði sett sérlög. Þetta er eflaust umdeilt atriði. Þingflokki VG þykir einsýnt að viðtæki sem stofn afnotagjalds sé ekki til framtíðar. Þá er að hyggja að valkostum. Einn væri að setja RÚV á fjárlög. Hættan yrði þá sú að sjálfstæði stofnunarinnar væri fyrir bí. Flestar Ríkisútvarpsstöðvar í Evrópu leggja höfðukapp á að annast sjálfar innheimtu þeirra gjalda sem þeim eru ætlaðar. Leið ríkisstjórnarinnar er nefskattur. Við teljum að fasteignagjald sem stofn iðgjalds væri réttlátari og heppilegri.

Mörg nýmæli

Í frumvarpi VG um Ríkisútvarpið er að finna fjölmörg nýmæli. Við teljum að með frumvarpinu yrðu sniðnir af margir vankantar sem nú eru taldir vera á lagaumgjörð Ríkisútvarpsins. Við styðjumst hins vegar við gamla lagarammann, enda um margt mjög góður. Á ýmsu viljum við þó gera breytingar. Þannig viljum við til dæmis skerpa á skyldum Ríkisútvarpsins varðandi íslenskt dagskrárefni.