Fara í efni

Það sem Svíar raunverulega meina

Birtist í Fréttabladinu 15.09.2003
Svíar eru nýbúnir að hafna Evrunni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var í sjálfu sér athyglisvert og fellur inn í nokkuð merkilegt mynstur: Nánast allt stofnanaveldið í tilteknu landi mælir með því við þjóðina að hraða Evrópusamrunanum en meirihluti þjóðarinnar segir hins vegar nei. Að Vinstriflokknum og umhverfissinnum undanskyldum voru flokksmaskínur stjórnmálaflokkanna á útopnu í áróðri fyrir Evrunni, helstu talsmenn atvinnulífsins, forystumenn í samtökum atvinnurekenda og launafólks, beittu sér af alefli í sömu veru. En allt kom fyrir ekki.

Andúð á miðstýringu og forræðishyggju

Nú má ætla að skýra megi afstöðu fólks á margvíslegan hátt. Fólk hefur væntanlega velt fyrir sér efnahagslegum og félagslegum röksemdum. Mín kenning er sú að inn í þetta fléttist einnig andúð á hvers kyns forræðishyggju; fólk vilji hreinlega ekki láta segja sér fyrir verkum. Þess vegna skella menn skollaeyrum við stofnanaveldinu. Hvað Evrópusamrunann áhrærir er forræðishyggja og miðstýring nátengdir ættingjar. Enda þótt margir, ef ekki flestir, stuðningsmenn Evrópusamrunans séu einlægir lýðræðissinar þá er það engu að síður staðreynd að Evrópusambandið, eins og það er að þróast, er býsna lokað og miðstýrt. Sem dæmi þar um má nefna að í samningaviðræðunum innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), kemur Framkvæmdanefnd sambandsins fram fyrir hönd allra aðildarríkjanna, sem þannig tala einni röddu. Þetta er látið gerast þótt um sé að ræða mál sem ekki aðeins snertir tímabundna viðskiptahagsmuni, heldur sjálft grundvallarskipulag samfélagsins og ætti því heima í opinni lýðræðislegri umfjöllun, á þjóðþingum og úti í þjóðfélaginu almennt. Því er nú aldeilis ekki að heilsa hjá Evrópusambandinu. Ég minnist þess að vekja máls á þessum samningum á fundi þingmanna frá EES svæðinu, bæði frá Evrópusambandinu og EFTA ríkjunum fyrir rúmu ári.
Ég vildi heyra hvaða umræða hefði átt sér stað í hinum ýmsu þjóðþingum um þessi mál. Í ljós kom að á þeim vettvangi hafði nánast ríkt grafarþögn. Gerðist nú umræðan nokkuð vandræðaleg. Reis þá upp fulltrúi Framkvæmdanefndar Evrópusambandsins og sagði að þessi mál ættu ekki erindi inn á þennan þingmannafund enda væri litið á samningana sem fram færu á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem viðskiptaleyndarmál sem auk þess kæmu ekki öðrum við en þeim sem væru innan vébanda Evrópusambandsins!
Þótt alls staðar hvíli leyndarhjúpur yfir þessum samningum er óhætt er að fullyrða að hvergi eru þræðirnir eins langir frá almenningi til þeirra sem ráða ferðinni og í Evrópusambandinu. Þetta skynjar fólk. Það gerir sér grein fyrir því að í Evrópusambandinu er fyrsta boðorðið og æðsta takmark að fjarlægja allar markaðshindranir og þar með þá hindrun sem oftast er til trafala þegar viðskiptahagsmunir stórfyrirtækja eru annars vegar: Lýðræðið. Innan Evrópusambandsins er staðfastlega unnið að því að draga úr vægi þjóðþinganna, jafnframt því sem þjóðríkin eru smám saman innlimuð í nýtt evrópskt stórríki.  

Þýðir nei seinna eða kannski?

Við höfum mismunandi skoðanir á því hvort slíkt stórríki væri líklegt til að verða til góðs eða ills. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að samræming og stöðlun á sviði viðskipta og annarra samskipta geti verið æskileg en að því tilskyldu að við drögum ekki úr lýðræðislegum áhrifum eins og gerist samkvæmt formúlum Evrópusamrunans. Um þetta er gagnlegt að skiptast á skoðunum og takast á um þær ef svo ber undir.
Hitt er verra þegar ákafir Evrópusinnar leyfa sér að tala af hroka um niðurstöður kosninga sem þeim eru ekki að skapi. Strax og niðurstöður lágu fyrir í Svíþjóð um síðustu helgi var byrjað að skýra meirihlutaviljann út úr heiminum. Fólkið meinti þetta náttúrlega alls ekki var okkur sagt. Það var síður en svo andvígt því að taka upp Evru. Það vildi einfaldlega fresta henni. Þetta væri ekki rétti tíminn. Og aðvitað var okkur sagt að það lægi beint við að reyna aftur síðar. Hjá Evrópusinnum þýðir já alltaf já. Öðru máli gildir um nei-ið. Nei þýðir seinna eða kannski.