Fara í efni

ÞRÍR SKOÐANAHÓPAR UM EFTIRLAUNALÖGIN


Hin umdeildu eftirlaunalög komu til umræðu á Alþingi í dag. Uppi eru þrjár stefnur í málinu. Í fyrsta lagi gef ég mér að þeir fyrirfinnist sem engu vilja breyta í lögunum. Þessir aðilar fara hljótt með sína skoðun. Í öðru lagi eru þeir sem vilja gera einhverjar minniháttar breytingar á lögunum. Ég tel slíkar breytingar vera til þess fallnar að drepa málinu á dreif. Í þessum hópi er formaður Samfylkingarinnar og gott ef ekki líka þingfréttaritari fréttastofu Sjónvarps sem aftur og ítrekað birtir okkur afstöðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem róttæka tilraun til að ráðast gegn spillingunni í frumvarpinu. Fyrir fáeinum dögum birti Fréttastofan frétt um að formaður Samfylkingarinnar vildi afnema lögin og í nú í kvöldfréttum mátti skilja umræðuna sem fram fór á Alþingi í dag á þann veg að Ingibjörg Sólrún berðist hatrammri baráttu gegn þeim sem stæðu í vegi fyrir því að „verstu skafankar" væru sniðnir af lögunum. Fyrir okkur sem vorum á staðnum var þetta skrýtinn fréttaflutningur. Ástæðan er sú að þriðja skoðanahópnum í þessu máli er ekki gert rétt til en sjálfur tilheyri ég honum. Þetta eru þeir sem vilja afnema lögin og færa þingmenn, ráðherra og „æðstu" embættismenn undir hið almenna lífeyriskerfi starfsmanna ríkisins. Í morgun beindi ég þeirri spurningu til formanns Samfylkingarinnar hvort hún styddi frumvarp Valgerðar Bjarnadóttur o. fl. sem gengur einmitt út á þetta. Það frumvarp liggur í salti í Allsherjarnefnd og fæst ekki tekið út úr nefndinni vegna andstöðu stjórnarmeirihlutans. Ingibjörg Sólrún gaf lítið fyrir hvatningu mína um að þingmál Valgerðar Bjarnadóttur kæmi til atkvæðagreiðslu. Þeim mun meiri áhuga sýndi hún vangaveltum Sivjar Friðleifsdóttur sem vill „hreyfa við" frumvarpinu svo notað sé orðfæri Samfylkingarformannsins. Báðar eru þær Siv og Ingibjörg Sólrún greinilega í hópi tvö; þeirra sem vilja gera minniháttar breytingar á lögunum en ekki nema sérréttindin að öllu leyti burt. Sú spurning gerist áleitin hvort Jóhanna Vigdís þingfréttakona Sjónvarpsins tilheyri líka þessum hópi. Alla vega er ljóst að henni þykir þessi málstaður áhugaverðastur og fréttnæmastur.