Fara í efni

ÞEGAR SAMFÉLAGSLÍMIÐ GEFUR SIG

Tímaritið Frjáls Verslun birtir jafnan langan lista yfrir ætlaðar tekjur ýmissa starfshópa í þjóðfélaginu. Tímaritið á mikið lof skilið fyrir þetta framtak. Þjóðin fær innsýn í kjör hátekjufólksins og örvar þetta umræðu um kjaramál í samfélaginu, um skiptingu verðmætanna og félagslegt réttlæti eða ranglæti - eftir atvikum.

Sjaldan man ég eftir eins miklum viðbrögðum og nú. Hvar sem fólk hittist í dag var rætt um siðleysi sjálftökufólksins sem rakar sumt til sín milljónum, ekki á mánuði, heldur á degi hverjum! Upp til hópa er þetta einstaklingar í banka- og fjármálaheimi, sem eru búnir að hreiðra bærilega um sig í pottþéttu samtryggingakerfi þar sem stjórn og stjórnendur hvíla í stöðugu faðmlagi – allir bærilega haldnir í kjörum. Þetta eru ekki bankamenn heldur bankarænigjar  varð einum viðmælanda mínum að orði í dag. Ummæli dagsins átti þó ritstjóri Frjálsrar Verslunar. Hann kvað vera augljóst að samkvæmt þessum tölum væri framleiðnin mest í bönkum, þess  vegna væru launin þar svona há! Það er nefnilega það. Það er þá væntanlega nánast engin framleiðni á kössunum í matvöruverslununum því ekki er háum laun þar fyrir að fara. Ég efast ekki um að á hátindum bankakerfisins kunna að vera margir mjög virkir einstaklingar – ofvirkir myndu einhverjir segja. Sú virkni er hins vegar að leiða okkur inn á mjög vafasamar brautir því þessir menn eru búnir að dæla inn í hagkerfið fleiri hundruð milljörðum króna á síðustu misserum, fé sem nánast allt er tekið láni í útlöndum. Að auki hafa þeir fengið talsverðan hluta af lífeyrissparnaði landsmanna til að véla með. Meira um það síðar.

Það sem ég vildi segja almennt um þessa þróun er að hún er stórvarasöm. Thatcher sagði, virkjum græðgina. Davíð Oddsson sagði virkjum eignagleðina og orðaði þannig hugsun Thatchers á geðfelldari hátt. En þetta er þó sama hugsun. Og nú hefur heldur betur tekist að virkja græðgina. En það er ekki með öllu saklaust að gera slíkt. Það er nefnilega ekki nóg með að græðgisþjóðfélagið sé ranglátt og lítt eftirsóknarvert að búa í. Í græðgisþjóðfélaginu er losað um límið sem heldur okkur saman sem samfélagi. Misréttið sem skefjalaus græðgi og auðsöfnun leiðir af sér veikir félagsleg gildi og dregur úr samstöðukrafti þjóðarinnar. Mönnum hættir að finnast þeir heyra saman. Á örlagastundum er talað um að leggjast sameiginlega á árarnar. Með slíku átaki má fá miklu áorkað. Og með samstöðunni hefur þjóðinni í tímans rás oft tekist að framkvæma undraverða hluti jafnvel við erfiðar aðstæður. En það er ein forsenda sem þarf að vera til staðar til að fá fólk til að leggjast sameiginlega á árarnar. Menn þurfa að vera á sama bátnum.