Fara í efni

TILBOÐIÐ Í LANDMÆLINGAR ER VÍTI TIL VARNAÐAR

Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra, lýsti því yfir sl. vor að hún vildi fylgja þeirri stefnu að Landmælingar kæmu ekki til með að annast verkefni, sem væru hugsanlega í samkeppni við önnur fyrirtæki. Þetta er að mínum dómi fráleit stefna og hefur það komið mér spánskt fyrir sjónir að forstjóri Landmælinga, Magnús Guðmundsson, skuli taka undir þessi sjónarmið (sbr. eftirfarandi í viðtali við DV 19.október “... ekkert nema gott þegar einkaaðilar vilja taka við starfsemi hins opinbera.” ) Þessu er ég ósammála og tel þetta vera misráðna afstöðu af hálfu forstjórans og ráðherrans ekki síður.  Því með þessari stefnu – þ.e. að gera þessa starfsemi háða duttlungum markaðarins er hætt við því að vaxtarsprotarnir verði skornir af Landmælingum.

Þessi stefna hefur það í för með sér, að ef einhverju fyrirtæki dettur í hug að gera eitthvað sem opinbert fyrirtæki sinnir þá verður hið opinbera þegar í stað að láta af þeirri starfsemi. Þetta er fullkomlega fráleitt. Þegar vaxtarsprotarnir eru skornir af er hætt við því að framfarandinn dofni – og þá einnig starfsgleðin.

Hvað Landmælingar snerti þá gerist það nú, að þegar tilteknir þjónustuþættir eru boðnir út gerir eitt fyrirtæki, Loftmyndir ehf sér lítið fyrir og vill gleypa Landmælingar allar með húð og hári. Fjárkrafa Loftmælinga á hendur ríkissjóði fyrir að annast grunnþjónustu, sem skattborgaranum er ætlað að standa straum af kostnaði við, er auk þess himinhá  en ágæt vísbending um hvað gerist þegar fyrirtæki ná að seilast ofan í vasa skattborgarans í gegnum einkavædda starfsemi.  

Þegar Sigríður Anna þórðardóttir, umhverfisráðherra , viðraði hugmyndir sínar sl. vor, fjallaði ég um hugmyndir hennar hér á síðunni, sjá HÉR