Fara í efni

Þörf á samstilltu átaki

Birtist í Mbl
Mannskaðarnir á Vestfjörðum setja skugga á árið 1995 og minna á hversu harðbýlt land okkar er og hve mikilvægt er að þjóðin standi saman þegar á reynir. Djúpur harmur er kveðinn að mörgum vegna þessara og annarra slysfara. Það er umhugsunarvert að við slík váleg tíðindi virðist allt dægurþras vera sem hjóm og hjal og varla ómaksins vert.

Íslendingar hafa verið blessunarlega lausir við vopnaðan ófrið. Fréttastofur heimsins hafa flutt okkur fréttir af Balkanskaga og öðrum ófriðarsvæðum heimsins þar sem einstaklingar og fjölskyldur hafa verið að missa sína nánustu í hamförum af mannavöldum. Nú virðist raunhæft að binda vonir við að takast megi að slökkva ófriðarbálið á Balkanskaga. Ef þetta heppnast þá yrðu það gleðileg stórtíðindi ársins af erlendum vettvangi.

Gjafir eru yður gefnar

Ef litast er um á hinum pólitíska baráttuvettvangi heimsins vekur athygli að nánast hvarvetna er verið að heyja sömu baráttuna, með nánast sömu ráðum, sömu orðum og með sömu hagsmuni að leiðarljósi. Þannig eru hægri menn heimsins að gefa vinum sínum stofnanir og fyrirtæki almennings í anda boðorðsins að sælla sé að gefa en þiggja. Hér á landi gaf ríkisstjórnin brennivínsheildsöluna frjálsa, einsog það er kallað, síðastliðið vor og nýlega var greint frá því í fréttum að einkavæðingarnefnd fjármálaráðuneytisins væri stöðugt að hugsa, væntanlega samkvæmt þóknunartaxta ríkisins.

Sem dæmi um hve viðfangsefni stjórnmálanna eru skyld má nefna annars vegar þá baráttu sem Repúblikanar undir forystu Newt Gingrich halda uppi á bandaríska þinginu til að koma á kné hinni veikburða velferðarþjónustu Bandaríkjamanna og hins vegar tilraunum Juppe forsætisráherra Frakka að rjúfa þá þjóðareiningu sem um langt skeið hefur ríkt um velferðarþjónustu í Frakklandi. Þannig virðist ekki samhengi á milli þess hve mikil eða kostnaðarsöm samneyslan og velferðarþjónustan er; róttækir hægri menn jafnt vestan hafs sem austan, telja sér skylt að berjast gegn hvers konar samhjálp og sameign eftir forskriftum peningafrjálshyggjunnar, þessarar undarlegu blöndu hagsmuna og hugmyndatísku.

Margt bendir þó til að þessi bylgja sé í rénun. Þannig hafa Frakkar risið upp eftir að þjóðin áttaði sig á því að hún var á góðri leið með að verða fórnarlamb skaðlegrar hugmyndatísku og krafðist þess að fá rök stjórnvalda áður en velferðarþjónustan yrði skorin niður við trog. Þau rök komu að sjálfsögðu aldrei. Norðan Ermarsundsins, í Bretlandi, töluðu dæmin skýru máli um þau mistök sem gerð höfðu verið í krafti þessarar stefnu, hvort sem voru vatnslausir kranar í einkavæddum vatnsveitum eða hrakandi velferðarþjónusta.

Frá Nýja-Sjálandi til Íslands

En það er fyrst núna að fólk er farið að skoða af alvöru reynslu þeirra þjóða, eins og Breta og Ný- Sjálendinga, sem gengið hafa lengst til móts við sæluríki frjálshyggjunnar. Á Íslandi hefur Bretland þann ókost að vera óþægilega nálægt en Nýja-Sjáland er hinum megin á hnettinum og virðist eina ríkið sem er svo langt í burtu að íslenskir frjálshyggjumenn telji þorandi að nota sem fyrirmynd. Þess vegna bauð íslenska ríkisstjórnin ný-sjálensku einkavæðingarséníi, fyrrverandi fjármálaráðherra landsins, hingað til lands á árinu til að boða fagnaðarerindið. Á Nýja-Sjálandi eru menn hins vegar reynslunni ríkari eftir valdatíma þessa sérstaka spámanns sem leiddi af sér hverja hörmungina á fætur annarri yfir þjóðina og dró úr innri styrk hennar og efnahagsgetu. Þessar staðreyndir komu í ljós þegar BSRB lét gera rækilega úttekt á umfangsmikilum kerfisbreytingum sem frjálshyggjumenn höfðu gert á ný-sjálensku þjóðfélagi.

