Fara í efni

TILEFNIÐ

Mgginn - sunnudags
Mgginn - sunnudags

Birtist í Sunnudagsmogga helgina 18/19.08.12.
„Landslag yrði lítilsvirði, ef það héti ekki neitt", kvað Tómas Guðmundsson. Kvæðið ber það með sér að það hafi verið ort meira í gamni en alvöru. En öllu gamni fylgir þó nokkur alvara. Og vissulega er nokkuð til í því að landslagið verður skemmtilegra á að horfa og njóta ef maður þekkir til þess, örnefna, jarðfræðinnar og  sögunnar.
Fljótin í utanverðum Skagafirði hafa mér alltaf þótt fögur sveit en því áhugaverðari hefur mér fundist hún, þeim mun meira sem ég hef fengið um þessa sveit að vita, sögu hennar, mannlíf og menningu, bæði nú og fyrr á tíð.
Það var hins vegar ekki fyrr en nýlega að ég gerði mér grein fyrir því að í Fljótum, þar sem nú búa rétt um 80 manns,  bjuggu ekki fyrir svo ýkja löngu hátt í 1000 manns ; að þaðan var stunduð svo öflug útgerð að ástæða þótti til að stofna sjómannaskóla í Haganesvík. Að vísu mun hann ekki hafa verið lengi við lýði, aðeins nokkur ár í byrjun níunda áratugar nítjándu aldar. En sjómannaskóli var það engu að síður. Og Fljótin eiga sína flugsögu því á gullaldarárum síldarinnar voru leitarflugvélar gerðar út frá Lambanesi í austur Fljótum. Ekkert af þessu vissi ég.  Ég hafði heldur ekki gert mér grein fyrir því að landnámsmaðurinn Hrafna-Flóki hefði sest að í Fljótum og að Flókadalur í Fljótum bæri hans nafn en ekki einhvers annars Flóka.
Allt þetta grófst ég fyrir um þegar ég var beðinn um að afhjúpa minnisvarða um Hrafna-Flóka að Ysta-Mói í Fljótum nýlega.  Sannast sagna kom ég í fyrstu af fjöllum því Hrafna-Flóka hafði ég alltaf tengt Vatnsfirðinum og Barðaströnd. Ég hef það fyrir satt að þaðan hafi verið hringt í Fljótin og spurt hvort til stæði að hafa Hrafna-Flóka af Vestfirðingum, þegar vitnaðist um minnismerkið sem til stæði að afhjúpa í Fljótum! Og þannig er það í vitund flestra Íslendinga, enda lærðum við það í æsku að Hrafna-Flóki hefði gefið landi okkar nafn eftir að hann hafði verið í Vatnsfirði sumarlangt, veitt þar vel og haft allt til alls þar til vetraði og firðir fylltust af ís. Hafi hann þá kallað landið Ísland og horfið á braut. En fæstum var kunnugt um að hann sneri aftur nokkru síðar og settist að í Fljótum.
Í Hauksbók Landnámu segir: „Flóki Vilgerðarson, víkingur mikill, fór af Rogalandi í Noregi að leita lands þess er þeir höfðu  áður fundið Naddoddur víkingur og Garðar Svavarsson hinn sænski.  Áður hann sigldi blótaði hann hrafna þrjá, að þeir skyldu vísa sér leið.  Þeir hlóðu þar varða er blótið hafði verið á mörkum Hörðalands og Rogalands og kölluðu Flókavarða.  Flóki sigldi fyrst til Hjaltlands en tók þaðan stefnu til Snælands sem var nafnið er Naddoddur hafði gefið.  Þegar hann sleppti fyrsta hrafninum flaug sá aftur um stafn til baka.  Annar flaug upp en settist aftur á skipið.  Er hann sleppti hinum þriðja flaug hann fram um stafn og vísaði svo á landið.  Þeir komu austan að Horni og sigldu vestur með ströndinni, fyrir Faxaflóa og Snæfellsnes og tóku land í Vatnsfirði á Barðaströnd og höfðu þar vetursetu.  Fjörðurinn var fullur af veiðiskap og gættu þeir þess ekki að afla heyja um sumarið.  Um veturinn féll allt kvikfé þeirra.  Um vorið gekk Flóki upp á fjall eitt og sá þá fjörð fullan af hafísum og gaf landinu nafnið Ísland. Þeir sigldu um sumarið í brott en urðu síðbúnir, komust ekki fyrir Reykjanes og höfðu vetrardvöl við Faxaflóa.  Sigldu sumarið eftir til Noregs. "
En Flóki fór aftur til Íslands og nam þá land í Fljótum.  Svo segir Sturlubók Landnámu þar sem fjallað er um landnám í Skagafirði:  „Flóki son Vilgerðar Hörða-Káradóttur fór til Íslands og nam Flókadal milli Flókadalsár og Reykjarhóls; hann bjó á Mói.  Hann átti Gró systur Þórðar frá Höfða.  Þeirra son var Oddleifur stafur er bjó á Stafshóli."
En að titli þessa pistils: Tilefnið. Minnisvarðar á borð við þann sem afhjúpaður var í Fljótum um Hrafna-Flóka eru okkur tilefni til að rifja upp sögulega arfleifð. Og þegar áhugi okkar er vakinn á sögu og mannlífi rekur sig eitt af öðru. Ferðalagið verður skemmtilegra og meira gefandi. Við stöndum þess vegna í þakkarskuld við það fólk sem sýnir það framtak að reisa sögunni minnisvarða og skapa okkur þannig tilefni til að víkka sjóndeildarhringinn. Því fleiri tilefni sem við fáum til að vekja okkur til umhugsunar um land okkar og sögu, þeim mun áhugaverðara mun okkur þykja hvort tveggja, landið og sagan.