Fara í efni

ÞAGAÐ UM TÍBET


Vinir Tíbets efndu til vakningarsamkomu í Salnum í Kópavogi á sunnudagskvöld í þann mund sem Olympíuleikunum í Peking lauk með pomp og prakt. Mér hlotnaðist sá heiður að flytja ávarpsorð á þessari samkomu einsog fram hefur komið hér á síðunni. 
Frábærir listamenn komu fram við þetta tækifæri, Jón Tryggvi lék og söng, Birgitta Jónsdóttir flutti ljóð og hvatningarræðu, en hún er primus motor í , „Vinum Tíbets"  hér á landi ; Jónas Sig. lék og söng, einnig Svavar Knútur, Páll Óskar og Monica komu fram og sjálfur KK var mættur með gítarinn, sannkallað landslið.  Tíbetinn Tsewang flutti upplýsandi erindi, við sáum dansatriði og hlýddum á þjóðsöng Tíbets. Þá var Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra,  heiðraður fyrir að færa mannréttindamál í Tíbet í tal við kínverska ráðamenn í opinberri heimsókn sinni til Kína nýlega. Samkomunni stýrði Guðfríður Lilja Grétarsdóttir með glæsibrag.
Samkoman var allvel sótt en þó var fámennara en efni stóð til. Hvers vegna skyldi það hafa verið? Gæti það verið vegna þess að samkoman fékk nánast enga kynningu í almennum fjölmiðlum. Að undanskildum vefmiðli DV veit ég ekki til þess að nokkur fjölmiðill hafi birt fréttatilkynningu sem send var út um samkomuna! Ekki RÚV, ekki Morgunblaðið, ekki 24 stundir, ekki Fréttablaðið, ekki Bylgjan, ekki Stöð 2....að því er ég best veit.
Sú var tíðin að fjölmiðlar voru ófeimnir að fjalla um mannréttindabrot innan Kínverska Alþýðulýðveldisins. Hvað hefur breyst?  Það sem breyst hefur er þetta: Vesturlönd, þar á meðal Íslendingar,  hafa gert sér grein fyrir því að hægt er að græða vel á Kínverjum. Um að gera að hafast ekkert að sem truflað getur útrásarvíkinga með gróðaglampa í auga! Þetta hygg ég að sé skýringin á þögninni.  Gæti það líka verið ástæðan fyrir því að tíbetskur maður sem sendi grein til íslenskra fjölmiðla til birtingar meðan á Olympíuleikunum stóð, fékk hana hvergi birta?  Greinin var gagnrýnin á alræðisstjórnina í Kína.
Þessa grein er að finna hér:  https://www.ogmundur.is/is/greinar/birgitta-jonsdottir-skrifar-eru-olympiuleikar-politiskur-vettvangur  

Birgitta