Fara í efni

Þriðja-leiðin er alvöru stjórnmálastefna hægri krata

Síðastliðinn mánudag skrifar Guðmundur Andri Thorsson pistil í Fréttablaðið undir fyrirsögninni Fall Tony Blair. Pistillinn er skemmtilegur aflestrar eins og við var að búast frá Guðmundi Andra og er ég sammála honum um flest. Þó er ég ósammála um eitt grundvallaratriði sem þar kemur fram. Það er reyndar svo veigamikið að mér finnst skipta máli í pólitískri umræðu samtímans að vekja á því máls. Kjarni máls er þessi: Guðmundur Andri telur  að "þriðja leiðin" hans Tonys Blairs sé einn allsherjarmisskilningur: hún "sé ekkert annað en hin klassíska jafnaðarstefna sem Bernstein lagði grunninn að í uppgjöri sínu við Karl Marx." Þessi leið hafi til dæmis verið höfð að leiðarljósi í Svíþjóð frá lokum heimstyrjaldarinnar síðari og  "þar er ríkisrekstur sáralítill, ólíkt til dæmis Íslandi, og þjóðnýting óþekkt: atvinnulífið er með öðrum orðum kapítalískt og ríkisvaldið einbeitir sér að búa fólkinu gott umhverfi í stað þess að stunda dyravarðarstörf við gáttir atvinnulífsins eins og tíðkast hér á landi."
Guðumundur Andri segir ennfremur í grein sinni, réttilega að mínu mati, að Tony Blair hafi hneigst mjög til hægri og farið "að halda að kratismi væri einungis fólginn í því að fá vinstri menn til að sætta sig við hægri stefnu." Þessu er ég svo sannarlega sammála og held ég að skýringin á því að hann hafi komist upp með þetta, hafi verið sú að kosningakerfið í Bretlandi, sem byggir á einmenningskjördæmum, er hannað fyrir tvær meginfylkingar í stjórnmálum en það hefur síðan haft það í för með sér að vinstri menn hafa þurft að sætta sig við að styðja eins konar samfylkingu allra vinstri manna undir hatti Verkamannaflokksins. Og þar hefur Blair trónað á valdastóli. Hann hefur í reynd haldið breskum vinstrimönnum í gíslingu og notfært sér völd sín og aðstöðu til að sveigja bresk stjórnmál til hægri. Réttlætingin hefur verið fundin í henni margauglýstu "þriðju leið".
Auðvitað má til sanns vegar færa að Verkamannaflokkurinn byggi að hluta til á evrópskri hefð sem á þræði til manna á borð við Bernstein hins þýska og fleiri sem fyrir hundrað árum eða svo, höfnuðu byltingu en vildu ná fram markmiðum sósíalisma eftir lýðræðislegum leiðum. Hins vegar finnst mér ekki rétt að afgreiða "þriðju leiðina", sem svo er nefnd, á eins ódýran hátt og Guðmundur Andri gerir. Ég er hræddur um að hvorki Anthony Giddens né Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, ef því er að skipta, myndi skrifa upp á slíkt en ef ég man rétt sagði hún í svokallaðri Borgarnesræðu fyrir síðustu Alþingiskosningar að Tony Blair hefði nánast stolið nýsköpunarstarfi hennar og félaga á sínum tíma, því þar hefði þriðja leiðin verið komin. Þótt þetta hafi verið sagt á grínagtugan hátt þá fylgdi þessu alvara stjórnmálamannsins, sem nánast hefur hafnað muninum á hægri og vinstri, talið þau úrelt hugtök, og þar með jafnframt í reynd hafnað hinni félagslegu arfleifð sem fyrrnefndur Bernstein skrifaði upp á.
Sannast sagna hefur mér virst sósíaldemokratískir flokkar vestan hafs og austan hafa sveigst mjög inn á svipaða stefnu og Guðmundur Andri gagnrýnir hjá Blair. Það á einnig við um norrænu kratana. Norrænu krataflokkarnir hafa einmitt sýnt tilhneigingu til að hverfa frá hefðbundnum skilningi á verkaskiptingu markaðarins og hins opinbera og þess í stað tekið að tala fyrir markaðslausnum jafnvel innan velferðarþjónustunnar. Þetta er pólitísk nýjung, nokkuð sem norrænir kratar hafa hafnað þar til á síðustu árum. Það er engin tilviljun að mönnum finnist sumir stjórnmálaflokkar, sem byggja á sósíalkratískri arfleifð, nú standa hægra megin við miðju. Slíkir flokkar skírskota einmitt mjög til hinnar "þriðju leiðar". 