Innan samtaka launafólks og á vettvangi félagshyggjustjórnmála er að aukast gagnrýnin umræða um hvernig takast eigi á við efnahagsvanda þjóðanna, atvinnuleysið og skuldasöfnun á ábyrgan og uppbyggilegan hátt. Þessi hugsun hafnar einföldum kerfislausnum og byggir á því að stuðlað sé að samvinnu og sameiginlegri ábyrgð, stöðugt sé tryggt lýðræðislegt aðhald og eftirlit. Hið félagslega markmið er eftir sem áður að byggja upp þjóðfélag þar sem hver einstaklingur fær svigrúm og tækifæri til dáða en jafnframt umhyggju og samúð þegar eitthvað bjátar á.

Uppbyggileg umræða á dagskrá

Í anda þeirrar hugsunar að stuðla að uppbyggilegri umræðu af þessu tagi hefur BSRB gengist fyrir málstofufundum þar sem farið hefur verið í saumana á ýmsum álitamálum. Þannig gengust samtökin til dæmis fyrir fundi þar sem starfsfólk heilbrigðisþjónustu, stjórnmálamenn og heimspekingar veltu fyrir sér forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni. Tæknisamfélag samtímans býður upp á sífellt fleiri möguleika til að lækna fólk og sinna forvörnum. Þetta leiðir til þess að stöðugt er þrýst á aukin útgjöld og standa þjóðfélögin nú frammi fyrir miklum siðferðilegum spurningum um hvernig nýta eigi fjármagnið, hve mikið og í þágu hverra. Ljóst er að hafni menn því að láta fjárráð fólks ákvarða aðgang að heilbrigðisþjónustunni þarf að taka ákvarðanir á öðrum forsendum. Þetta er umræða sem þarf að fara fram af mikilli alvöru á næstu misserum.

Kjarasamningarnir á árinu voru ekki gerðir á vettvangi heildarsamtaka. Engu að síður reyndi Vinnuveitendasambandið og ríki og sveitarfélög að fylgja einsleitri kjarastefnu. Láglaunafélög á almennum vinnumarkaði höfðu lagt upp með jafnlaunakröfu sem aðrir byggðu síðan á, ýmist í prósentuformi eða með krónutölu og varð niðurstaðan því nokkuð mismunandi. Þetta átti við bæði á almennum vinnumarkaði og innan opinbera geirans. Engu að síður var iðulega talað eins og um samræmda kjarasamninga hefði verið að ræða sem byggðir hefðu verið á víðtækri samstöðu launafólks. Hamrað var á þeirri rangtúlkun að ríkið hefði "svikið" eins og það var orðað, jafnvel innan vébanda verkalýðshreyfingarinnar, og samið betur við ríkisstarfsmenn en gerst hefði á almennum vinnumarkaði.

Það var sérkennileg reynsla fyrir fulltrúa lægst launuðu félaganna innan BSRB að fá sendimenn Þjóðhagsstofnunar til að kanna hvort ríkið hefði samið umfram leyfileg mörk Vinnuveitendasambandsins. Löngu voru þá gleymdar launahækkanir, skattlagðar og skattlausar til háembættismanna, ráðherra og alþingismanna sem vakið höfðu réttláta reiði þjóðarinnar.

Drögum rétta lærdóma

BSRB hefur marghrakið ýmsar rangfærslur sem reiddar hafa verið fram í samanburði um kjaraþróun á síðustu mánuðum og misserum og hefur sérstaklega verið bent á í því sambandi hve mikilvægt er, að bornar séu saman sambærilegar stærðir. Launakjör ríkisstarfsmanna eru öll aðgengileg fyrir kannanir á sama tíma og launakannanir á almennum vinnumarkaði eru byggðar á úrtaki og jafnframt vitað að þær gefa brenglaða mynd af launakjörum í efri launalögunum. Mikilvægt er að efla athuganir og rannsóknir á launakjörum í landinu þannig að forðast megi yfirborðskennda og misvísandi umræðu af því tagi sem setti svip á síðustu vikur ársins.

