Fara í efni

ÞEIM FJÖLGAR SEM VILJA KJÓSA Á NÝJU ÁRI

Fréttatíminn - rétt mynd
Fréttatíminn - rétt mynd

Það er misskilningur hjá Fréttatímanum að ég hafi sérstöðu um það í stjórnarandstöðunni að telja heppilegra að kjósa næsta vor en að kjósa með hraðupphlaupi í haust. Ég studdi eindregið tillögu stjórnarandstöðunnar að efna til vorkosninga núna og talaði og skrifaði í þá veru innan þings sem utan. Vorkosning var hugsuð sem viðbrögð við aðstæðum sem kölluðu á viðbrögð. Síðan komu viðbrögðin með afsögn forsætisráðherrans.
https://www.ogmundur.is/is/greinar/motmaelin-staerri-en-einn-madur

Svo fór að tillagan um vorkosningar var felld sem kunnugt er.  Eftir standa þá tveir kostir haust- eða vorkosningar. Hvað ræður þar úrslitum í mínum huga? Stjórnarandstaðan hlýtur að vilja tryggja úrslit sem veita henni stjórnarmeirihluta á Alþingi. Til þess að svo megi verða, þurfa allir flokkar sem segjast vilja kenna sig við félagshyggju, að ná vopnum sínum. Líka þeir flokkar sem nú eru á hnjánum. Það er auk þess gott fyrir lýðræðið að allir merkisberar stjórnmálaviðhorfa séu í færum að koma viðhorfum sínum á framfæri. Í annan stað þá hef ég fært rök fyrir því að heppilegra sé að kjósa um vor en um haust.
https://www.ogmundur.is/is/greinar/thad-a-ad-kjosa-a-vorin

Fréttatíminn minnir á að ég hafi oft farið mínar eigin leiðir í stjórnmálum og nú sem endranær „bregðist ég ekki aðdáendum mínum" með sérsinna afstöðu.

Staðreyndin er hins vegar sú, eftir því sem ég fæ best heyrt á tali manna á meðal á Alþingi, að þeim fjölgi innan stjórnarandstöðunnar sem eru sömu skoðunar og ég hvað tímasetningu Alþingiskosninga varðar, þótt almennt flíki menn ekki slíkum skoðunum.