Fara í efni

TIL ÞEIRRA SEM BERA ÁBYRGÐ Á BIRNI OG HALLDÓRI

Setja má spurningarmerki við viðbrögð forsætisráðherra ekki síður en við viðbrögð dómsmálaráðherra eftir úrskurð Hæstaréttar í Baugsmálinu. Björn dómsmálaráðherra lýsti því yfir að dómskerfið hefði ekki sagt sitt síðasta orð í málinu og lögheimildir væru til þess að ákæruvaldið héldi málinu til streitu. Þetta vakti hörð viðbrögð enda mátti túlka yfirlýsingu ráðherrans sem afskipti handhafa framkvæmdavalds af dómsvaldinu. Út af þessu varð að vonum hvellur á Alþingi í upphafi þingfundar í gær.
Ekki tók betra við þegar leið á daginn. Þá boðaði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra til fréttamannafundar þar sem hann hóf að kryfja ákæruna annars vegar og niðurstöður Hæstaréttar hins vegar og fabúlera síðan um framhaldið. Gerðist forsætisráðherra mikill sérfræðingur og minnti á að hann hefði um sinn annast kennslu á háskólastigi: "Ég get ekki neitað því að eftir að hafa lesið þennan dóm vakna spurningar í mínum huga. Ég er endurskoðandi að mennt, og mér finnst það sérkennilegt þegar ég les það [...] að menn blandi saman hugsanlegum fjárdrætti og hugsanlegum ólöglegum lánum. Í mínum huga er himinn og haf á milli þessara mála. Ég hef engar skýringar á því."
Ríkissaksóknari fékk góða einkunn hjá forsætisráðherra: "Hins vegar finnst mér það mjög gott að ríkissaksóknari hafi ákveðið að taka málið til sín, og ég geng út frá því að ríkissaksóknari muni fá nýja aðila til þess að fara yfir málið og meta það í þessu ljósi. Ég vænti þess að ríkissaksóknari geti unnið þetta mál fljótt og vel, því þetta mál er satt best að segja búið að taka allt of langan tíma."
Síðan var dóserað um frammistöðu ákæruvaldsins en gagnstætt dómsmálaráðherra var óbein hvatning um að láta nú kyrrt liggja: "Þegar ég las þennan dóm [...] vakna spurningar í mínum huga, og ég tel að á þessu þurfi að koma skýringar. [...] Ég tel að það sé alveg ljóst að með því að ríkissaksóknari hafi ákveðið að taka málið til sín, þá liggi það alveg ljóst fyrir að hið svokallaða ákæruvald muni hugsa sig vel um áður en lengra verður haldið í málinu og ég tel að það sé mjög gott."

Halldór upplýsti á fréttamannafundinum að hann hefði rætt við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra um ummæli hans og teldi skýringar Björns fullnægjandi og klykkti út: "Ég tek að sjálfsögðu ábyrgð á mínum dómsmálaráðherra í minni ríkisstjórn".

En hver tekur ábyrgð á Halldóri og hver skyldi vilja taka ábyrgð á þessari ríkisstjórn sem nú slær enn eitt metið í furðulegheitum? Að ráðherrar skuli leyfa sér að hafa afskipti af dómstólum og réttarkerfi eins og við höfum nú orðið vitni að, hvað þá gefa stofnunum innan réttarkerfisins einkunnir á opinberum fréttamannafundum fyrir frammistöðu eða frammistöðuleysi eftir atvikum er fáheyrt.
Þau sem studdu þessa menn til valda í síðustu kosningum og bera þess vegna á þeim ábyrgð hljóta að hugsa sig rækilega um áður en þeir axla slíka ábyrgð í næstu kosningum.