Fara í efni

Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins dregur rangar ályktanir

Einar K. Guðfinnsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins veltir vöngum yfir því á heimasíðu sinni hvort ég sé orðinn sammála ríkisstjórninni í fjölmiðlamálinu. Vitnar hann þar í vangaveltur mínar hér á síðunni að undanförnu um hræringar í Norðurljósum. Segir Einar að ég hafi ólmast "gegn frumvörpum ríkisstjórnarinnar, sem vildi koma í veg fyrir ofurvald fárra á fjölmiðlunum í landinu og stemma stigu við því að markaðsráðandi fyrirtæki á einu sviði gætu sölsað undir sig fjölmiðlamarkaðinn." Nú hins vegar hneykslist ég "á fjárfestingarvendingum Baugsmanna í fjölmiðlarisanum Norðurljósum og skyldum fyrirtækjum." Þetta telur þingflokksformaðurinn til marks um að ég sé "að ná áttum".
Stefna okkar í VG hefur alltaf verið mjög skýr í þessu svokallaða fjölmiðlamáli. Við höfum viljað ræða löggjöf á þessu sviði heildstætt og með hliðsjón af áformum um framtíð Ríkisútvarpsins sem Sjálfstæðisflokkurinn vill sem kunnugt er hlutafélagavæða. Í þinglok í vor lýsti Geir H. Haarde fjármálaráðherra því jafnframt yfir að hann vildi að dregið yrði úr umsvifum Ríkisútvarpsins á næstunni! Í valkostunum sem fjölmiðlanefnd ríkisstjórnarinnar tefldi fram síðastliðið vor var hins vegar fyrsta tillagan á þá lund að efla bæri Ríkisútvarpið sem mótvægispól gegn fjölmiðlarisum á markaði!
Ríkisstjórnarliðið talaði út og suður í þessu máli og  Sjálfstæðisflokkurinn heyktist á því á endanum  að leiða til lykta umræðuna um Ríkisútvarpið. Staðreyndin er svo vitanlega sú, að VG hefur alla tíð varað við því að hleypa fjármagnsöflunum inn á gafl í öllum vistarverum samfélagsins. Þess vegna höfum við lagst gegn einkavæðingu, þar með talið á Ríkisútvarpinu. Afstaða Sjálfstæðisflokksins virðist mér hins vegar vera sú að afhenda beri allar þjóðareignir, hverju nafni sem þær nefnast, fjárfestum á markaði. Síðan komi vel til greina að reisa fyrirtækjum einhverjar skorður, sérstaklega ef þau reynast Sjálfstæðisflokknum óþægur ljár í þúfu. 
Hér eru fyrri skrif.
Heimasíða Einars K. Guðfinnssonar: www.ekg.is