Fara í efni

ÞAKKIR TIL NJÁLS OG JÓNU


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 12/13.02.22.
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að stórstjörnurnar Neil Young og Joni Mitchell hafa sett tónlistar- og fréttaveitunni Spotify stólinn fyrir dyrnar. Annað hvort verði umdeildum þáttastjórnanda, Joe Rogan að nafni, vikið af Spotify eða þau hverfi á brott þaðan með alla sína tónlist en hún hefur verið hlustendum aðgengileg á veitunni.  
Joe þessi Rogan hefur mikla hlustun eins og það er kallað en talið er að hópurinn sem hlýði á þætti hans kunni að vera um ellefu milljónir manna. Hann mun fá mikið fyrir sinn snúð en á móti aflar hann mikilla auglýsingatekna. Neil Young er einnig efnahagslegt stórveldi á veitunni þannig að úr vöndu er að ráða fyrir stjórnendur Spotify.

Upptökin að deilunni eru viðtöl um Kovid faraldurinn, nú síðast við hjartalækni og ónæmisfræðing, sem vöruðu við bólusetningu barna gegn þessum sjúkdómi. Þetta fullyrða Neil Young og félagar að sé byggt á lygum og falsrökum og í yfirlýsingu sem tónlistarmaðurinn sendi frá sér segir að hann taki afstöðu með heilbrigðisstarfsfólki sem standi í framlínunni og þá væntanlega ógnað af fölsurunum.
Þeir síðarnefndu segjast að sjálfsögðu einnig vera að verja líf og heilsu og þá sérstaklega barna. Þessar deilur eiga sér hliðstæðu hér á landi og held ég að óhætt sé að segja að í hvorugri fylkingu séu bara falsspámenn.

Það breytir ekki því að ekki er allt sannleikanum samkvæmt í deilum um þessi efni. En hverjum ætlum við það hlutverk að ákveða hvar landmæri sanninda og ósanninda liggi? Augljóst er hverjir það eru sem eru að taka sér þetta vald. Það eru ríki og ríkjasambönd sem segjast ætla að ráða niðurlögum “upplýsingaóreiðu” og það eru stærstu fjölmiðlar heimsins og þar með samskiptaveiturnar á internetinu. Vald þeirra síðastnefndu er mikið því almenningur sem tjáir sig á netinu á allt sitt undir velvilja þeirra og velþóknun eins og ótal dæmi sanna. Þegar svo allir þessir aðilar eru komnir í samflot með öðrum handhöfum fjármagnsins höfum við kokteil sem ber að varast því hann gæti á endanum reynst banvænn skoðana- og tjáningarfrelsi í heiminum. Það er ekkert minna. Auðvald er ekki hugtak sem valið er út í loftið.

En nú er komið að þakkargjörðinni til þeirra Neils og Joni sem vísað er til í fyrirsögn þessa pistils. Ég er ekki sammála þeim aðferðum sem þau beita þótt það sé fullkomlega réttmætt að þau láti í sér heyra og vilji standa með sannleikanum. Það eru kröfurnar um þöggun annarra sem ég geri athugasemdir við; að þau beiti valdi auðs síns á þann hátt. Því það vald er á þeirra hendi ekki síður en annarra auðmanna. Ekki má láta það villa sér sýn þegar handhafar auðsins klæðast gallabuxum en ekki silki eins og tíðkast á jakkafataklæddu og háhæluðu Wall Street.

Það sem ég vil þakka þeim fyrir Neil Young og Joni Mitchell er að kveikja upp umræðu um rétt og rangt, skoðanir og skoðanafrelsi. Þessi umræða logar nú alls staðar og er mönnum heitt í hamsi.
Kannski förum við líka að ræða sannleika og fals um Úkraínu, Sýrland, Kúrda, Líbíu og NATÓ og gerðumst þá hugsanlega fyrir vikið gagnrýnni á Reuters, AP, Moggann, RÚV, Guardian, Washingotn Post og BBC. Í öflugustu fjölmiðlum heimsins er að mínu mati nefnilega miklu logið. Hamarð á falsi daginn út og daginn inn.
Viðbrögðin eiga hins vegar ekki að vera krafa um þöggun heldur kröftug umræða um rétt og rangt, satt og logið. Ef að líkum lætur verður í kjölfarið erfiðara að fara með ósannindi.  
Ef við stöndum ekki vörð um málfrelsið og tjáningarfrelsið þá er illa komið. Látum því umræðuna sem Njáll og Jóna hafa kveikt verða til góðs.