Fara í efni

ÞRÚGANDI ÞÖGN UM OFBELDIÐ Í PALESTÍNU

Í ágústmánuði árið 2016 fór ég til Palestínu ásamt þremur öðrum fyrrverandi þingmönnum að þrýsta á að ungur Palestínumaður Bilal Kayed, sem verið hafði í mótmælasvelti í hættulega langan tíma yrði látinn laus en honum var haldið innan fangelsisveggja án dóms.
Í Palestínu var ég viðstaddur réttarhöld og heimsótti auk þess aðstandendur fanga, þar á meðal móður Bilals og fjölskyldu svo og samtökin Addameer sem beita sér í þágu palestínskra fanga í ísraelskum fangelsum.
Um þessa ferð skrifaði ég all ítarlega hér á síðunni og má nálgast slóðir hér:

https://www.ogmundur.is/is/greinar/samviskuspurning-dagsins

Frá heimsókn minni til Palestínu haustið 2016 hef ég reglulega fengið ársfjórðungsrit Addameer samtakanna sent til mín. Vægast sagt er þetta hrikaleg lesning því augljóst er að enginn endi er á ofbeldi af hálfu ísraelska hernámsliðsins í Palestínu.
Pólitískar fangelsanir eru daglegt brauð og á það við um börn og unglinga auk fullorðins fólks.
Ég hvet alla til að kynna sér ársfjórðungsrit Addameer sem nálgast má hér:

http://www.addameer.org/sites/default/files/publications/quarterlyaddameer.apr19.vff_.pdf 

Hið skelfilega við framvinduna í Palestínu er þögn umheimsins. Eins og við þekkjum þá segir máltækið að þögn sé sama og samþykki.

Sem betur fer er þögnin ekki alger. Sveinn Rúnar Hauksson, læknir, hefur aldrei þagnað enda gerðu Palestínumenn hann að heiðursborgara í höfuðborginni Rammallah fyrir ekki svo ýkja löngu og Björk Vilhelmsdóttir, fyrrum borgarfulltrúi, kona hans, hefur heldur ekki látið sitt eftir liggja og eiga þau ásamt öðru baráttufólki heiður skilið: https://www.ogmundur.is/is/greinar/velvildin-nadi-fra-palestinu-til-reykjavikur