Fara í efni

ÞEGAR OFBELDIÐ RÆÐUR FÖR

Abu Graib fangelsi
Abu Graib fangelsi

Til eru þeir í heimi fjölmiðlunar sem reyna að skilja hvað liggi að baki hryðjuverkunum í Evrópu að undanförnu. Dæmi um slíkt eru nýlegar fréttir á RÚV annars vegar og umfjöllun Styrmis Gunnarssonar, fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins í laugardagsútgáfu síns gamala blaðs hins vegar.

Að undanförnu hef ég spurt svipaðra spurninga varðandi ofsóknir tyrkneskra yfirvalda á hendur Kúrdum sem þegar hafa leitt til þess að 300.000 Kúrdar eru á flótta í sínu heimalandi. Þetta eru flóttamenn morgundagsins í Evrópu. Afleiðaingarnar eru stigvaxandi hryðjuverk á báða bóga.  

Í öllum samfélagum er til hófsemdarfólk og einnig hinir sem eru ofsafengnari. Því meira ofbeldi sem samfélag er beitt þeim mun meiri hljómgrunn fá hinir hefnigjörnu. Þetta er sá leikur sem ráðandi öfl í Tyrklandi leika nú gegn Kúrdum. Í friðarferli undangenginna tveggja ára hafa hinir hófsömu í röðum Kúrda stýrt för. Ofbeldisaðgerðir stjórnarhersins eru hins vegar vatn á millu hinna herskárri.
https://www.ogmundur.is/is/greinar/grimmdarverk-i-tyrklandi
https://www.ogmundur.is/is/greinar/tyrkneskt-utgongubann-i-bodi-nato
https://www.ogmundur.is/is/greinar/hvad-er-ad-gerast-a-imrali-eyju 

Ég get vel ímyndað mér að hefði ég verið teymdur nakinn á fjórum fótum um fangelsið í Abu Graib af Vesturlanda-sadistum, hýddur og pyntaður, þá efast ég um að sálarró mín væri sú sem hún þó er.

Fólk ætti að leggja það á sig að skoða þessar myndir:
Abu Ghraib prison photos
http://www.antiwar.com/news/?articleid=8560  

Síðan þarf að spyrja í alvöru hvort men telji að það hafi virkilega ekki áhrif þegar 60 óbreyttir borgarar eru drepnir í loftárás Vesturveldanna eins og í Mosul í Írak fyrir fáeinum dögum? Það eru ekki bara ISIS sem stunda ofbeldið og sýna grimmd sína. Sjá þessa frétt RÚV:

http://www.ruv.is/frett/studningsmenn-isis-rettlaeta-arasir-i-brussel

Síðan er það Morgunblaðsgrein Styrmis sem ég leyfi mér að birta hér á síðunni:

Hvers vegna hata þau okkur svona mikið?

Þýzkur þingmaður Græningja, Franziska Brantner að nafni, varpaði fram spurningu á Twitter í kjölfar hryðjuverkanna í Brussel og hún var svona:

»Hvers vegna hata þau okkur svona mikið?«

Eitt svar við þeirri spurningu má finna í hinni athyglisverðu bók Gunnars Þórs Bjarnasonar sagnfræðings, »Þegar siðmenningin fór fjandans til« - Íslendingar og stríðið mikla 1914-1918, sem út kom fyrir síðustu jól.

Þótt þar sé fjallað um samskipti Belga og Kongóbúa eiga þær lýsingar efnislega við um samskipti hinna kristnu evrópsku menningarþjóða við nýlendur sínar víða um heim og þá m.a. í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum.

Gunnar Þór segir:

»Mannréttindi voru ekki Evrópubúum efst í huga í Afríku, þótt þeir hafi ekki átt í neinum vandræðum með að réttlæta nýlendustefnuna með göfugum markmiðum. Þau fólust í því að breiða út kristna trú, útrýma þrælahaldi og siðmennta Afríkubúa... Fyrst og fremst sóttust Evrópubúar þó eftir landi, auðlindum álfunnar, mörkuðum og vinnuafli innfæddra... Átakanlegt dæmi um það hvernig Afríkubúar urðu fyrir barðinu á græðgi nýlenduherranna eru örlög innfæddra í Kongó. Leópold annar Belgíukonungur hafði augastað á þessu feiknastóra landflæmi í suðurhluta Afríku, sem var töluvert stærra en Frakkland, Þýzkaland, Ítalía og Spánn til samans. Árið 1885 stofnaði hann fríríkið Kongó og tókst að fá stórveldin til að viðurkenna yfirráð sín. Kongó var um tveggja áratuga skeið í reynd persónuleg eign konungs en varð belgísk nýlenda árið 1908.

