Fara í efni

Tillögur til úrbóta í tannlækningum

Birtist í Mbl
Á undanförnum árum hefur tilkostnaður barnafólks og elli- og örorkulífeyrisþega við tannlækningar stóraukist og er svo komið að margt efnalítið fólk á ekki lengur kost á því að leita sér lækninga. Þetta er m.a. staðhæft í skýrslu sem gefin hefur verið út á vegum landlæknisembættisins. Þar kemur fram að af öllum sviðum lækninga sé mest áberandi að efnalítið fólk veigri sér við því að leita til tannlækna. Þetta ætti engum að koma á óvart því flest þekkjum við hve kostnaðarsamar tannlækningar geta verið. Þegar kostnaðarhlutdeild hins opinbera var minnkuð snemma á þessum áratug dró úr samanlögðum kostnaði ríkis og notenda án þess að tannlæknakostnaður lækkaði. Ástæðan var augljós: Þeim fjölgaði sem ekki höfðu efni á að leita til tannlæknis.

Réttarbót fyrir aldraða og öryrkja

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp sem undirritaður flytur ásamt fleiri þingmönnum þar sem gert er ráð fyrir því að hið opinbera greiði að öllu leyti almenna tannlæknaþjónustu fyrir aldraða og öryrkja. Nú er málum þannig háttað að Tryggingastofnun greiðir 75% af almennum tannlæknakostnaði þeirra sem hafa óskerta tekjutryggingu og 50% af kostnaði þeirra sem hafa skerta tekjutryggingu. Á mannamáli þýðir þetta að við núverandi fyrirkomulag fær einstaklingur sem er með 28 þúsund kr. á mánuði eða minna í tekjur þrjá fjórðu hluta tannlæknakostnaðarins endurgreidda, sá sem er með tekjur á bilinu 28 þúsund til 79 þúsund fær helming endurgreiddan en sá sem er með tekjur þar fyrir ofan fær ekkert. Fólk sem hefur tekjur um og yfir viðmiðunarmörkum er fæst aflögufært til mikilla fjárútláta enda er afleiðingin sú að öryrkjar og aldrað fólk hefur í mörgum tilvikum ekki efni á því að leita sér lækninga. Öryrkjar sem búa á stofnunum eða í sambýlum fá að vísu 90% kostnaðar endurgreidd. En þá má spyrja hvers þeir eigi að gjalda sem búa í heimahúsum.

Ósanngjarn jaðarskattur

Samtök eldri borgara og samtök öryrkja hafa ítrekað bent á að hér sé að finna dæmi um jaðarskatt sem beri að afnema.

En hver má ætla að yrði tilkostnaður við slíka ráðstöfun? Samkvæmt útreikningum yfirtannlæknis Tryggingastofnunar ríkisins myndi tilkostnaður hins opinbera við að færa endurgreiðsluhlutfall lífeyrisþega og öryrkja í 100% nema rúmum eitt hundrað milljónum króna. Að mínum dómi er hér um slíkt réttlætismál að ræða að stjórnvöld hljóti að taka það til alvarlegrar athugunar. Í fyrrnefndu frumvarpi, sem er til umfjöllunar á Alþingi, eru fleiri nýmæli en þau sem snerta aldraða og öryrkja.

Barnafólki mikilvæg búbót

Þannig er í frumvarpinu gert ráð fyrir breyttu greiðsluhlutfalli hins opinbera í tannlæknakostnaði unglinga. Aldursviðmiðunarmörkum er breytt úr 15 árum í 17 ár og er ekki gert ráð fyrir fyrirkomulagi með þrepum eins og nú er, þ.e. gagnvart 16 ára unglingum sem fá stuðning en lægra endurgreiðsluhlutfall en yngri aldurshópar. Endurgreiðsluhlutfallið er 75% fram að 16 ára aldri en 50% hjá 16 ára unglingum. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að fram að 17 ára aldri greiði fólk einvörðungu 10% af tannlæknakostnaði.

Annars staðar á Norðurlöndum eru aldursmörkin og þátttaka hins opinbera í tannlæknakostnaði hærri en hér. Rökin eru þau að þessi stuðningur við barnafólk sé fjölskyldunum mikilvæg búbót en auk þess hafa verið færð rök fyrir því á Norðurlöndum að þetta sé skynsamleg fjárfesting: Mjög miklar líkur eru sagðar vera á því að bætt tannheilsa hjá ungu fólki dragi úr tilkostnaði samfélagsins við tannlækningar þegar fram líða stundir. Ekki hef ég upplýsingar um tölur en nærri má geta um líðan manna. En hvert er mat íslenskra heilbrigðisyfirvalda hvað snertir kostnaðarþáttinn? Hversu mikils virði er forvörn á unglingsárum? Óskað er eftir svari.