Fara í efni

„ÞETTA FÓLK"


Það er engu líkara en „þetta fólk" ætli að skipta um sjávarútvegskerfi á Íslandi!
Hvaða fólk skyldi framkvæmdastjóri SA hafa verið að tala um í fréttum Sjónvarps í kvöld? Hann var að tala um Alþingi og ríkisstjórn Íslands. Sem framkvæmdastjóri Verslunarráðsins til langs tíma og síðan sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hefur Vilhjálmur Egilsson verið einn valdamesti maður í landinu um langt skeið. Það var hann á meðan flokksfélagar hans í Sjálfstæðisflokknum réðu á Alþingi og í Stjórnarráði Íslands. Á þeim tíma voru stjórnvöld samtökum atvinnurekenda þóknanaleg enda þeim leiðitöm. Nú talar Vihjálmur Egilsson sem maður hrakinn úr vistarverum sínum. Hann ávarpar hústökufólkið í Stjórnarráðinu: Hvað vill „þetta fólk" upp á dekk? Gera breytingu á kvótakerfinu? Ef svo er, tökum við ekki í mál að semja, segir framkvæmdastjóri SA. Breyting á kvótakerfi, engar kauphækkanir! Hótunin er ótvíræð.
Nú vill svo til að ég ber hlýjan hug til Vihjálms Egilssonar. Þekki hann af mjög góðum kynnum sem einstakling. En hitt hljóta menn að sjá - einnig Vihjálmur sjálfur - að sem handhafi í valdakerfi misnotar hann vald sitt með því að reyna að bregða fæti fyrir stjórnvöld sem eru að framfylgja stefnu sem þau voru kosin út á í lýðræðislegri kosningu.
http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4547298/2011/03/30/0/