Fara í efni

ÞAÐ ÞARF EKKERT AÐ BIÐJAST AFSÖKUNAR Á GAMLA RÚV

Gunnar Smári Egilsson, hæstráðandi á 365 fjölmiðlum, kom fram í Spegli fréttatíma Hljóðvarpsins og tjáði sig um framtíð íslenskra fjölmiðla. Hann sagði frá nýjum fjölmiðlum sem væru að fæðast á vegum fyrirtækisins, einn á morgun, annar í næstu viku, framtíðin væri björt. Er pláss fyrir áframhaldandi fjölgun fjölmiðla á ykkar snærum, spurði fréttakona. Já, sagði Gunnar Smári. Þetta væri allt saman spurning um nýtingu fjármuna. Einkareknu fjölmiðlarnir nýttu þá vel, ríkið illa.

Þegar hér var komið sögu spurði ég sjálfan mig hvort þetta ætti að vera grín eða alvara og komst að þeirri niðurstöðu að sennilega væri þetta í alvöru meint.

Fréttakonan sagði nú afsakandi að enginn léti sér til hugar koma að hverfa aftur til fyrri tíðar einokunar. En væri ekki hætta á að smám saman yrðu fjölmiðlar meiri flatneskja og útvötnuðust. Gunnar Smári hélt nú ekki.

Auðvitað er það rétt hjá fréttakonunni að ekki verður aftur snúið til fyrri tíðar einokunar. Hitt er staðreynd að fjölmiðlun hefur verið að fletjast út í seinni tíð og fyrirsjáanlegt að þar verður framhald á eftir því sem fjölmiðlunum fjölgar sem berjast um sömu krónurnar. Þetta sjónarmið kom reyndar fram hjá öðrum viðmælanda Spegilsins.

En, í framhaldi af afsökunarbeiðni fréttakonunnar yfir einokun fyrri tíma, leyfi ég mér að velta vöngum: Hvort skyldi hafa verið uppbyggilegra, hið einokandi Ríkisútvarp eða ótölulegur fjöldi einsleitra poppprógrammstöðva, sem nú eru við lýði?

Ríkisútvarpið byggði, og byggir enn sem betur fer að verulegu leyti, dagskrá sína á blönduðu efni, poppi, klassík, leikritum, erindum, fræðsluþáttum. Allir þekktu hina föstu liði á borð við Daglegt mál og Um daginn og veginn. Samkeppnin hefur tvímælalaust fært Ríkisútvarpið, ekki síst Sjónvarpið nær sápunni og yfirborðsglamúrómenningu. Samkeppnin í útvarpi hefur og orðið til þess að auka popptónlist í menningarfóðri upprennandi kynslóða.  

Fjölgun útvarpsstöðva hefur ekki aukið fjölbreytni. Þvert á móti þá hefur fjölgun stöðva dregið úr fjölbreytninni. Fjölbreytni í menningarlegu tilliti er hins vegar jákvæð og eftirsóknarverð. Síðan er ég svo gamaldags að leyfa mér að halda því fram að það hafi verið ágætt fyrir samfélagið að eiga samnefnara í því að hlýða saman á málfundinn um Daginn og veginn og annað ámóta efni. Sá samnefnari sem Ríkisútvarpið hefur veitt þjóðinni í tímans rás hefur verið til góðs. Hann hefur annars vegar haft menningarlegt og uppbyggilegt gildi og hins vegar tryggt fjölbreytni í útvarps- og sjónvarpsmenningu þjóðarinnar. Stundum finnst mér gleymast hve snar þáttur fjölmiðlar eru í menningu okkar og hve mikla þýðingu þeir hafa í uppeldislegu tilliti. Það er ekki með öllu saklaust að næra upprennandi kynslóðir nær eingöngu á ódýrum amerískum skemmtiþáttum og glæpamyndum

Eflaust hrífst margur fjölmiðlamaðurinn af fjölgun fjölmiðla, ekki síst ef hann hefur fengið í hendur alræðisvald yfir þeim. Sjálfbirgingslegt tal forsvarsmanna fjölmiðla sem fremur eru á yfirborðið en dýptina er hins vegar ekki sannfærandi. Einokun í útvarpi og sjónvarpi kemur ekki aftur. En verkefnið er að stuðla að aukinni dýpt og fjölbreytni. Það verður ekki gert með því að leggja Ríkisútvarpið niður og fjölga síðan þeim stöðvum sem allar framreiða ofan í okkur sama einsleita efnið.