"Þriðjuleiðarmenn" segja sem svo (og eiga þar samleið með hreinræktuðum hægri mönnum) : Hlutverk stjórnmálanna á að vera að skilgreina verkefnin, ákveða fjármagn til þeirra en síðan skipti ekki sköpum hver framkvæmi; það megi þess vegna gera á markaði, það kunni meira að segja vera góður kostur að halda með framkvæmdina inn á markaðstogið. Að vísu segja þessir aðilar einnig, og þar kemur hinn sósílademókratískri þráður: Samneyslan á að vera opin öllum og fjármögnuð af samfélaginu, sérstaklega eigi það við um heilbrigðis- og menntakerfið. En innan þessara kerfa, og það gildir einnig um ýmsa þætti velferðarþjónustunnar og í vaxandi mæli,  má þess vegna ríkja grimm samkeppni. Þetta hefðu eftirstríðskratarnir sænsku aldrei skrifað upp á.  Þessar áherslur gera hins vegar mjög vart við sig nú innan þeirra vébanda. Í kjölfarið hafa síðan risið deilur á milli þessara hægri krata annars vegar og vinstri manna hins vegar sem hafa bent á þau vafasömu áhrif sem markaðsmekanismarnir hafi á velferðarþjónustuna.
Í Bretlandi, á Norðurlöndum og annars staðar á meginlandi Evrópu hefur málfutningur vinstri manna einkennst af eftirfarandi: Kerfið á að þjóna notandanum, greiðandanum og starfsmanninum. Ef kerfisbreytingar leiða ekki slíkt af sér, þá eiga þær ekki rétt á sér. Eftir því sem ég hef rýnt í rannsóknarskýrslur eiga "Þriðjuleiðarmenn" mjög undir högg að sækja í rökræðunni við vinstri menn. Þegar staðreyndir um reynsluna af einkavæðingu og einkaframkvæmd innan velferðarþjónustunnar eru til dæmis færðar fram í dagslósið og þær skoðaðar hlutlægt, kemur í ljós að markaðsmekanismarnir hafa ekki gert sig. Þjónustan hefur orðið lakari, dýrari og fyrir starfsfólkið, einkum þá sem lægst hafa launin, hafa kerfisbreytingar af þessu tagi verið afleitar.
Hér er um pólitískan og málefnalegan ágreining að ræða innan þess hluta hins pólitíska samfélags á Vesturlöndum sem kveðst aðhyllast félagslegar lausnir. Við eigum ekki að láta eins og þessi ágreiningur sé ekki til staðar því staðreyndin er sú að hann er mjög raunverulegur.
Undir lok þinghaldsins í vor blossaði upp deila á milli Samfylkingar og VG um hvort heimila ætti hlutafélagavæðingu vatnsveitna. Samfylkingunni fannst rekstrarformið ekki skipta máli ( heldur væntanlega það fyrst og fremst að menn fái vatn) og ætti fyrirkomulagið við reksturinn að ráðast af vilja hvers sveitarfélags. Að mati VG eiga vatnsbólin hins vegar að vera almenningseign og  drykkjar- og neysluvatn að teljast til grundvallarréttinda sem fyrirtæki á markaði eigi ekki að hafa heimild til að eignast og hagnast á. Báðir telja sig hafa rök fyrir sínu máli. Í þessu m.a. kristallast pólitískur ágreiningur Samfylkingar og VG.
Að lokum vegna tilvitnunar minnar í grein Guðmundar Andra hér að framan um meinta þjóðnýtingaráráttu Íslendinga: Samanborið við flest Evrópuríki hefur samfélagslegur rekstur ekki verið teljandi meiri á Íslandi en víðast hvar annars staðar og sums staðar miklu meiri, sbr. t.d. Frakkland og Bretland fyrir tíma Thatchers. Hins vegar er það rétt að á Íslandi eins og annars staðar hefur samfélagslegu átaki verið beitt til að lyfta grettistaki á ýmsum sviðum samfélagsins, bæði í atvinnurekstri og í uppbyggingu velferðar- og menningarsamfélags. Það er nokkuð sem við eigum ekki að biðjast afsökunar á. Þvert á móti, þá er þetta vitnisburður um framfaravilja í þroskuðu menningarsamfélagi.