Fara í efni

ÞAU KVÁÐU KJARK Í ÞJÓÐINA

íslenski fáninn
íslenski fáninn

Stundin í Dómkirkjunni í morgun var hátíðleg og þjóðahátíðarpredikun séra Hjálmars Jónssonar var afar góð. Nú þegar þjóðfáninn blakti við hún í tilefni þjóðhátíðardagsins, tákn þess frelsis sem barist var fyrir forðum, fáni sem aldrei hefði verið blóði drifinn, væri ástæða til að minnast þess hvernig Íslendingar hefðu öðlast fullveldi sitt og sjálfstæði: "Sjálfstæðið var ekki útkljáð á vígvöllum. Áræðið fólk talaði máli lítillar þjóðar sem vildi standa á eigin fótum. Við áttum skáld, andans menn og trúar, sem kváðu kjark í þjóðina og minntu hana á hugsjónir sínar. "

Margan hamingjudag

Séra Hjálmar vísaði í markmið sjálfstæðisbaráttunnar. Þau hefðu verið öllum ljós og vísaði þessu til árettingar í Íslandsvísur Jóns Trausta, og fór hann með fyrsta erindið:

„Ég vil elska mitt land, ég vil auðga mitt land,
ég vil efla þess dáð, ég vil styrkja þess hag."
Ég vil leita að þess þörf
ég vil létta þess störf.
Ég vil láta það sjá margan hamingjudag."

Dómgreind og skynsemi

Margt umhugsunarvert kom fram í predikuninni og þá ekki síst áminning séra Hjálmars um mikilvægi góðrar dómgreindar: „Það er brýnt á tímum þegar aumasta bloggið og ljótasta lygin er jafnsett hæstu gildum og hugsjónum - og fær jafnmikið svigrúm í umræðu dagsins. Þegar hending ræður því eftir hverju er tekið og hvað vekur umhugsun og umræðu. Þess vegna er ennþá ríkari þörfin fyrir dómgreind og skynsemi."

Sjá nánar: http://domkirkjan.is/