Leópold talaði hátíðlega um að mennta Kongóbúa og lyfta þeim á hærra menningarstig. Raunverulegur ásetningur hans var þó að kreista eins mikinn ágóða út úr þessari eign sinni og framast var unnt. Verzlun með fílabein var afar arðbær en eftir að farið var að nota loftfyllta gúmmíhjólbarða á reiðhjól og bifreiðar um 1890 varð fjandinn laus. Gúmmí varð mjög eftirsótt en það var á þessum árum eingöngu unnið úr kvoðu gúmmítrjáa... Ástandið í Kongó var skilgetið afkvæmi nýlendustefnunnar. Framferði Evrópumanna var hrottalegt, þeir svifust einskis í gróðafíkn sinni, líkast því sem þeir hafi vonast til að frumskógurinn skýldi þeim fyrir augum umheimsins. Konum og börnum var haldið gíslum þar til karlmennirnir höfðu reitt af hendi tilskilið magn af gúmmíkvoðu... Fólk var hýtt miskunnarlaust, limlest fyrir minnstu sakir og jafnvel myrt í hópum. Heilu þorpin voru brennd til grunna. Stundum var vopnuðum sveitum nýlenduherranna gert að skila inn afskornum útlim fyrir hverja byssukúlu, sem þær höfðu notað.«

Og svo spyr þingmaður á þýzka þinginu nú: Hvers vegna hata þeir okkur svona mikið?

Þetta er að vísu ekki lýsing á því, sem gerðist í Mið-Austurlöndum, en dettur einhverjum í hug að áþekkir atburðir hafi ekki gerzt annars staðar þar sem fulltrúar hinna evrópsku menningarþjóða fóru um fyrir rúmum hundrað árum? Þar bjuggu þær gjarnan til ný lönd, sem tóku ekkert mið af stöðu mála á staðnum heldur hentuðu þeirra hagsmunum. Þannig urðu Írak, Sýrland og Líbanon til. Svona eins og Danir hefðu ákveðið að Vestfirðir skyldu tilheyra Grænlandi.

Þetta er ekki tilraun til að afsaka hryðjuverk. En þetta er tilraun til að skilja hvað veldur þeim ósköpum, sem eru að dembast yfir Evrópu og hafa m.a. þau áhrif að Íslendingar - sem og aðrir - hljóta að spyrja sig spurninga áður en þeir taka ákvörðun um að heimsækja helztu menningarborgir Evrópu.

Þótt ekki sé lengur krafizt afskorins útlims fyrir hverja byssukúlu (áttu refaskyttur hér ekki í eina tíð að skila refaskottum?) varð hugsunarháttur nýlenduherranna býsna lífseigur. Sumarið 1956 lærði ég ensku á skóla í London og fylgdist því grannt með Súez-deilunni sem þá varð til. Sir Anthony Eden, forsætisráðherra Breta, talaði um það eins og sjálfsagðan hlut að Bretar og Frakkar ættu Súez-skurðinn, sem lá um land Egypta. Það var eins og ef Bandaríkjamenn hefðu kastað eign sinni á Miðnesheiði og talað eins og okkur kæmi ekki við hvað þar gerðist.

Þjóðverjar voru látnir borga svo þungar stríðsskaðabætur eftir heimsstyrjöldina fyrri að önnur heimsstyrjöld brauzt út. Það er hægt að færa rök fyrir því að Evrópuþjóðirnar, þ.e. þær sem hlut eiga að máli, eigi að borga fyrrverandi nýlendum sínum bætur fyrir meðferðina á fólkinu og stuld á auðlindum þessara þjóða.

Það er skollið á eins konar stríð í Evrópu og því mun ekki linna fyrr en nýlenduþjóðirnar horfast í augu við eigin sögu og afleiðingar hennar.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, segir réttilega að í hryðjuverkunum í Evrópu felist »atlaga að lýðræði okkar og siðmenningu, mannréttindum, jafnrétti og frálsri umræðu«.

En á móti má spyrja: Í nafni hvaða siðmenningar voru útlimir skornir af í Kongó fyrir hverja byssukúlu fyrir rúmum hundrað árum?

Hryðjuverkamennirnir sem vaxa upp á götum Parísar, Brussel, Lundúna og fleiri borga í Evrópu munu ekki hætta að drepa fólk fyrr en hinar siðuðu þjóðir Evrópu hætta að bregðast við aðsteðjandi vandamálum með gaddavírsgirðingum, táragasi og gúmmíkúlum og hótunum um að beita alvörubyssukúlum.

Það er kominn tími á að rétta fram höndina til fátæka fólksins í heiminum. Ella mun það storma um borgarhliðin í Evrópu, eins og það gerði í París fyrir rúmlega 200 árum."

Sjá ennfremur: http://eyjan.pressan.is/frettir/2016/03/27/thvi-meira-ofbeldi-sem-samfelag-er-beitt-theim-mun-meiri-hljomgrunn-fa-hinir-hefnigjornu/