Fara í efni

ÞAKKIR TIL FRÉTTABLAÐISNS FYRIR UPPLÝSANDI VIÐTAL


Athyglisvert viðtal birtist í Fréttablaðinu 6. október síðastliðinn við þá Bjarna Ármannsson, stjórnarformann Reykjavik Energy Invest og Hannes Smárason, forstjóra FL Group, sem jafnframt var stjórnarformaður Geysir Green Energy. ( Reynadar veit enginn hver er stjórnarformaður hvar því efasemdir eru um lögmæti ákvarðana um samruna fyrirtækjanna og þar af leiðandi stöðu þessara manna.)

Rosalega spennandi – en kemur Íslandi ekki við!

Þeir Bjarni og Ármann segja í Fréttablaðs-viðtalinu að sameining félaganna hafi verið bæði skynsamleg og "rosalega spennandi."  
Öllum er nú ljóst hvers vegna fjárfestingarbröskurum þykir það vera "rosalega spennandi" að eignast íslensk orkufyrirtæki enda kemur fram að þeir hugsa nú gott til glóðarinnar að ná undir sig orkulindum og raforkufyrirtækjum annarra þjóða: „Við erum þegar með í pípunum fjárfestingar í fjórum heimsálfum og verulega metnaðarfull markmið til komandi ára sem krefjast bæði sérþekkingar og stuðning allra sem að þessu koma."
Athyglisverður er hlutur Íslands í huga þessara manna. Þeir segja: „Þetta snýst um að fjárfesta í virkjunum víðsvegar um heim og kemur Íslandi ekki við, nema að því leyti sem snýr að þekkingunni og baklandinu hvað það snertir."

Baklandið er Hellisheiðin, ríkisstjórnin og forsetinn!

En hvert sklydi vera baklandið? Drepum aftur niður í viðtalinu: "Bjarni segir að samstarfið við Orkuveituna skipti þannig miklu máli enda erfitt að setja verðmiða á hversu mikils virði það sé að geta farið með erlenda gesti og sýnt þeim Hellisheiðarvirkjun og Svartsengi. „Það er mikils virði. Rétt eins og mikils virði er að ríkisstjórning og forsetaembætti styðji við bakið á þessum verkefnum. En þá er líka mikils virði að fá hjálp frá einkageiranum og að menn standi saman að þessum málun í stað þess að vinna tvist og bast."
Hvað er verið að segja? Það er verið að segja okkur að Ísland skipti í reynd ekki máli að öðru leyti en því að gott sé að geta sýnt erlendum gestum (væntanlega þeim sem telja á trú um að fjárfestarnir séu traustsins verðir) íslenskar orkuauðlindir og að þeim ráði þeir yfir auk þess sem þeir hafi ríkisstjórn landsins og forsetaembættið í vasanum!!!!

Hvernig standa á vörð um íslenska hagsmuni og láta gott af sér leiða

Ég fullyrði að stórkapitalistar á borð við þá sem hér er vísað til, sem nú þykjast vera að koma að borði með einhverja ímyndaða sérþekkingu, myndu ráðstafa eignarhlut sínum til Washington, Hong Kong eða Pétursborgar á morgun ef þeir gætu hagnast á því. Hagsmunir Íslendinga verða ekki tryggðir í slagtogi við þá. Með því að halda orkugeiranum í almannaeign og sinna alþjóðaverkefnum á samfélagslegum forsendum tryggjum við hins vegar íslenskum vísindamönnum og rannsóknarstofnunum verkefni og atvinnu. Þannig stöndum við vörð um íslenska hagsmuni, jafnframt því sem við látum gott af okkur leiða á heimsvísu.