Fara í efni

"Þekktur Íslendingur" fundinn

Fyrir nokkrum dögum efndi einn lesandi síðunnar til eins konar getraunar. Hann birti skrif einstaklings, sem hann kvað vera "þekktan Íslending" og bað menn geta sér til um hver það væri. Í skrifunum var gerð samlíking á milli mjólkurkaupa annars vegar og sölu ríkisbankanna hins vegar. Þótti "þekktum Íslendingi" enginn munur á þessu tvennu: “Það er ... ótrúlegt af þingmönnum að hafa þau orð um sölu ríkisfyrirtækja að þau hafi verið afhent einhverjum. Þarna er vísvitandi verið að reyna að blekkja fólk. Þegar ég fer út í búð eftir mjólk tala ég ekki um að kaupmaðurinn hafi bara afhent mér mjólkina! Ég kaupi mjólkina. Ég greiði fyrir hana, set hana ofan í poka og fer heim og drekk hana. Þegar viðskiptabankarnir voru seldir var það að undangenginni auglýsingu þar sem öllum gafst tækifæri á að skila inn verðhugmyndum og síðan var eignin seld. ... Þingmenn VG reyna hinsvegar að búa til vafasamar myndir af þessu ferli og satt best að segja finnst mér það afar ósmekklegt og í raun algerlega óviðeigandi af alþingismönnum að reyna að koma að ósönnum lýsingum á atburðum.”
Og nú var spurt, hver skrifar. Það var eflasut vegna samlíkingarinnar við mjólkurkaupin, að vinningshafa í getrauninni var heitið að verðlaunum "fernu með undanrennu í fljótandi formi", sbr. lesendabréf 19.feb.
Nokkrir lesendur spreyttu sig á getrauninni en aðeins einn var með rétta lausn, kona bústt í Svíþjóð, sem ekki vildi láta nafns síns getið. Hún sagði að hún hefði komist á sporið vegna þeirrar vísbendingar, að höfundur hlyti að hafa mikla innsýn í viðskiptalífið og auk þess ákveðin viðhorf til Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Auðvitað hlaut þetta að vera viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir á heimasíðu sinni: http://www.valgerdur.is/index.php?frett_id=224&cat=pistlar