Fara í efni

ÞAÐ SEM VEL ER GERT

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 25/26.07.15.
Talið er að erlendir ferðamenn færi núorðið hátt í fjögur hundruð milljarða inn í þjóðarbúið á ári hverju. Munar um minna. Með tilkomu þeirra verða til myndarlegir tekjustofnar fyrir ríki og sveitarsjóði og þar með fjármunir til að skapa aðkomumönnum þá aðstöðu sem við viljum vera þekkt fyrir að bjóða uppá eftir öll auglýstu heimboðin til Íslands í fjölmiðlum og á skjáskiltum víðs vegar um heiminn. Það má ekki gleymast að við höfum kallað þetta yfir okkur!

Á sumum ferðamannastöðum er aðstaða til mikils sóma.  Annars staðar gæti hún verið betri og sums staðar er hún afleit. Brotalamirnar þarf að laga með markvissum aðgerðum. Það er vel  leysanlegt verkefni. Sums staðar hefur það þegar verið gert  og án allra upphrópana;  salerni reist, upplýsingaskiltum komið fyrir og haganlegir stígar gerðir. Síðan hafa ágætir veitingastaðir komið til sögunnar og verslanir með áhugaverðan varning.

Hvort við þurfum að ná í viðbótar skatttekjur fyrir fleiri klósett, skilti og leiðsögn skal ósagt látið. Sjálfur hef ég ekki sannfæringu fyrir því. En ef svo er, þá eru sterkar vísbendingar um að komugjald á farþega til landsins og þá ekki síður hækkun gistináttagjalds væru kostir sem mjög breið samstaða yrði um. Fjármunir sem þannig öfluðust myndu vissulega koma að góðum notum við ferðamannastaði og í þjóðgörðum landsins þar sem brýn nauðsyn er að halda áfram mjög mikilvægu uppbyggingarstarfi.

Hugmyndir um að selja aðgang að náttúruperlum hafa verið harðlega gagnrýndar en gagnrýninni hafa ýmsir hagsmunaaðilar reynt að grafa undan með hræðsluáróðri og dómsdagsspám. Neyðarástand er sagt ríkja í landinu, sérfræðingar innlendir og erlendir lýsa því yfir í vandlætingu sinni að aðstaða sé fyrir neðan allar hellur þótt flestum okkar þyki oft á tíðum illskiljanlegt hvert þeir eru að fara.

Þessir sömu aðilar beina sjónum sínum ofan í grassvörðinn í leit að þvagi og mannasaur til að skerpa á dramatíkinni. Allt þetta á að þjóna þeim tilgangi að telja okkur trú um að við séum á heljarþröm og að ef við borgum ekki ofan í vasa gjaldheimtumanna, þá sé voðinn vís.

En þar með yrði Ísland gert að einu allsherjar gjaldtökulandi og þannig eyðilögð sú mynd sem við og gestir okkar hafa haft af okkar góða landi, að það sé opið og frjálst.

Í þeirri hryggðarmynd sem dregin hefur verið upp af ferðamennskunni  vill stundum gleymast það sem vel hefur verið gert.  Á undanförnum árum hefur nefnilega á ýmsum sviðum þróast  sitt hvað sem við hljótum að telja til hágæða. Fyrst nefni ég þjóðgarðana og upplýsingamiðstöðvar þeirra.  Þá horfi ég til safna sem batnað hafa í gæðum, góðra veitingastaða og síðast en ekki síst sífellt strangari krafna  sem  leiðsögumenn gera  til sjálfra sín og sinnar stéttar.

Þegar allt kemur til alls hefur margt verið vel gert í ferðaþjónustu á Íslandi og því margt til að gleðjast yfir.