Fara í efni

Þegar markaðslausnir eru andstæðar skynsemi og þjóðarhag

Birtist í Morgunpósti VG 21.08.04
Eins og fram hefur komið í fréttum og skrifum m.a. í Morgunpósti VG eru strandsiglingar að leggjast af við Ísland. Þegar Skipaútgrerð ríkisins var einkavædd árið 1992 trúðu margir því að Eimskip og Samskip myndu stunda grimma samkeppni sín í milli, sem færði landsmönnum góða þjónustu á hagkvæmum kjörum. Þeir sem þessu trúðu varð ekki að óskum sínum. Skipafélögin telja sig hafa meiri arð af annarri starfsemi en sjóflutningum við Íslandsstrendur og tóku því ákvörðun um að leggja strandsiglingarnar niður. Við þessu er lítið hægt að segja annað en ræða hvernig brugðist skuli við. Það hefur farið nokkuð fyrir brjóstið á markaðshyggjumönnum að stungið skuli hafa verið upp á því að samfélagið sinnti strandsiglingum fyrst einkafyrirtæki bjóða ekki upp á þann kost. Einkafyrirtækin heimta að vísu margbreiða og styrkta akvegi sem skattborgarinn eigi að standa straum af en lítið fer fyrir því að spurt sé um þjóðarhag. Það er mikil blinda að býsnast yfir ríkisafskiptum og niðurgreiðslum en sjá ekki að grunnþættir samgöngukerfisins, hvort sem það eru vegir, hafnir eða flugvellir eru einmitt kostaðir af almannafé. Í eðli sínu er því ekki grundvallarmunur á mannvirkjagerðinni og sjálfum flutningunum. Að sjálfsögðu þarf samfélagið að skoða málin heildstætt og meta hvernig sameiginlegum fjármunum er best og hagkvæmast varið í almannaþágu. Hægri sinnaðir leiðarahöfundar á Morgunblaðinu og Fréttablaðinu hafa hins vegar haldið því fram að fyrirtæki á markaði eigi hér ein að stýra för. Þegar þau heimti hafnir, þá skuli gerðar hafnir. Þegar þau vilji enn breiðari vegi þá skuli svo verða!

Reglulega er samgönguáætlun rædd á Alþingi. Þegar samgönguáætlun fyrir árin 2003-2006 kom til umræðu á þingi bárust umsagnir fjölmargra hagsmunaaðila, þar á meðal frá Félagi íslenskra skipstjórnarmanna.

Í umsögn félagsins þótti mér mælt af miklum hyggindum auk þess sem mjög eftirtektarverður þjóðhagslegur samanburður var gerður af þeirra hálfu á milli sjóflutninga annars vegar og land- og loftflutninga hins vegar. Almennt lýsti félagið sig „fylgjandi þeirri stefnu að samgöngumál séu skipulögð sem samstæð heild í stað þeirrar tilhögunar sem áður var, að líta á hvern hinna þriggja þátta samgangna sem afmarkaðar stærðir, skipulagslega og hagrænt“.

Hér koma síðan tvö samanburðardæmi

Félagið leggur mikla áherslu á „að í samgönguáætlun þurfi að meta hagrænt gildi mismunandi samgöngumáta …Með því að leggja niður sementsflutninga með Skeiðfaxa milli Akraness og Reykjavíkur voru flutningarnir færðir á vegakerfi landsins. Til að flytja sama magn á þeirri tímeiningu sem skipið flutti, þarf lest 10 sementsflutningabíla og er orkunotkun þeirra varlega áætluð um 800% meiri en fer til að knýja skipið sömu leið, með tilheyrandi aukningu í útblæstri og mengun. Bílalestin leggur slitálag á 49 km. af vegakerfi landsins, en skipið notar við sömu störf tvo viðlegukanta, vita og önnur leiðarmerki sjófarenda, auk eigin tæknibúnaðar.

Mánafoss minnsta skipið í strandflutningum (fyrir utan olíuskip og báta) flytur um 3.300 tonn af vörum. Flytji Mánafoss það magn af vörum í órofinni siglingu milli Reykjavíkur og Akureyrar tekur það um 27 klst. miðað við meðalaðstæður. Í áhöfn eru 14 menn. Með því að flytja sama magn á vegakerfinu þessa leið, á sama tíma, þurfa 28 fulllestaðir vöruflutningabílar með tengivagni að fara 3 ferðir hver, á milli Reykjavíkur og Akureyrar. Er þá miðað við hámark í leyfilegum öxulþunga við bestu aðstæður og 60 km. meðalhraða á bíl. Til að anna þessu á 27 klst, þarf tvo bílstjóra á hvern bíl eða 56 menn. Þessi “bílalest” leggur, á 27 klst. tímabili, slitálag 84 fullestaðra flutningabíla á 389 km. af vegakerfinu. Ef flytja á sama flutningsmagn með flugi sömu leið á sömu tímeiningu og sjóflutningurinn tekur, með meðalgerð af flutningaflugvél (C-130), þarf að fara 118 ferðir milli Reykjavíkur og Akureyrar sem þýðir að 13 slíkar flugvélar þurfa að vera í stöðugum ferðum milli þessara staða í umrædda 27 tíma og er þá aðeins reiknað með 3 klst. í hverja ferð fram og til baka. Til að anna þessu þarf 3 áhafnir á hverja flugvél eða 78 menn auk flugvirkja til þjónustu milli ferða.“


Hér er vikið að hagkvæmni, kostnaði og mengun. Þótt Eimskipafélagið telji sig geta grætt meira á öðru en strandsiglingum við Ísland er ekki þar með sagt að samfélagið sé dæmt til aðgerðarleyis. Slíkt má aldrei gerast þegar markaðslausnir eru andstæðar skynsemi og þjóðarhag.