Fara í efni

ÞJÓÐIN DÆMD TIL FJÁRSEKTAR

 

Það ber helst til tíðinda um þessar mundir að Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt þjóðina til að greiða útgerðarfyrirtæki í Vestmannaeyjum tvo milljarða í skaðabætur fyrir fjárhagstjón sem fyrirtækið telur sig hafa orðið fyrir þegar það hafi verið svipt möguleika á því að bæta hag sinn umfram það sem það þó gerði.

Með öðrum orðum, gamla formúlan að verki, mikið vill meira. Stórútgerðarfyrirtæki sem hafði mikið vildi enn meira. Og nú segir dómstóll að nákvæmlega þannig skuli það vera. Hæstiréttur hafði komist að þeirri niðurstöðu árið 2018 að þjóðin væri skaðabótaskyld og nú hefur Héraðsdómur sett verðmiðann á það sem okkur, hinum brotlegu, beri að greiða.

Tildrög þessara málaferla voru þau að ráðherra í ríkisstjórn, sem hér sat í kjölfar bankahrunsins árið tvö þúsund og átta, áðstafaði heimildum til veiða á makríl, sem gerði sig á þeim árum heimakominn á Íslandsmiðum, á þann hátt að þjónaði þjóðinni sem best í þeim þrengingum sem þá urðu. Sjávarútvegsráðherrann sem hér um ræðir var Jón Bjarnason.

Kjarni máls var sá að hann heimilaði smábátaflotanum að veiða makríl í ríkari mæli en stórútgerðin taldi ásættanlegt, hélt hún þó sínum veiðiheimildum óskertum, vildi bara fá viðbótina alla til sín! Inn í þær deilur sem af þessu hlutust fléttaðist einnig hvernig farið skyldi með verðmætin, hvort makríllinn skyldi unnin í mjöl eða til manneldis eins og ráðherrann vildi.

Í mínum huga leikur enginn vafi á því að ákvarðanir sjávarútvegsráðherra á þessum tíma höfðu mjög jákvæðar efnahagslegar afleiðingar því að afraksturinn af makrílveiðunum fór nú í fleiri tóma vasa en ella hefði orðið, gagnaðist sjávarbyggðum vel og þjóðarbúinu í heild sinni.
En nú hefur öllu þessu verið snúið á hvolf. Sama þjóð og áður vildi nýta sér eigin eign sér til bjargar í þrengingum sínum er dæmd til að borga stórútgerðarfyrirtæki skaðabætur fyrir að það skuli ekki hafa fengið óáreitt að mala gull.

Nú skulum við gefa okkur að þegar rýnt sé í öll þau lög sem dómstólar hafi skoðað í tengslum við þetta mál að um tiltekin álitamál hafi verið að ræða. Spurningin snýst þá um það hvernig lögin séu túlkuð, á hvað sé horft; hvaða markmiðum þau hafi átt að þjóna þegar þau voru sett. Þetta er stundum kallað andi laganna.

Og hver er þá þessi andi laganna? Hann er að finna í fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða og er eins afdráttarlaus og skýr og verða má: “Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.”

Nú veit hvert mannsbarn í landinu að þessum markmiðum hefur ekki verið fylgt – enn sem komið er. Þar er við vesaldóm stjórnmálamanna að sakast og undanskil ég ekki þá ríkisstjórn sem ég sat sjálfur í á árunum eftir hrun. Báðir stjórnarflokkarnir í þeirri stjórn höfðu lofað kjósendum að stokka upp fiskveiðistjórnarkerfið en stóðu síðan ekki við þau loforð. Síðari ríkisstjórnir hafa þaðan af síður sýnt nokkra tilburði í þessa átt nema síður sé og ekki verður annað séð en að stjórnarandstöðuþingmenn hafi engan áhuga á að koma sjávarauðlindinni aftur “heim” til sjávarbyggða Íslands heldur eigi hún heima á alþjóðlegum markaði með nýtingargjaldi eins og hugmyndafræði um nútíma hráefnanýlendur boðar. Þetta er í samræmi við þá stefnu að halda áfram að þjappa auðnum saman í fárra höndum.

Stjórnmálamenn hafa þannig hlaðið varnarvegg utan um prívathandhafa sjávarauðlindarinnar sem í því skjóli sýna af sér sífellt meiri hroka gagnvart almenningi. Fyrir nokkrum mánuðum birtist í dagblaði grein eftir einn helsta kvótahafann þar sem hann kvaðst hafa verið að fara yfir bókhaldið hjá sér og sæi hann ekki betur en að þar stæði skýrum stöfum að hann ætti þetta allt saman sjálfur. Þar átti hann við fiskinn í sjónum!

Hvað er til ráða? Dómstólar verða í alvöru að hugleiða hvernig það geti gerst að komist sé að þeirri niðurstöðu að eigandi sjávarauðlindarinnar, íslenskt samfélag, sé dæmt til skaðabóta fyrir að nýta eign sína sjálfu sér til bjargar á þrengingartímum; hvert réttarríkið stefni þegar dómsvaldið kemst að niðurstöu sem augljóslega misbýður allri sanngirni og réttarvitund fólks í landinu?

Það sem mestu máli skiptir þó er að almenningur vakni til vitundar um rétt sinn og knýi stjórnmálmenn til þess að horfa til almannahags þegar um auðlindir landsins er að ræða. Auðvitað verður þessu máli áfrýjað. En það er ekki nóg. Reisa verður þá kröfu sem stundum hefur hljómað:
Sjávarauðlindina aftur til sjávarbyggða Íslands.
Kvótann heim!