Fara í efni

ÞEGAR SAMVISKAN TALAR

Þessa dagana ólgar blóð í æðum við Kárahnjúka. Andstæðingar náttúruspjallanna þar andæfa  og lögreglan grípur inn, stöðvar mótmælin og hneppir einhverja mótmælendanna í varðhald. Af þessu tilefni varð mér hugsað til þeirrar atburðarásar sem leiddi þessi ósköp yfir okkur. Miklar tilfinningar hafa verið á báða bóga, annars vegar í röðum virkjunarsinna og ekki síður hjá þeim sem telja umrótið við Kárahnjúka óafturkræf náttúruspjöll sem nánast varði við glæp.
Helgi Seljan Jóhannsson hefur tilheyrt báðum hópum. Á sínum tíma var hann hlynntur virkjun við Kárahnjúka. Síðan snerist honum hugur. Í báðum tilvikum talaði hann eins og samviskan bauð honum. Þetta er virðingarvert. Pistill Helga Seljan, sem hann flutti á Talstöðinni nýlega hefur farið afar víða, enda áhrifamikill. Helgi varð góðfúslega við ósk minni að birta pistilinn hér á síðunni og birtist hann í dálkinum Frjálsir pennar í dag. Ég hvet alla þá sem ekki hafa lesið pistil Helga að kynna sér hann því pistillinn er sérlega áhrifaríkur og einkar fróðlegur þar sem hann gefur góða innsýn í þankagang ungs fólks á Austurlandi og þá innri baráttu sem það hefur sumt hvert háð.

Mótmælin við Kárahnjúka nú og nýleg "skyrmótmæli" í Reykjavík vekja margar spurningar. Hin mikla hneykslan sem grípur margan manninn vegna þessa andófs kalla til dæmis fram í huga mér ferð til Kárahnjúka talsvert áður en nokkur leyfi höfðu verið gefin til framkvæmda. Engu að síður voru stórvirkar vinnuvélar mættar á svæðið og framkvæmdir hafnar. Þetta var undir yfirskyni rannsóknarvinnu en hverju barni mátti vera ljóst að annað og meira var á ferðinni. Yfirlýsingar ráðamanna frá þessum tíma og í aðdraganda framkvæmda voru enda allar á einn veg: Það átti að hefja framkvæmdir hvað sem tautaði og raulaði. Framkvæmdir í trássi við leyfi og lög voru þess vegna hafnar. Enginn Prestsetrasjóður ( mér skilst að ríkisstjórnin beiti honum blessuðum fyrir sig sem landeiganda) kallaði þá til lögreglu til að stöðva hina ólöglegu spellvirkja. Enda um að ræða löggilta spellvirkja, ekki "stórglæpamenn" sem leyfa sér að láta samviskuna stjórna sér til að koma í veg fyrir stórfelldustu náttúruspjöll Íslandssögunnar, framin fyrir silfurpeninga frá erlendum auðrisa.