Fara í efni

ÞÖGLI FÉLAGINN

Birtist í Fréttablaðinu 14.01.08.
Öllum er nú að verða ljóst hvert stefnir á sviði heilbrigðismála. Sjálfstæðisflokkurinn er að komast á fullan skrið með að hrinda heilbrigðisþjónustunni út í einkarekstur. Skoðanakannanir hafa sýnt að þessi stefna nýtur ekki stuðnings þjóðarinnar. Þess vegna er beitt gamalkunnri aðferð: Við erum að gera tilraun með útvistun á starfi læknaritara, segja fulltrúar heilbrigðisráðherra á Landspítala, og að tilrauninni lokinni verður allt ferlið vegið og metið faglega og saglega. Allir vita að eftir að einkafyrirtæki verða búin að koma sér upp starfsemi með aðstöðu og mannahaldi verður illmögulegt að snúa til baka. Þetta eru sömu óheiðarlegu vinnubrögðin og endranær. Þannig er framlag til Landspítala háskólasjúkrahúss skorið niður að raungildi og spítalinn sveltur til að þröngva honum til að setja einstaka starfsþætti í einkarekstur. Þeir sem annast þessi verk fyrir ríkisstjórnina innan sjúkrahússins skirrast ekki við að segja berum orðum að starfsfólk komi til með að missa vinnuna en geti eflaust fengið störf hjá hinum nýju verktakafyrirtækjum. Ýmsir hópar lækna eru þessari þróun hliðhollir en ekki er ég viss um að þeir hafi hugsað þá þróun til enda, þ.e. þegar svo verður komið að þeir verða orðnir starfsmenn fjárfestingarfyrirtækja sem ætla að hafa tuttugu prósent arðsemi af starfi þeirra. Og fyrir skattborgarann er ég hræddur um að kostnaðurinn komi til með að rísa en ekki lækka þegar til langs tíma er litið. Þeir sem hagnast verða fjárfestar, hvorki launafólk né skattgreiðendur. Þessi þróun þarf engum að koma á óvart eftir að Samfylkingin afhenti Sjálfstæðisflokknum heilbrigðisráðuneytið. Finnst Samfylkingunni sæmandi hlutskipti að eiga aðild að ríkisstjórn en vera þar þögull áhorfandi að einkavæðingu heilbrigðiskerfisins? Hvað skyldi kjósendum flokksins finnast um flokkinn sem þeir kusu, hinn þögla félaga í ríkisstjórninni?