Fara í efni

Tillaga Jónasar

Birtist í Fréttablaðinu 05.03.2003
Um daginn hringdi í mig maður sem ég ber mikla virðingu fyrir. Hann er nokkuð við aldur og býr yfir lífsreynslu og visku. Tilefni þess að hann hringdi var nýfallinn úrskurður Jóns Kristjánssonar, þá setts umhverfisráðherra, um Þjórsárver. Úrskurður Jóns þótti, eins og við munum, sérstakur, nánast einstakur, af þeirri ástæðu að hann vildi hlífa friðlöndum gagnstætt því sem Landsvirkjun hafði áformað. Strax í kjölfar úrskurðarins brutust út fagnaðarlæti, jaðraði við hátíðahöld. Í nokkra daga var Jón Kristjánsson sem heilagur maður, ósnertanlegur, hinn smurði. Mér þótti þetta skiljanlegt því náttúruverndarsinnar vissu sem var að þetta hefði aldrei gerst ef ekki hefði verið vegna þrotlausrar baráttu þeirra í þágu náttúruverndar. Jón Kristjánsson hafði svarað kalli þeirra. Það var hans gæfa og okkar líka.

Þessi viðbrögð þótti viðmælanda mínum hins vegar harla skrítin. Hann sagði að sín kynslóð hefði lagt þann skilning í friðland að það þýddi einmitt það sem orðið segir: land sem látið er í friði. Það ættu því ekki að vera nein tíðindi að friðland væri látið ósnert. En svo langt væri búið að færa landamærin til á forsendum Landsvirkjunar að það þætti bera vott um einstaka göfugmennsku að þyrma friðlandi. Og áfram hélt viðmælandi minn. "Á það að geta gerst að friðland sé tekið af okkur án þess að um ákvörðunina gildi aðrar reglur en þær sem notaðar eru við einföldustu lagabreytingar? Þegar kjördæmaskipan er breytt þarf þó alla vega tvennar kosningar því það kallar á stjórnarskrárbreytingu. En miklu afdrifaríkari ákvarðanir fyrir landið og þjóðina sem byggir það í framtíðinni er hægt að taka með einföldum meirihluta á Alþingi." Síðan fórum við að ræða um fyrirhugaða Kárahnjúkavirkjun og rétt þjóðarinnar til að taka milliliðalaust ákvörðun um mikilvægustu málefni sín. 

 Upp í hugann kemur grein eftir Jónas Ólafsson kerfisfræðing sem er að finna í gagnasafni Morgunblaðsins frá 12. júní árið 2001. Greinin ber yfirskriftina: Fundið fé, töpuð lífsbjörg. Viðfangsefnið er kvótakerfið og þá fyrst og fremst "aðferðir löggjafans þegar aldagömul frelsisréttindi til veiða á hafinu voru afnumin og kerfi framseljanlegra veiðisérleyfa lögleitt." Um kerfið ræðir Jónas Ólafsson ekki sérstaklega heldur hitt "hvort rétt var staðið að umskiptunum úr einu kerfi yfir í annað." Enda þótt í þessari tilvitnuðu grein sé ekki rætt sérstaklega um kvótakerfið segir engu að síður orðrétt um það kerfi: "Með kvótakerfinu varð róttæk kerfisbreyting á mikilvægum sviðum atvinnulífsins í landinu. Í stað aldagamalla frelsisréttinda sem allir landsmenn nutu jafnt og gátu nýtt sér ókeypis var stofnað til framseljanlegra veiðisérleyfa sem verða skyldu söluvara á markaði. Veiðisérleyfunum fylgir bæði nýtingar- og ráðstöfunarréttur og við sölu má handhafi stinga söluandvirðinu í eigin vasa eins og um hverja aðra réttmæta eign sé að ræða."

Hvers vegna skyldu þessi skrif koma upp í hugann? Í fyrsta lagi vegna þess að virkjun í þágu Alcoa með tilheyrandi landnýtingu og náttúruspjöllum á sér samsvörun í kvótakerfinu. Tekin eru almenn "frelsisréttindi" sem Jónas kallar svo og þau gerð að "séreign" án þess að greiðsla komi á móti – ekki ein vesæl króna. Hitt atriðið snýr að meginefni greinarinnar. Hvernig á svona kerfisbreyting að fara fram, hvaða aðferðafræði á að beita?

Svar okkar í  Vinstrihreyfingunni grænu framboði við þeirri spurningu er þjóðaratkvæðagreiðsla. Á þann hátt viljum við bregðast við kröfu manna á borð við Jónas Ólafsson sem, að vísu í öðru samhengi, setti fram tillögu um að vandað yrði til verka þegar ráðist væri í grundvallarbreytingar.

Á Alþingi hefur verið lögð fram tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun og stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar. Um þessa tillögu greiðir Alþingi nú atkvæði. Það verður kosið um þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að það gæti verið áhugavert fyrir kjósendur í komandi kosningum að fylgjast með atkvæðagreiðslunni um þessa tillögu í dag. Hún fjallar ekki bara um landspjöllin við Kárahnjúka heldur um rétt landsmanna – okkar allra – til að taka beint og milliliðalaust afstöðu til stærstu og afdrifaríkustu ákvarðana sem þjóðin stendur frammi fyrir á hverjum tíma.