Fara í efni

ÞÖRF Á STÓRÁTAKI Í BANRANVERNDARMÁLUM!

DV
DV

Birtist í DV 05.05.18.
Að undanförnu hefur farið fram hatrömm umræða í þjóðfélaginu um mál sem á sér marga snertifleti: Barnaníð, aðkomu stofnana að slíkum  málum, samskiptum þeirra á milli, aðkomu eftirlits- og aðhaldsaðila, leka úr stjórnsýslunni, pólitískri ábyrgð ráðherra, hvað telja má siðlegt og ósiðlegt í umfjöllun fjölmiðla, aðkomu Alþingis og einstakra alþingismanna.
Málið varðar ágreining sem uppi hefur verið frá því á síðasta ári eftir að félagsmálaráðuneyti bárust kvartanir barnaverndarnefnda í Reykjavík og Hafnarfirði yfir afskiptum og aðfinnslum frá hendi Barnaverndarstofu og þá einkum forstjóra þeirrar stofnunar við vinnubrögð barnaverndarnefnda í þessum sveitarfélögum. Tiltekin mál voru þar tilgreind. Við þessum kvörtunum hafði ráðuneytið tekið en það á að hafa eftirlit með Barnaverndarstofu sem aftur á móti á að sinna aðhaldshlutverki gagnvart barnaverndarnefndum sveitarfélaganna.

Barnaverndarstofu ber að veita aðhald

Málin sem deilurnar virðast vera sprottnar af eru annars vegar aðfinnsla Barnaverndarstofu við framgöngu barnaverndarnefndar Reykjavíkur af máli sem var gerð skil í sjónvarpsþættinum Kveik nýlega og hafði djúpstæð áhrif. Alla vega hefði mér þótt undarlegt ef ekki hefði komið fram mjög eindregin viðbrögð af hálfu Barnaverndarstofu, ef þá ekki áminning.
Hafnafjarðarmálið er öllu flóknara að sjá - og enn flóknara hefur það orðið eftir að ný gögn hafa komið fram; gögn sem ráðuneytið virðist ekki hafa skoðað áður en komist var að niðurstöðu þar á bæ.


Fyrrverandi ráðherra vill ekki rannsókn - á sér!

Til að flækja málið enn frekar hefur forstjóri Barnaverndarstofu gert athugasemd við málsmeðferð ráðuneytisins, ekki síst í aðdraganda rannsóknar. Aðkoma ráðuneytisins hafi verið óbilgjörn, stjórnsýslureglur ekki virtar, málsgögnum verið lekið í fjölmiðla og Þorsteinn Víglundsson ráðherra tjáð sig opinberlega um efni málsins áður en rannsókn þess hafi raunverulega verið hafin.
Ef til vill er því ekki undarlegt að Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi félagsmálaráðherra vilji nú ljúka málinu hið fyrsta. Honum hrís líklega hugur við því að embættisfærsla hans verði undir í þeirri skoðun  sem nú hefur verið ákveðið að efna til.
Það ætti hins vegar að vera öllum fagnaðarefni að fram skuli fara óháð rannsókn á aðkomu allra hlutaðeigandi aðila að þessum undarlega málatilbúnaði öllum.

Enn eitt flækjustigið

Er þá komið að því að kynna til leiks enn eitt flækjustigið. Umræddur Bragi Guðbrandsson er í framboði til setu í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Sumir eru framboði hans mjög hlynntir - og er ég í þeim hópi. En einnig eru til þau sem eru þessu framboði andvíg. Þetta er skýringin á öllum þeim hauggreftri sem í gangi er til að finna ávirðingar á hendur Braga til að gera framboð hans tortryggilegt.
Í barnaverndarmálum er að finna marga sem telja sig ekki hafa notið réttar síns í íslenska barnaverndarkerfinu gegnum áratugina þótt hin séu líka mörg sem telja að þar hafi verið vörn að fá. Á báða bóga verða til bjargvættir og andstæðingar.

Undantekning en ekki regla

En þrátt fyrir allar aðfinnslur þá er veruleikinn nokkuð annar en upp hefur verið dregin í fjölmiðlum. Svo er að skilja að þegar á heildina er litið hafi samstarf milli þeirra aðila sem nú deila verið með ágætum. Hér sé um að ræða undantekningar sem sanni þá reglu. Og ástæðan fyrir því að framboð Braga Guðbrandssonar til nefndar SÞ nýtur víðtæks stuðnings á alþjóðavettvangi er barátta hans fyrir réttindum barna og tilvísan í íslensku barnahúsin sem hafa verið sett á laggirnar að hans frumkvæði.

Leki þá og leki nú

Í umræðunni að undanförnu ægir öllu saman og mótsagnirnar himinhrópandi. Sömu aðilar og kvörtuðu yfir leka í Tony Omosmálinu um viðkvæmar persónuupplýsingar, skirrast ekki við að koma slíkum upplýsingum á framfæri og birta kinnroðalaust. Lögð er að jöfnu málsmeðferð ráðherra í gerólíkum málum, alþingismenn slá fram órökstuddum upphrópunum um einstaklinga og viðkvæm málefni barna án þess að hafa kynnt sér málavöxtu, fjölmiðill og er ég þar að vísa til Stundarinnar, sýnir tilburði til að sameina það í sínum verkum að gerast upplýsingamiðill og síðan dómari á grundvelli tilviljanakenndra gagna.
Og allir þykjast vera að gera þetta allt fyrir börn sem þurfi á vernd að halda!

Treysti Ásmundi Einari

Hvernig væri nú að skapa samstöðu um að taka allt þetta kerfi til gagngerrar endurskoðunar og uppstokkunar eftir atvikum. Þarna eru nefnilega ótal brotalamir sem þarf að laga. Nákvæmlega þetta hafa verið skilaboð Ásmundar Einars Daðasonar, félagsmálaráðherra um að þurfi að gera. Ég trúi því að hann meini það og það sem meira er, ég treysti honum til þeirra verka.