Fara í efni

ÞRENGT AÐ FRELSINU


Birtist í Fréttablaðinu 21.12.21.
Fyrir rúmum áratug sátum við mörg límd við sjónvarpsskjáinn að fylgjast með því þegar bandarískir og breskir hermenn skutu saklaust fólk á færi í Írak. Við lásum í blöðum um leyniplögg sem afhjúpuðu morð og pyntingar á ábyrgð NATÓ ríkja í Afganistan, Írak, Líbíu og víðar. Við lásum fréttir af leynilegum alþjóðasamningum um markaðsvæðingu almannaþjónustunnar. Áfram mætti telja upplýsingar sem valdahafar heimsins vildu að leynt færu en voru settar fram í dagsljósið. Gerandinn var Wikileaks sem lengi vel starfaði undir forystu Julian Assange.
Hann átti ríkan þátt í að afhjúpa stríðsglæpi, pyntingar og siðleysi í alþjóðasamningum. Að uppistöðu til eru ekki véfengdar þær upplýsingar sem Wikileaks færði fram í dagsljósið. Aðeins hitt er gagnrýnt af hálfu valdhafa að svo skuli yfirleitt hafa verið gert. Wikileaks væri njósnastofnun og forgangsmál að koma á hana böndum sagði Mike Pompeo fyrrum yfirmaður leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA, síðar utanríkisráðherra. Og Assange skyldi látinn „svara til saka” í Bandaríkjunum bætti hann við.
Lengi vel var Julian Assange í skjóli sendiráðs Ekvadors í London eða þar til í apríl 2019 þegar yfirvöld í Ekvador létu undan þrýstingi Bandaríkjastjórnar og heimiluðu bresku lögreglunni að fangelsa hann. Síðan hófst slagur fyrir dómstólum þar sem tekist hefur verið á um lögmæti framsalskröfu Bandaríkjastjórnar. Í Bandaríkjunum ætti Assange yfir höfði sér margfaldan lífstíðardóm. Slagurinn er háður í dómssal. Þó vita allir að málið snýst um pólitík, hvor skuli rétthærri, stríðsglæpamaðurinn eða sá sem upplýsir um stríðsglæpinn.
Við þurfum að svara því hvert og eitt okkar hvað við ætlum að gera. Við sem fyrir tilstilli fjölmiðla urðum vitni að ofbeldinu. Og hvað ætlar heimspressan að gera, sú hin sama og birti myndskeiðin og svo bréfin og skjölin sem sýndu fram á glæpina? Við megum ekki þegja þunnu hljóði þegar vegið er að grundvallarréttindum – ekki eins manns heldur mannréttindum okkar allra.
Kynnum okkur málin. Krefjumst þess að íslensk stjórnvöld mótmæli þegar þrengt er að frelsinu og taki undir kröfu um að Julian Assange verði látinn laus.