Fara í efni

ÞING BSRB Í VIKUNNI


Á morgun, miðvikudag, verður 41. þing BSRB sett á Grand Hótel í Reykjavík undir kjörorðinu EFLUM ALMANNAÞJÓNUSTUNA – EFLUM LÝÐRÆÐIÐ.
Með þessu leggja samtökin áherslu á mikilvægi almannaþjónustunnar, ekki aðeins sem grundvöll velferðarsamfélagsins heldur einnig lýðræðis í landinu.
Undanfarin ár hafa einkennst af mikilli markaðs- og einkavæðingu, ekki aðeins hér á landi heldur víðs vegar um okkar heimshluta. Hér á landi hefur fjármálakerfið, símaþjónustan og ýmis önnur starfsemi þegar verið tekin úr höndum hins opinbera að öllu leyti og ýmsir geirar heilbrigðisþjónustunnar lúta í vaxandi mæli markaðslögmálum.

Með því að færa undirstöðuþætti almannaþjónustunnar undan handarjaðri almennings eru völdin færð til nýrra eigenda, handhafa fjármagnsins. Þess vegna dregur einkavæðingin úr almannaáhrifum en eykur að sama skapi tök fjármálamanna á þjóðlífinu. Vilji menn hins vegar kröftugt lýðræðisþjóðfélag þá gefur auga leið að þeir hinir sömu verða að standa vörð um almannaþjónustuna. Ekki nóg með það: Hana þarf að stórefla. Þetta leggur BSRB áherslu á með kjörorði sínu. Um þetta er víðtæk samstaða innan BSRB þótt mismunandi skoðanir séu að sjálfsögðu á því, í stórum þverpólitískum samtökum, hvar draga eigi línurnar á milli opinberrar þjónustu og einkareksturs. Þar er ekki til neinn Stórisannleikur. Þann sannleika þarf einfaldlega að finna á hverjum tíma og það gerist aðeins með rökræðu þar sem allir kostir og gallar eru krufðir til mergjar.

Þing BSRB eru haldin á þriggja ára fresti og er stefna samtakanna og áherslur þar til skoðunar og mótunar. Á þriðja hundrað fulltrúar sækja þingið.