En mikilvægast af öllu er að samtök launafólks dragi réttar ályktanir af reynslu síðustu vikna og mánaða og þeirri úlfúð sem hefur skapast innan vébanda verkalýðshreyfingarinnar. Að mínu mati er lærdómurinn sá, að þegar á að reyna að semja á svipuðum grundvelli fyrir launafólk í landinu öllu þá gengur ekki annað en að reynt sé að skapa mjög víðtæka samstöðu um slíka samninga. Einhliða valdboð gagnvart stórum hluta vinnumarkaðarins mun aldrei ganga upp til lengdar og er til þess eins fallið að grafa undan verkalýðshreyfingunni. Og við því má samfélagið síst af öllu.

Mikilvægi verkalýðshreyfingar

Mikilvægi verkalýðshreyfingarinnar kom berlega í ljós á síðustu vikum ársins þegar tekist var á um fjárlögin. BSRB beitti sér mjög gegn áformum um að skerða atvinnuleysisbætur, örorku- og ellilífeyrisbætur og einnig þeim áformum stjórnvalda að koma á til frambúðar þeirri kerfisbreytingu að þessar greiðslur yrðu ekki miðaðar við þróun launa og verðlags. Þá beittu samtökin sér mjög gegn því að tekin yrðu upp innritunargjöld á sjúkrahús og gjaldtaka á sjúkrastofnunum yrði aukin með því að krefjast gjalda fyrir svokölluð ferliverk. Ríkisstjórnin kom til móts við kröfur BSRB og annarra samtaka launafólks í þessum málum.

Eftir stendur þó að velferðarþjónustunni eru ekki tryggðir nægilegir fjármunir, og því er sú hætta fyrir hendi að draga þurfi úr þjónustu á sjúkrastofnunum á næsta ári og jafnvel segja upp starfsfólki ef ekki verða tryggðir viðbótarfjármunir. Við skoðun á millifærslukerfinu, svo sem barnabótum og vaxtabótum og stöðu velferðarþjónustunnar kemur í ljós hve hart hefur verið sótt að velferðarþjóðfélaginu á síðustu árum. Þetta viðurkenndu reyndar allir stjórnmálaflokkar fyrir kosningar og lofuðu bót og betrun. Þeim mun hlálegra var þegar ríkisstjórnin kvaðst í upphafi kjörtímabilsins myndu skila einhverju af því sem tekið hafði verið ­ en ekki fyrr en í tengslum við kjarasamninga í lok ársins 1996. Það hlýtur að vera saga til næsta bæjar að til skuli vera ríkisstjórn sem ætlar að semja við launafólk um eigin kosningaloforð.

Bjartara framundan

Án efa mun koma mikið fjármagn inn í landið með nýju álveri og á lofti eru ýmis teikn um batnandi þjóðarhag. Það er umhugsunarefni hvernig umræðan um stóriðju hefur breyst á síðasta áratug. Án efa veldur viðvarandi atvinnuleysi þar miklu. Í stað þess að sönnunarbyrði væri hjá fylgismönnum stóriðju um ágæti þess að reisa hér afkastamiklar verksmiðjur virðist sönnunarbyrðin hafa færst á andstæðinga stóriðjunnar; hvernig þeir réttlæti andstöðu við vinnustaði sem veita mörgum höndum vinnu.

Í þessu felast ákveðnar hættur; að slegið verði af kröfum um mengunarvarnir og til verði einskonar þriðja heims hugsunarháttur þar sem réttmæt gagnrýni er hrópuð niður ef hagvöxtur er annars vegar. Mikilvægt er að Íslendingar haldi vöku sinni í umhverfismálum. Enda þótt sá sem þetta skrifar hafi verið hlynntur stækkun álversins er full ástæða til að vara við andvaraleysi í þessum efnum ekki síst þar sem fréttir berast af fleiri stóriðjufyrirtækjum sem renna hýru vonarauga til íslenskra fallvatna.

Spá um batnandi efnahag þjóðarinnar eru gleðitíðindi og vonandi mun efnahagsbatinn verða nýttur til að bæta og jafna lífskjör þjóðarinnar, stytta vinnutíma og útrýma atvinnuleysi. Ef við vinnum samhent að þessum markmiðum verður komandi ár gott ár. Til að þetta gangi eftir er þörf á samstilltu átaki þjóðarinnar allrar.