Fara í efni

Þrír þankar til umhugsunar

Íslenskir fjölmiðlar hafa þegar á heildina er litið fjallað ítarlega og stundum ágætlega um stjórnarskrármálið. Þeir þurfa hins vegar að hafa sig alla við til að sjá við ríkisstjórninni, sem reynir allt sem í hennar valdi stendur til að drepa málinu á dreif.

Í fyrsta lagi er látið í veðri vaka að málið sé mjög torskilið og flókið og að lögfræðinga, ekki síður en stjórnmálamenn, greini á um nánast alla þætti þess. Með þessu móti reynir ríkisstjórnin að gera málstað sinn trúverðugri; að hann byggi á sjónarmiðum sem eigi fyllilega rétt á sér. Staðreyndin er hins vegar sú að málið er mjög skýrt og einfalt. Nánast allir lögfræðingar telja núverandi leið ríkisstjórnarinnar ófæra og yfirgnæfandi líkur á að hún brjóti gegn stjórnarskrá landsins. Enda þarf ekki annað en bregða málinu á mælistiku heilbrigðrar skynsemi til að skilja hvers vegna Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, kallaði tillögur ríkisstjórnarinnar brelluleiðina. Hún er þessi: Forseti undirritar ekki lagafrumvarp. Samkvæmt stjórnarskrá skal málinu skotið til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu. Brelluleiðin gengur út á að fella lögin úr gildi og þar með tilefni málskotsins til þjóðarinnar. Látum það nú vera ef þar með væri sagan öll. En viti menn, um leið er frumvarpið lögfest að nýju! Er þetta flókið? Það eina sem er flókið er að skilja að ríkisstjórn landsins leyfi sér aðra eins ósvífni!

Í öðru lagi er reynt að drepa málinu á dreif með því að láta líta út fyrir að það snúist fyrst og fremst um afstöðu manna til löggjafar um fjölmiðla en ekki stjórnarskrárinnar. Stjórnarsinnar tala því jafnan um fjölmiðlamálið þegar nær væri að tala um stjórnarskrármálið.

Í þriðja lagi er reynt að dreifa þeirri hugmynd að allir séu orðnir þreyttir á málinu! Fólk sé búið að fá sig fullsatt á umræðu um það. Í Kastljósi á föstudag kvað nokkuð við þennan tón. Hér þurfa ábyrgir fréttamenn að gæta sín. Að sjálfsögðu mega menn aldrei þreytast á að tala um brot á stjórnarskrá landsins! Slíku verður ekki jafnað á við hvert annað dægurmál sem menn geti leyft sér að verða þreyttir á. Ef grundvallarreglur lýðræðisins eru brotnar ber okkur skylda til að rísa til varnar og láta ekki deigan síga fyrr en sigur vinnst. Það er síðan allt annar handleggur, að fólk vill að þetta mál verði til lykta leitt hið allra fyrsta. Menn skammast sín fyrir framferði ríkisstjórnarinnar og finnst málið þjóðinni til vansæmdar.