Fara í efni

ÞETTA ER MATURINN OKKAR

MBL  - Logo
MBL - Logo
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 28/29.05.16.
Kál er ekki sama og kál. Til er kál til manneldis og það er misjafnt að gæðum. Síðan er til kál til fóðureldis fyrir svín. Einnig það er misjafnt að gæðum. Og þarna er náttúrlega skörun á milli. En eflaust má koma öllu þessu káli fyrir í búðarhillum. Og þar gefst neytendum kostur á að velja á grundvelli verðlags og gæða.
Efnalitlir munu neyðast til að sætta sig við lökust gæði vegna verðlagsins en efnameira fólkið skiptir verðlagið minna máli.

Eins er það með aðra matvöru. Kjöt er ekki sama og kjöt. Til er kjöt sem framleitt er með hormónum til að örva vöxt og í slíku kjöti er reglan sú fremur en undantekningin, að þar sé að finna leifar sýklalyfja, sem gripirnir hafa verið sprautaðir með á meðan þeir söfnuðu kjöti á bein sín. Þetta kjöt er ódýrt í framleiðslu, ekki síst ef framleiðendur hafa ekki verið um of plagaðir af regluverki um góða meðferð dýra.

Þegar pottur hefur verið brotinn í þessu efni á Íslandi hefur verið reynt að bæta úr eins og nú er gert í svínaræktinni. Þótt ýmsu hafi verið áfátt hjá okkur á ýmsum sviðum í dýrahaldi, þá stendur þar flest til bóta. Þá verður ekki horft framhjá því að íslenskir búfjárstofnar eru sjúkdómsfrírri og þar af leiðandi lausari við sýklalyf en gerist í öllum löndum í kringum okkur. Það á við um þau lönd sem vilji stendur nú til hjá stjórnvöldum að heimila að auka innflutning á kjöti til Íslands.

Þetta á sérstaklega við um svínakjöt og kjúklinga. Í Evrópu er fiðurféð reyndar sumpart lengra að komið og munu ódýrustu kjúklingarnir ættaðir frá Kína. Þar hafa menn ekki haft miklar áhyggjur af dýraverndarsjónarmiðum þagar kemur að því að seðja milljarðamarkaðinn.

Óheillasamningurinn við Evrópusambandið frá síðasta hausti um aukinn innflutning þaðan á kjöti, hefur enn ekki verið staðfestur á Alþingi. Samtök launafólks í matvælaiðnaði hafa varað við því að svo verði gert og vilja að áður verði ráðist í rannsókn á afleiðingum fyrir landbúnaðinn og innlenda matvælaframleiðslu. Svipuð sjónarmið voru uppi á síðasta þingi Bændasamtakanna.

Á Alþingi hafa einnig komið fram varnaðarorð þótt vissulega séu þar einnig til staðar þau sem segjast tala fyrir hönd neytenda og reyna að sjá fyrir sér verðmiðana á kálinu og kjötinu.

En snúast ekki neytandasjónarmið líka um gæði? Og viljum við ekki að öll þjóðin búi við gott og heilsusamlegt fæði og að það eigi að gilda jafnt um börn frá fátækum og ríkum heimilum? Þetta hefur verið ríkjandi sjónarmið á Íslandi til þessa. Þess vegna niðurgreiðum við mjólk en ekki kók. Og þess vegna leggjum við upp úr því að hafa heilnæma matvöru í hillunum fyrir alla.

Er útlent fólk þá almennt aðfram komið af neyslu sýklakjöts og eggja með salmonellu? Nei, langt í frá. Og flest höfum borðað slíka fæðu erlendis um lengri eða skemmri tíma án þess að kenna meins. Eflaust má lifa hamingjusömu lífi af svínakáli og hormónakjöti. Þó er óviturlegt að vanmeta áhrf slíkrar fæðu á heilsufar og vellíðan.

Gæði fæðunnar sem við neytum að staðaldri skiptir nefnilega máli. Og ef við höfum eitthvað sem er sannanlega gott og heilnæmt, hvers vegna fórna því? Kjötið, mjólkin, grænmetið og fiskurinn eru meira en vörur í búðarhillu. Þetta er maturinn okkar.