Fara í efni

ÞYRNIRÓS


Að undanförnu hef ég verið að reyna að rifja upp ævintýrið um Þyrnirós. Ég get ekki fyrir mitt litla líf munað hve lengi hún Þyrnirós í ævintýrinu svaf áður en hún var vakin upp. Getur verið að það hafi verið í hundrað ár? Hún svaf alla vega mjög lengi. Ríkisstjórnin okkar minnir svolítið á Þyrnirós. Ekki svo að skilja að ríkisstjórnin hafi sofið eins lengi og prinsessan í ævintýrinu enda aðeins búin að vera til í eitt ár. En Þyrnirós í ævintýrinu má hins vegar kallast góð ef hún hefur sofið eins fast og rikisstjórnin okkar.

Eitt er dapurlegt í þessu sambandi. Það er ef svo skyldi fara að eftir alla fyrirhöfnina við stjórnarmyndunina fyrir ári við að skapa þá umgjörð að ríkisstjórnin hlyti heitið "Þingvallastjórn" - fréttamennirnir sem þurftu að keyra til Þingvalla á hverjum degi að ljósmynda þau Geir og Ingibjörgu  vera að mynda "Þingvallastjórnina" sína gleyma þessu ekki  - ef svo skyldi fara að á daginn kæmi að allt þetta hafi verið unnið fyrir gýg. Að "Þingvallastjórnin" sem auglýsingastofurnar áttu að búa til, komi bara til með að heita eftir prinsessu úr gömlu ævintýri. Auðvitað er Þyrnirós fallegt nafn. Og í ímyndunarheimi ævintýranna var allt í lagi þótt prinsessa svæfi í hundrað ár. Öðru máli gegnir um raunveruleikann. Hvað þá þegar heil ríkisstjórn á í hlut. Það er ekkert sérstaklega sniðugt þegar ríkisstjórnir sofa. Ég tala nú ekki um þegar aðkallandi verk bíða þeirra. Þyrnirós sem nafngift á ríkisstjórn getur varla talist sæmdarheiti. En lýsandi er nafngiftin um ríkisstjórn sem helst hefur unnið það til afreka að sofa á sitt græna eyra.