Fara í efni

Þingmál um vímuefnavarnir gagnrýnt

Í yfirgripsmikilli grein sem Þorleifur Gunnlaugsson skrifar í dálkinn frjálsir pennar hér á síðunni í dag kemur fram hörð gagnrýni á þingsályktunartillögu sem ég flyt ásamt Þuríði Backman um úrræði fyrir áfengis- og vímuefnaneytendur. Tillagan er svohljóðandi: "Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að láta fara fram könnun á forvarnar og meðferðarúrræðum fyrir áfengis og vímuefnaneytendur. Í  framhaldi af slíkri könnun verði settar fram tillögur um úrbætur með það fyrir augum að stuðla að heildstæðum lausnum að markvissri nýtingu fjárstuðnings frá hinu opinbera".
Með tillögunni fylgir greinargerð þar sem meðal annars er spurt hvort til greina kæmi að setja á fót greiningarstöð fyrir áfengis- og vímuefnaneytendur. Þetta verður Þorleifi tilefni til eftirfarandi ummæla: "Íslendingar hafa þann rétt að leita sér lækninga hjá þeim sjúkrastofnunum og læknum sem þeir treysta best. Annaðhvort í gegnum heimilislækna eða með beinu sambandi. Af hverju ætti alkóhólismi að vera tekinn öðrum grundvallartökum en aðrir sjúkdómar? Örlar kannski á fordómum eða vilja menn vera sjálfum sér samkvæmir og leggja til að sett verði á fót háls, nef og eyrnagreiningarstöð, tannlæknagreiningarstöð , geðgreiningarstöð o.s.frv. Ef ekki, væri þá ekki við hæfi að viðurkenna rétt alkóhólista til að fara á milli viðurkenndra lækna og heilbrigðisstofnana eins og aðrir sjúklingar? Það má líka velta því fyrir sér hvort fjármunir teknir til sérstakrar greiningarstöðvar yrðu ekki teknir frá meðferðastarfinu sjálfu."
Í  greinargerð þingsályktunartillögunnar er talað um að kanna beri hvort koma eigi á fót greinigarstöð og vissulega væri þar um að ræða stofnun. Að þessu leyti eru þetta rökréttar vangaveltur hjá Þorleifi Gunnlaugssyni. Ástæða er hins vegar til að vekja athygli á að þetta mætti einnig nálgast með öðrum hætti. Í umfjöllun minni um þingmálið á Alþingi sagði ég að hér væri fremur verið að tala um aðferð en stofnun, samræmda faglega staðla til þess að beina viðkomandi einstakingum inn í markvissan farveg; inn í farveg þar sem mismunandi aðilar, sem ynnu að uppbyggingu einstaklingsins, vissu hver af öðrum og þar sem væri að finna vegvísa fyrir fjárveitingarvaldið. Þetta eru ekki fordómar, tel ég vera, og fyrst samlíking er gerð við aðra þætti heilbrigðisþjónustunnar, þá má einmitt spyrja þessara spurninga þar einnig. Eru það mistök að hafa ekki tekið upp tilvísanakerfi í læknisþjónustu?
En að lokum þetta að sinni: Þeir aðilar sem eru faglegir og vinna markvisst og hafa auk þess sannað sig, þurfa ekki að óttast rækilega úttekt og umræðu um þennan geira heilbrigðisþjónustunnar eins og lagt er til í umræddri þingsályktunartillögu. En haf þú þakkir fyrir skrifin Þorleifur! Mikilvægt er að fá mikla og góða umræðu um þessi mál.
Sem áður segir geta lesendur kynnt sér rök Þorleifs í dálkinum frjálsir pennar. Sjá: https://www.ogmundur.is/is/greinar/thorleifur-gunnlaugsson-skrifar-thingflokkur-vg-a-villigotum-i-vimuefnamalum