Fara í efni

TIL HJÁLPAR Í NAMIBÍU – TIL TILBREYTINGAR


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 21/22.12.19. og í Morgunblaðinu 23.2019.

Rauði kross Íslands hefur ákveðið að efna til söfnunarátaks vegna neyðar af völdum þurrka og skógarelda í Namibíu.

Af þessu tilefni lögðu margir við hlustir. Kannski vegna þess að í ljós hefur komið að Íslendingar hafa verið að skrifa sögu sína í því landi á sambærilegan hátt og nýlenduríki Evrópu skrásettu sína sögu með gjörðum sínum, einkum á nítjándu og tuttugustu öldinni, en einnig fyrir þann tíma og síðar, allt fram á okkar dag, um alla Afríku, víða í Asíu og Rómönsku Ameríku.

Á nú að næla sér í syndaaflausn? Þetta voru viðbrögð einhverra þegar spurnir bárust af því að nokkrir einstaklingar undir forystu Hjálmars Árnasonar, fyrrum alþingismanns, vildu rétta þessu söfnunarátaki hjálparhönd. Tilefni er svo sannarlega til þess að brennimerkt land leiti eftir friðþægingu og eru því vangaveltur í þessa veru engan veginn út í hött.

En menn eru feimnir. Í klausu sem birtist á leiðarasíðu dagblaðs í vikunni er það sagt vera “sérkennilegt að Namibía hafi orðið fyrir valinu. Namibía er langt frá því að vera verst statt meðal Afríkuríkja og fjöldi ríkja sem verr standa.” Það er mikið rétt að þar í álfu er víða örbirgð að finna, óbærilegar hitabylgjur, mannskæða gróðurelda, sárt hungur og ágenga sjúkdóma.

Þótt enginn sem til þekkir véfengi neyðina í Namibíu kann engu að síður að vera nokkuð til í þessu skrifi á sama hátt og til voru þjáðari þjóðir en Íslendingar árið 1973 þegar gosið varð í Heimaey og Vestmannaeyingar hröktust á brott frá heimilum sínum. Þá misstu margir aleiguna. En þjóðin sjálf var ekki örsnauð, eins og Namibíumenn eru, og því í stakk búin að veita bágstöddum aðstoð, svara kalli um samstöðu. Og erlendis frá barst líka hjálp. Hún var vel þegin.

Gripdeildirnar í Namibíu, sem allir Íslendingar þekkja nú til, eru ekki einkamál nokkurra útgerðarmanna og vitorðsmanna þeirra. Í góðri trú veittu Íslendingar þróunaraðstoð sem síðan var notuð sem leiktjöld fyrir miskunnarlaust arðrán. Rannsókn á því ráni er nú hafin og ástæða til að fylgjast vel með henni.
Það er þó ekki almennings að gera upp sakir. Það eiga dómstólar að gera og síðan þarf að skila þýfinu aftur á heimaslóð.

Fyrir Hjálmari og félögum vakir hins vegar að treysta á dómgreind hjálparstofnunar um að beina hjálparfé þangað sem þess gerist þörf.    

Og nú segir Rauði kross Íslands okkur að með myndarlegu átaki megi gera brunna og leggja vatnslagnir sem geri þurrkasvæði í Namibíu sjálfbær. Átakinu sé beint að svæðum sem þrjú hundruð þúsund manns byggi og sé í fyrstu horft til átján þúsund manna byggðar sem sé í mestri neyð.
Þessar fólksfjöldatölur samsvara annars vegar fólksfjölda Íslands og hins vegar Akureyrar.  

Þegar spurt er hvort Namibía sé nokkuð sérstök – hvort hún þurfi nokkuð á hjálp að halda umfram önnur ríki, þá er svarið þetta:

Namibía er vissulega sérstök vegna náttúruhamfara en einnig vegna þeirrar sögu sem Íslendingar eiga þar.  
Vissulega á það ekki að verða okkar eina takmark að sækjast eftir velvild í Namibíu, fremur en Færeyingar gerðu í Vestmannaeyjagosinu, heldur er það velvildin innra með okkur sem öllu máli skiptir; velvild í garð þeirra sem hafa orðið fyrir barðinu á manngerðu kerfi sem við höfum smíðað, kerfi sem byggir á braski með auðlindir þjóðanna.

Nú er þörf á skilningi og velvilja í garð þeirra sem svikult brask hefur leikið grátt.
Og auðvitað er Namibía sérstök.
Við vorum þar.

(Greinin birtsist fyrst í helgarblaði Morgunblaðsins en fyrir slysni hafnaði auglýsing yfir hluta textans og var greinin því birt á ný.)