Fara í efni

ÞJÓÐNÝTING AFTUR Á DAGSKRÁ

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 02/03.09.23.
NATÓ ríkin hafa sem kunnugt er sammælst um að krefja Rússa um stríðsskaðabætur. Þessum áformum var veitt mannréttindavottorð á Reykjavíkurfundi Evrópuráðsins. Til að fjármagna skaðabæturnar var ákveðið að byrja á því að taka gjaldeyrisforða Rússa eignarnámi og þar með þær “eigur” rússneskra auðkýfinga sem komast mætti yfir. Þetta er af sama meiði og kallað hefur verið þjóðnýting, það er þegar einkaeignarréttur er að engu gerður í þágu almannahagsmuna.

Þegar sósíalisminn kom til sögunnar í okkar heimshluta um miðja nítjándu öld sem andsvar við kapítalisma var mjög horft til eignarhalds á framleiðslutækjum þjóðfélagsins. Sósíalistar sáu að í krafti eignarhalds í efnahagsstarfseminni öðluðust handhafar fjármagnsins vald sem áður hafði verið í höndum erfðastétta og embættisaðals; nú voru það kapítalistarnir sem stjórnuðu, ekki aðeins innandyra í verksmiðjum sínum og fyrirtækjum heldur höfðu þeir valdatauma alls samfélagsins í sínum höndum.

Svo fór þó að verkalýður og vaxandi miðstétt vildu ekki una þessu og til varð verklaýðshreyfing sem smám saman tókst að búa svo um hnúta að samið skyldi um réttindi og kjör launafólksins og að deilumál sem upp kæmu á vinnustað yrðu leyst við samningaborð. Á vettvangi stjórnmálanna reyndu stjórnmálaflokkar hlynntir málstað verkalýðsins að koma á sem mestum jöfnuði með sköttum og millifærslum.

Menn vildu ganga mislangt í þessum efnum, sumir vildu félagslega eign á öllum atvinnutækjum og ef það fengist ekki með góðu þá með illu, með þjóðnýtingu eins og tíðkaðist í Bretlandi og á meginlandi Evrópu – eða með byltingu þar sem nánast allur atvinnurekstur var færður í almannaeign. Og byltingar komu - og fóru, eins og við þekkjum.

Á Vesturlöndum varð smám saman til kokteill málamiðlana, eignarhald skyldi vera félagslegt á svokölluðum innviðum, rafmagni, vatni, heilbrigðis- og skólaþjónustu svo og starfsemi sem augljóslega væri samfélaginu nauðsynleg. Önnur viðfangsefni yrðu leyst á markaðstorginu. Hvar markalínur ættu að liggja á milli félagslegrar eignar og markaðar var háð margvíslegum aðstæðum og þá fyrst og fremst pólitískum styrkleikahlutföllum og sögulegum hefðum.

Víða á Vesturlöndum myndaðist sæmileg sátt um meginlínurnar. Eignarhald á atvinnutækjum hætti að vera mál málanna og um þjóðnýtingu ræddu vinstri menn aðeins í hálfum hljóðum. Hér á landi töluðu hægri menn gjarnan um stétt með stétt.

En auðvitað voru átök og stundum harkaleg. Þýski félagsfræðingurinn Wolfgang Streeck benti á það að alla tuttugustu öldina og alveg fram undir aldamót hefðu hægri menn mátt vita að vinstri vængur stjórnmálanna myndi rétta kúrsinn færu þeir offari. Þeim væri því óhætt að láta reyna á þanþolið. Sósíaldemokratar og sósíalistar væru þeim eins konar bjarghringur. New Deal Roosevelts Bandaríkjaforseta og kenningar hagfræðingsins Keynes hefðu verið slíkir bjarghringir. En svo kom þó að enginn bjarghringur var lengur til staðar.

Það gerðist þegar það komst í tísku að horfa til markaðarins sem allsherjarlausnar. Nú fóru skilin á milli hægri og vinstri að verða óljós. Meira að segja verklaýðshreyfingin fór að taka þátt í einkavæðingunni, hér á landi gerðist hún virkur milliliður í heilbrigðisþjónustunni og lét sér í léttu rúmi liggja þegar hafist var handa um markaðsvæðingu raforkunnar. Jafnvel afhending sjávarauðlindarinnar í hendur nokkurra kvótahafa hækkaði ekki blóðþrýstinginn á þeim bæ að heitið gæti.

Þróunin undanfarin ár er greinileg: Auðræðið styrkist, lýðræðið veikist. Þetta er alþjóðleg þróun. Hjá sjálfum Sameinuðu þjóðunum eru fjárgróðaöfl orðin áhrifarík innan lykilstofnana. Þannig er Alþjóðaheilbrigðisstofnunin í vaxandi mæli fjármögnuð af auðkýfingum og þar vegur lyfjaiðnaðurinn þungt. Og nú fáum við að heyra að til standi að hann setji heiminum reglur.

En eru engin takmörk? Fyrrnefndur Streeck sagði einhvers staðar að sennilega yrði það kapítalismanum að falli að hann æti yfir sig. Banameinið yrði með öðrum orðum græðgin, hann tortímdi sjálfum sér með ofneyslu.

Í þessu kann að vera sannleikskorn en varla mun mikið gerast nema fram komi krafa frá þeim sem verða fyrir barðinu á misskiptingu og valdníðslu kapítalismans – og að þeirri kröfu verði fylgt eftir.

Og þá aftur að stríðsskaðabótum á hendur Rússum og eignarnáminu til að fá þær greiddar. Ég hafði um þetta nokkur orð þegar krafan kom fram, minnti á Versalasamningana fyrir rúmri öld þegar Þjóðverjum var gert að borga fyrir allt tjón í heimstyrjöldinni fyrri og gangast við því að eiga sök á öllu illu í því stríði. Ég minnti á að þetta hefði auðveldað Nasistum áróðurinn um hinn ósanngjarna heim umhverfis Þýskaland sem svo aftur kallaði á hefnd.

Einhver hafði á orði að þarna færi ég villur vegar. Jú, vissulega stæði til að þjóðnýta gjaldeyrisforða Rússlands erlendis, gera hann upptækan en þar væru líka eignir rússneskra milljarðamæringa. Eignir þeirra væru illa fengnar og því ætti einkaeignarréttur ekki við um þær. Væri ég andvígur því að taka slík verðmæti eignarnámi?

Ekki vildi ég andmæla þessu en spurði á móti hvort ekki væri þá eitthvað fleira sem væri illa fengið eða teldust óréttmætar eignir sem þyrfti að endurheimta til þjóðfélagsins. Hvað skal segja um Brim og hvað um Samherja?
En hvað sem líður svörum við slíkum spurningum þá er niðurstaðan þessi: Þjóðnýting hefur aftur verið sett á dagskrá.