Fara í efni

ÞAÐ ER ÞJÓÐFÉLAGIÐ SEM ÞARF Á VIÐGERÐ AÐ HALDA ...

Mannrettindi forsida
Mannrettindi forsida


                                                                                       Mynd af bókarkápu.
 Í gær var Mannréttindadagur Sameinuðu þjóðanna. NPA miðstöðin sá til þess að dagurinn reis undir nafni með opnun glæsilegrar ljósmyndasýningar í Austurstræti. Alþingismönnum var færð að gjöf falleg og vel unnin ljósmyndabók sem hefur að geyma myndirnar sem eru til sýnis á þessari útisamkomu.

NPA er skammstöfun fyrir notendastýrða persónulega aðstoð. NPA miðstöðin skipuleggur og hefur forgöngu um þessa þjónustu og er hún samvinnufélag fatlaðs fólks.

NPA hugmyndafræðin hefur verið að ryðja sér til rúms í hugum fólks, þar á meðal mínum huga, og tel ég mikilvægt að stuðla að góðu brautargengi hennar. Ekki veitir af liðsinni því það á við um þetta frumkvöðlastarf eins og annað að fyrstu skrefin eru erfiðust.

Framkvæmdastýra NPA miðstöðvarinnar er Freyja Haraldsdóttir og var hún ein ræðumanna á útisamkomunni á Austurstræti í gær. Ég hef átt fund með Freyju og samstarfsfólki hennar í Innanríkisráðuneytinu og hef ég sannfærst um ágæti þessarar stefnu sem byggir á því að fatlaður einstaklingur sem þarf á aðstoð að halda skipuleggi sjálfur þá þjónustu sem hann fær en sé ekki háður utanaðkomandi stýringu sem iðulega tekur ekki mið af óskum hans og þörfum. Þegar þetta er sagt finnst manni þetta liggja í augum uppi  en í veruleikanum er þessu þó ekki þannig farið. Ekki enn - og út á það gengur baráttan að knýja fram breytingu.

Aðrir ræðumenn í brunagaddinum í Austurstræti í dag voru Margrét Steinarsdóttir, sem stýrir Mannréttindaskrifstofu Íslands og Guðmundur Steingrímsson, alþingimaður  að ógleymdri Emblu Ágústsdóttur sem er formaður stjórnar NPA miðsöðvarinnar.

Það var einmitt Embla sem sagði í ræðu sinni að á fatlað fólk ætti  ekki að líta sem einstaklinga sem þyrftu á viðgerð að halda. Það væri hins vegar þjóðfélagið sem væri bilað og þyrfti að laga svo það tryggði öllum þegnum sínum fullan rétt!
Á þessa leið mæltist Emblu og þótti mér vel mælt.

Enda þótt kalt væri í veðri var öllum hlýtt innanbrjósts og ekki var verra að fá að hlýða á fallegan söng en söngkonan Margrét Eir söng fyrir okkur tvö lög við undirleik  Gísla Magna.

Myndirnar sem birtast hér eru teknar af Rannveigu Heru Finnbogadóttur og fékk ég þær sendar af þessu tilefni.

Fundurinn
Finnbogi Örn og
Finnbogi Örn og Bríet Björg afhentu bókina.
Embla Ágústsdóttir
Embla Ágústsdóttir, formaður stjórnar NPA miðstöðvarinnar, flytur ávarp.

 Ommi og afi Finnbogi
Ég og Finnbogi Hermannsson.