Fara í efni

ÞEGAR FORTÍÐIN GUFAR UPP


Svolítð erfitt er að átta sig á Staksteinum Morgunblaðsins í dag að öðru leyti en því að ritstjóri blaðsins tekur þar undir með forystu Sjálfstæðisflokksins um að álitamál sé hvort sá flokkur eigi yfirleitt nokkra samleið með ríkisstjórninni í Icesave-málinu. Tilefnið er viðtal við mig síðastliðinn föstudag í Spegli RÚV þar sem ég furðaði mig á þessari afstöðu flokksins í ljósi þess sem á undan er gengið. Hef ég hvatt til þverpólitískrar samstöðu í þessu máli og minnt á að þegar þeirri aðferð hefur verið beitt í yfirstandandi erfiðleikum þjóðarinnar þá hefur það skilað árangri. Til marks um það eru Icesave fyrirvaranrir frá í sumar. Þar komu allir stjórnmálaflokkar á Alþingi að málum, þar á meðal Sjálfstæðisflokkurinn.
Í Staksteinum er síðan fjallað um mína ábyrgð í þessu máli og klykkt út með eftirfarandi: "Eða þarf Ögmundur að horfast í augu við það, eins og aðrir þingmenn, að það geti oltið á honum hvort Íslendingar verða "fórnarlömb", svo notuð séu hans eigin orð, "gömlu nýlenduherranna" - og spyrja sig hver valkosturinn er við það." 
Ekki skal standa á mér að axla mína ábyrgð. Á hitt hef ég þó alla tíð lagt áherslu að þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra og á að leysat á þvrerpólitískum grunni. Þessarar skoðunar hef ég verið allar götur frá því  í haust þegar þáverandi ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokkinn við stýrið þverskallaðist að hafa samráð við stjórnarandstöðu þegar hún skuldbatt þjóðina vegna Icesave illu heilli. Skrýtið að heyra þennan stjórnmálaflokk nú tala eins og öll fortíð hafi gufað upp.
Hér er slóð á fyrrgreint Spegilsviðtal: http://dagskra.ruv.is/ras1/4489399/2009/09/18/