Fara í efni

ÞÓRÐARGLEÐI

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 24/25.12.16.
„Þórður hét maður og bjó á bæ nokkrum í prestakalli mínu. Einn dag á slætti kom hann út á engjar til fólks síns og fékk þá engu orði upp komið fyrir hlátri: „He-he-he-he; he-he-he-he! Nú er það skemmtilegt hjá þeim Norðlingunum. Ég var að lesa Ísafold. Ekki þornað af strái í allt sumar þar fyrir norðan. Öll hey grotnuð niður. Enginn baggi kominn í hlöðu og nú kominn höfuðdagur." Svo hnippir hann í mann, sem hann stóð hjá, og segir ískrandi: „Skratti væri nú gaman að sjá, hvernig þeir taka sig út núna, greyin. He-he-he-he!"
Þetta hugarfar, sem gleðst yfir óförum manna, kalla Danir Skadefrohed og Skadefryd. Við eigum ekkert orð í íslenzku, sem nær gleðinni í þessari illgirni. En síðan ég heyrði söguna af Þórði bónda í prestakalli mínu, hef ég nefnt þennan hugsunarhátt þórðargleði og þann mann þórðarglaðan, sem kætist yfir því, er öðrum gengur illa."

Tilvitnunin er úr ævisögu Þórbergs Þórðarsonar um Árna Þórarinsson, prófast á Snæfellsnesi. Árni er semsagt höfundurinn að þessu hugtaki sem við öll þekkjum, Þórðargleði.

Mér verður stundum hugsað til þess hve margt skemmtilegt og fróðlegt við eigum í þjóðarhandraðnum, sem svo sannarlega er þess virði að seilast eftir til lestrar þótt þessa stundina, á lestrarhátíð jólanna, beinist sjónir okkar fyrst og fremst að nýmetinu í bókmenntun.

Um Þórberg og þetta rit hans segir Halldór Laxness í einni minningabók sinni : " Á efri árum samdi hann absúrdsögu í fimm bindum um absúrdmann, Árna prest  á Stórahrauni, og á áreiðandlega eftir að verða heimsbók" Og Matthías Johannessen rithöfundur og fyrrum ritstjóri þessa blaðs, segir bókina vera afreksverk: "Flestir munu vera sammála um að ævisagan sé einstakt rit í íslenzkum bókmenntum og eiga vart sinn líka meðal erlendra ritverka."

En tilefnið var ekki að fjalla um Árna Þórarinsson, Þórberg Þórðarson, Halldór eða Matthías, heldur hvarflaði hugurinn til þeirra eftir því sem ég leitaði fanga um uppruna Þórðargleðinnar.

Sú gleði varð mér nefnilega umhugsunarefni, svo áleitin varð hún á aðventunni. Hámarki náði Þórðargleðin þegar brúneggjamálið svonefnda gaus upp. Eðlilega urðu þeir neytendur foxillir, sem keypt höfðu hin brúnu egg með auka álagi á verðlagið, í þeirri trú að framleiðslan væri vistvænni en almennt gerðist og umhyggjan fyrir dýrunum sér á parti; hæna og maður væru undursamlega hamingjusöm í brúneggjaframleiðslunni, færandi okkur í búðarhillurnar vistvæna afurðina, sérmerkta sem slíka.
Að því marki sem þetta var gabb, þá var reiðin réttmæt.

Á hinum endanum var svo Þórðargleðin. Hún veitti mörgum mikla fró þessa dimmu skammdegisdaga. Auk þess að geta glaðst yfir óförum framleiðendanna fylgdi með alveg sérstakur gleðibónus: Þarna gæti nefnilega verið kominn áfellisdómurinn yfir íslenskum landbúnaði sem svo sárlega hefur verið saknað. Var fyrirheitna landið ef til vill nú komið í augsýn með svignandi búðarhillum undan innfluttum brúneggjum og vonandi annarri landbúnaðarframleiðslu einnig. Var stund frelsisins að renna upp?

Það er varla að ég hafi mig til þess að eyðileggja þessa gleði jólanna en samt verður svo að vera því rétt skal vera rétt, líka á jólum. Eftir stendur nefnilega að þrátt fyrir þessar brúneggjaófarir hefur ekki enn fundist salmonelluegg í íslenskri búðarhillu. Yfir því hljótum við að gleðjast en þó á annan hátt en granni Árna prófasts á Stórahrauni gerði á sinni tíð.