Fara í efni

Þörf á naflaskoðun?

Í Bandaríkjunum er nú vaxandi gagnrýni á framgöngu bandarískra stjórnvalda í Íraksmálinu. Ítrekað hafa komið upp tilvik þar sem Bush og nánustu samstarfsmenn hans hafa reynst ósannindamenn. Leiðarahöfundur bandaríska stórblaðsins International Herald Tribune skrifar í vikunni ( 27. maí ) : “ Í ljósi vaxandi efasemda um nákvæmni upplýsinga frá bandarísku leyniþjónustunni um óhefðbundinn vopnabúnað Íraka áður en ráðist var á landið, ber að fagna því að nú skuli hafin rannsókn á áreiðanleika njósnakerfisins.” Og leiðarahöfundur Herald Tribune heldur áfram: “ Hvorki hefur enn tekist að finna gereyðingarvopn í Írak – sem var þó réttlæting fyrir árásinni – né sýna fram á tengsl á milli Saddams Husseins og Al Quaida. Þetta hefur vakið upp spurningar um trúverðugleika leyniþjónustunnar og jafnvel hefur því verið hreyft hvort staðreyndir hafi verið matreiddar til að styrkja stöðu þeirra sem vildu stríð. Þetta er grafalvarlegt mál sem krefst nákvæmrar skoðunar ekki aðeins hjá leyniþjónustunni, CIA, heldur einnig hjá æðstu eftirlitsaðilum í stjórnsýslunni og á Bandaríkjaþingi.”

Þetta er rétt. En þurfa ekki einhverjir fleiri að hugsa sinn gang? Á það til dæmis ekki við um ríkisstjórn Íslands sem snúist hefur eins og vindhani eftir því hvernig vindarnir hafa blásið í Washington. Í fyrstu sögðu þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, að bráða nauðsyn bæri til að ráðast á Írak vegna gereyðingarvopna, einhvern tíman voru það svo tengslin við Al Quaida og að lokum var það harðstjórn Saddams Husseins. Þessar niðurstöður virðast hafa orðið til án mikillar áreynslu í heilabúi þessara forsvarsmanna íslensku þjóðarinnar. Formúlan er einföld. Þeir vita hverjum þeir fylgja að málum. Það er sá sem ræður í Washington hverju sinni. Honum er fylgt í blindni. Þetta hljómar ótrúlega en svona virðist þetta vera í fullri alvöru talað. Og er þá komið að erindi þessa pistils: Þegar nú kemur á daginn að handleiðandinn hefur reynst óáreiðanlegur, ósannsögull og dómgreind hans lítil – látum siðferðið liggja á milli hluta – er þá ekki rétt að endurskoða afstöðu sína? Eins og fram kemur í Herald Tribune er komin upp krafa í Bandaríkjunum um að farið verði í naflaskoðun. Er til of mikils mælst að íslenskir stjórnmálamenn geri slíkt hið sama? Í erlendum fjölmiðlum er nú rætt um það opinskátt að Bandaríkjastjórn sé að íhuga að breyta um stjórn í Íran ( “regime change”, sama orðalag og um skeið var notað um Írak). Ef þetta gerist, myndu þeir Davíð og Halldór áfram halda Íslandi í hópi “staðfastra stuðningsríkja” Bandaríkjastjórnar?