Fara í efni

ÞAR SEM ER VILJI ÞAR ER VEGUR

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 29/30.04.23.
Fyrirsögnin er ekki orðalag Johns F. Kennedy en þetta var inntakið í ræðunni sem hann flutti í Washington 20. janúar árið 1961 þegar hann sór embættiseið sinn sem forseti Bandaríkjanna: Allt er hægt.

Tveimur árum síðar, 28. ágúst árið 1963, flutti Martin Luther King einhverja mögnuðustu ræðu allra tíma á sama stað, funheitt ákall um mannréttindi svartra og pólitísk og efnahagsleg réttindi öllu undirokuðu fólki til handa.

Fimm árum síðar höfðu báðir þessir menn verið ráðnir af dögum.

En þeir skildu eftir sig arfleifð sem hafði gríðarleg áhrif, ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur um allan hinn vestræna heim. Ég á mér draum, hrópaði Martin Lúther King og milljónirnar hrifust með og tóku undir; ég á mér þann draum að takast megi að uppræta hvers kyns ranglæti, efnahagslegt og pólitískt, og að það verði gert með réttlæti að leiðarljósi, því myrkrið sigrar ekki myrkrið, aðeins fyrir birtunni víkur myrkrið.
Og draumsýn Martins Lúthers King færði mönnum von sem John F. Kennedy hafði tendrað þegar hann minnti á hvers maðurinn væri megnugur. Ef hann aðeins vildi, þá væru honum allir vegir færir. En það gæti orðið hvort sem væri til góðs eða ills. Maðurinn byggi orðið yfir getu til að gera hvort sem væri, að eyða öllu lífi á jörðinni eða að uppræta eymd og fátækt í allri sinni margbreytilegu mynd á þessari sömu jarðarkringlu.

Og upprennandi kynslóðir vildu síðari kostinn, framfarir og friðsamlega framtíð. Í hönd fór tími bjartsýni á takmarkalausar framfarir.

Svo urðu kaflaskil. Ekki vegna þess að framfarirnar létu á sér standa. Heldur vegna hins, að maðurinn fór að missa tökin. Og nú er spurt hvort geti verið að sama tæknin, sömu framfarirnar sem áður vöktu bjartsýni séu í þann veginn að taka af okkur völdin? Er mannkynið komið upp í áhorfendastúku og fylgist þaðan með því að fámennur hópur auðmanna spinni því örlagavef. Og getur það verið að tæknin sé einnig orðin spunameistari en ekki lengur þjónn? Er gervigreind að taka yfir? Er búið að finna upp nýja Síberíu? Í stað þess að senda menn í fangabúðir, sé einfaldlega slökkt á þeim, bankakortið gert óvirkt svo ókleift verði að ferðast og kaupa í matinn. Kínverjar munu vera búnir að læra þetta. Og í kovid fékk heimurinn allur að kynnast því hversu nærri við erum komin að hættulegum mörkum þess frelsis sem Kennedy sagði að öllu væri fórnandi fyrir í ræðunni fyrir sextíu og tveimur árum.

Um þetta væri verðugt að gera þáttaröð í sjónvarpi, helst margar þáttaraðir og hafa stöðuga umfjöllun í öllum fjölmiðlum til varnar frelsinu. Við þurfum að rísa upp mennskunni til varnar, minna okkur sjálf á að við getum verið gerendur. Að við þurfum ekki að standa og horfa aðgerðalaus á heiminn tekinn frá okkur.

Það er ekki bara í Davos í Sviss sem peningamenn hreiðra um sig. Í Reykjavíkurborg er þessa dagana verið að selja fjárfestum hlut í Ljósleiðaranum svo þeir megi gera sér hann að leik, embætti Ríkisskattstjóra er flutt úr eigin húsnæði og látið leigja svo að færa megi fjárfestum tekjur og arð í vasann, grásleppan er á leið í kvóta og fjöll og bergvatnsár eru færðar í eignarhald utan landsteinanna; allt er að gerast og á forsendum fjármagnsins.

Þurfa menn ekki að fara að rumska í áhorfendastúkunni?

Ónefndur er túrisminn. Vissulega hefur hann fært björg í bú. En öllu má ofgera. Og öllu er ofgert ef fjármagnið fær að stjórna. Og þannig er það. Fjármagnið stjórnar.

Þótt flestum finnist ágangur ferðamennskunnar vera orðinn of mikill og raski jafnvægi í þjóðfélaginu, hótel séu reist út í hið óendanlega á kostnað íbúða fyrir hinn almenna mann auk þess sem náttúrunni sé ofboðið, láta stjórnvöld reka á reiðanum. Þau telja augljóslega sitt hlutverk framar öðru vera að þjóna fjármagninu og flestum öðrum finnst ekki um annað að ræða en að horfa bara á.

Þetta verður að breytast. Hætt verði að stækka í Leifsstöð við minnsta vink frá hagsmunaaðilum og hvernig væri að draga úr ríkiskostuðum auglýsingum til heimsbyggðarinnar um að sem flestir mæti í partíið á Íslandi? Væri ekki rétt að spyrja hvað íslensk náttúra þoli? Menn segja að kínverski túristamarkaðurinn lofi góðu. Í Kína búa eitt þúsund fjögur hundruð og tólf milljónir manna. Hvað vilja menn marga?

Þurfa nú ekki einhverjir að fara að eiga sér draum; þann draum að hugsað verði upp á nýtt, að farið verði að gera í stað þess bara að vera, stýra í stað þess að láta stjórnast?
Það þarf með öðrum orðum fleiri gerendur og færri verendur.
Þá tendrast bjartsýnin á ný.
Ég held að marga sé farið að lengja eftir henni.