Fara í efni

ÞORSTEINN OG STÆKKUNARSTJÓRARNIR


Í umræðunni um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur verið um það deilt hvort hafin sé aðlögun Íslands  að bandalaginu. Aðildarsinnar eru feimnir yfir þessari staðreynd og vilja þeir halda því að þjóðinni að því fari fjarri að um aðlögun sé að ræða. Verið sé að rýna lög og reglugerðir en það sé nokkuð sem verði að gera áður en eiginlegar samningaviðræður hefjist.  Þetta er hins vegar ekki tungutakið í Brussel. Því höfum við fengið að kynnast undanfarna daga.

„Umsækjandinn aðlagi lög sín"

Angela Fiola fulltrúi á „stækkunarskrifstofu"  ESB segir að ekki sé hægt að flýta samningaviðræðum, um þær gildi „almennar reglur",  sem gangi út á að  umsóknarríkin séu  „ 100 prósent tilbúin"! Þau verði með öðrum orðum að hafa staðlað lög sín og reglur að fullu þegar til kastanna kemur.  Fréttaskýrandi á EU Observer leggur þennan skilning einnig í ferlið: „ Samhliða viðræðum, er venjan sú að aðildarumsækjandinn aðlagi lög sín svo þau séu í samræmi við lög Evrópusambandsins. (Normally, simultaneously to talks, accession candidate countries steadily adjust their legislation to ensure they are in line with EU law. )".
Hér er talað tæpitungulaust. Vandinn er sá að það var ekki þetta sem við samþykktum að gera vorið 2009 á Alþingi Íslendinga. Við ákváðum að ganga til viðræðna við Evrópusambandið, ná niðurstöðu og bera hana undir þjóðina. Þegar á daginn kemur að við erum krafin um aðlögun í sjálfu samningsferlinu og að tilkostnaðurinn er óheyrilegur við endalausa rýni- og aðlögunarvinnu þá viljum við sum hver gera kröfu um önnur vinnubrögð.

Samningamenn farnir að stjórna?

En viti menn.  Nú stíga fram samningamenn Íslands og skammast út í okkur sem leyfum okkur að setja þessar kröfur fram. Þorsteinn Pálsson, er einn af aðal talsmönnum Íslands í viðræðum við ESB. Í Speglinum á RÚV  segir Þorsteinn að ríkisstjórnin geti ekki komið fram klofin í málinu.  Hún „verði að telja skynsamlegt að gerast aðilar að ESB ef samningar nást!"  Getur verið að Þorsteinn Pálsson átti sig ekki á því að Vinstrihreyfingin grænt framboð er andvíg inngöngu Íslands í Evrópusambandið og hefur alltaf talað skýrt hvað það varðar? Í þingflokknum varð hins vegar ofan á það sjónarmið að þjóðin ætti að fá tækifæri til að greiða atkvæði um niðurstöðu samningaviðræðna. Þetta er lýðræðisleg nálgun sem ég hélt að Þorsteinn Pálsson þekkti - og virti.
Síðan segir Þorsteinn í viðtalinu í Speglinum að mjög gott væri að stjórnarandstaðan kæmi einnig að málinu. En nú bregður svo við að hún þyrfti ekki „að skuldbinda sig efnislega að fylgja málinu". Hvert á þá að vera hennar hlutverk?
Augljóst er að við verðum að stokka þessi mál upp og fá botn í hvert við raunverulega erum að halda. Eitt er að vera sammála um að vera ósammála um ESB nema það eitt að þjóðin eigi að fá í hendur niðurstöðu samningaviðræðna um helstu álitamálin og síðan greiða um hana atkvæði. Nú eru samningamenn Íslands farnir að reisa kröfur á hendur öðrum ríkisstjórnarflokknum um að hann breyti grundvallarafstöðu sinni til ESB. Flokkurinn verði að skuldbinda sig til að styðja inngöngu í ESB ef Þorsteinn Pálsson og félagar komast að niðurstöðu við samningaborð!

Ekki í mínu umboði

Í umræddu viðtali í Speglinum kom fram að Þorsteinn Pálsson væri þess fýsandi að fara um byggðir Íslands til að kynna þessi mál. Eitt er víst, að ekki gerir hann það í mínu umboði.