Fara í efni

ÞAÐ ÞARF AÐ JAFNA KJÖRIN Í LANDINU

Í fjölmiðlum er nú fjallað um verðbólguna sem komin er framúr verðbólgumarkmiðum Seðlabankans en þau lágu til grundvallar kjarasamningum bæði á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera. Fulltrúar Samtaka atvinnurekenda segja að vel komi til greina af þeirra hálfu að segja upp kjarasamningum og í Fréttablaðinu er flennistór fyrirsögn yfir viðtölum við fulltrúa þeirra og fjármálasérfræðinga: Kaupmátturinn í landinu er of hár. Það má til sanns vegar færa að sé því haldið fram að ef krónan sé of hátt skráð miðað við þarfir íslenskra framleiðsluatvinnuvega þá sé jafnframt verið að segja að kaupmáttur þjóðarinnar sem heildar sé of mikill.
Hér þarf þó að gera tvo mjög mikilvæga fyrirvara.

Í fyrsta lagi eru mikil áhöld um að hátt gengi krónunnar hafi skilað sér í vöruverði á innfluttum varningi og þar með í auknum kaupmætti almennings. Enginn efast um að kaupmáttur stórhöndlara í viðskiptum hefur aukist. Ef krónan er hátt skráð fá innflytjendur aðkeypta vöru á lágu verði. Ég hef mjög miklar efasemdir um að þetta hafi skilað sér í verðlagningu þegar í búðarhillurnar er komið, nema að litlu leyti. Á þessu þyrfti að gera markvissa og nákvæma könnun og fylgja því síðan eftir að kaupmenn láti almenning njóta sanngjarnra kjara.

Í öðru lagi þarf að gera alvarlegan fyrirvara við þá alhæfingu að kaupmáttur allra sé of mikill. Atvinnurekendur á almennum og opinberum vinnumarkaði hafa neitað að bæta kjör þeirra sem eru á almennum kauptöxtum svo ásættanlegt sé. Toppunum er hins vegar hyglað sem aldrei fyrr. Kaupmáttur margra þeirra er of mikill. Hjá öðrum er hann of lítill. Þegar Samtök atvinnulífsins segja að til álita komi að segja upp kjarasamningum, þá eru þau í rauninni að segja að rýra eigi kjörin hjá síðarnefnda hópnum, almennu launafólki, sem býr við umsamin lágmarkskjör. Uppsögn samninga miðar væntanlega að þvi að fallið verði frá fyrirhuguðum almennum taxtahækkunum. Þetta er fráleit hugsun. Nær væri að samningum væri sagt upp til þess að hækka kauptaxtana til að halda í við verðbólguna og gott betur. Slíkar raddir hafa heyrst frá launafólki og eru þær skiljanlegar og eðlilegar.

Eflaust kæmu margir til með að halda því fram að hækkun almennra kauptaxta myndi leiða til hærri verðbólgu. Nei, segi ég. Ekki ef  gerð yrði gangskör að því að færa niður verðlag á innfluttum varningi í samræmi við hagstætt innflutningsverð. Þetta myndi draga úr verðbólgunni. Þá þarf ekki síður að draga úr kaupmætti og þar með gegndarlausri neyslu hátekjufólks og fjármálabraskara. Ég gæti hæglega skrifað upp á að dregið yrði hressilega saman hjá þeim sem skammta sér eða er skammtað, milljónir, jafnvel milljónatugir, á mánuði hverjum. Það er fyrir löngu komið að þessum aðilum að sýna samfélagslega ábyrgð og færa kjör sín til samræmis við það sem tíðkast hjá launaþjóðinni almennt. Það þarf, með öðrum orðum að jafna kjörin í þjóðfélaginu. Á sama tíma og kaupmáttur láglauna- og millitekjufólks er of lítill, er kaupmáttur þessa fólks of mikill. Við skulum ekki gleyma því að það er einkum hátekjufólkið sem ber sök á þeim hluta viðskiptahallans sem rekja má til neyslu. Þetta er fólkið sem lætur flytja til sín erlendis frá rándýran munaðarvarning og lifir bílífi sem aldrei fyrr, kaupir bíla sem kosta tugi milljóna og annað eftir því. Samtök atvinnulífsins ættu að svipast um eftir þessu fólki þegar til umræðu er að rýra kjörin í landinu. Mér segir svo hugur um að þar á bæ þurfi ekki að leita langt til að hafa upp á fólki sem vel má herða beltisólina..