Fara í efni

" Það er stór synd að neyta aflsmunar”

Þegar séra Gunnar Kristjánsson, Reynivöllum í Kjós, predikar þá hlusta menn – og ekki að ástæðulausu. Það sannaðist enn einu sinni nú í dag þegar útvarpað var úr Brautarholtskirkju messu þar sem séra Gunnar predikaði: Hann á jafnan erindi við fólk, fær okkur til að staldra við og velta fyrir okkur heimspekilegum álitamálum. Þótt séra Gunnar sæki iðulega efnivið í liðinn tíma er samtíminn aldrei langt undan. Í dag rýndi hann í leikritin Sölumaður deyr eftir Arthur Miller og leikrit Hrafnhildar Hagalín, Norður, sem nú er á fjölum Þjóðleikhússins og í Töluð orð Andrésar Björnssonar. Undirliggjandi var boðskapur Fjallræðunnar: "Fjallræðufólkið getum við nefnt það fólk sem hefur hlustað á ... orð Jesú og tekið þau til sín, orðin um návist hans, orð um hógværa og þá sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti, um þá sem miskunna öðrum, um friðflytjendur í ófriðlegum heimi. Ein slík kona kemur fyrir í bókinni Töluð orð eftir Andrés Björnsson, en sú bók geymir áramótaræður frá útvarpsstjóraárum höfundar. Á einum stað er að finna þessar áhugaverðu hugleiðingar um fátæka konu norður í Skagafirði. Hún fær þennan vitnisburð sem hlýtur að snerta hvern mann: “Líf hennar var óbrotið, [segir hann], og siðareglur fáar, raunar aðeins ein: Verið góð við þá sem hafa lítinn mátt. Það er stór synd að neyta aflsmunar.” Í lok hugleiðinga sinna segir: “Enginn, [hvorki] karl né kona, verður nokkru sinni stórmenni af háu embætti einu saman. Það verða menn aðeins af mannkostum og sjálfsafneitun.” Við lestur slíkra frásagna hlýtur lesandinn að spyrja sjálfan sig: Hvað um okkur, hver eru okkar lífsviðhorf? Er það svo stór synd að neyta aflsmunar í vitund okkar sem nú lifum á þessu landi? Virðist samtíminn ekki oft á tíðum einmitt hefja slíkt fólk til virðingar, er þá ekki – oftar en ekki – aðeins spurt um sigurvegarann, en leikreglurnar látnar liggja milli hluta? Virðist ekki oft sem það skipti mestu að neyta aflsmunar þegar unnt er ...?

Þessi boðskapur á brýnt erindi við okkar samtíma. Bush og Blair segjast vera trúaðir. Verk þeirra þekki ég en ekki þá trú sem þeir kveðast eiga í brjósti. Mér segir hugur um að þeir hefðu gott af  því að sækja messu að Reynivöllum í Kjós. Sennilega gætu forstjórar einokunarfyrirtækjanna einnig haft af því nokkurt gagn.

Eftrifarandi er predikun séra Gunnars Kristjánssonar:

Prédikun 7. nóv. 2004, allra heilagra messa, Brautarholt, útvarpsmessa.

Texti: Fjallræðan, Matth. 5.13-16

Náð sé með yður og friður.

Á stóra sviði Þjóðleikhússins er brugðið upp svipmynd úr samtímanum sem hlýtur að vekja marga til umhugsunar. Í leikritinu Norður eftir Hrafnhildi Hagalín kynnumst við nokkrum einstaklingum á flugstöð, þar sem þeir bíða þess að kallað sé til brottfarar.

Biðin verður lengri en til stóð. En biðtíminn nýtist – líkt og í leikritinu Beðið eftir Godot – til þess að afhjúpa persónurnar fyrir áhorfandanum.

Menn taka tal saman og forvitnast um hagi hvers annars. Áður en langt um líður er ljóst að mannleg átök eiga sér stað undir yfirborðinu, þar er tekist á við óuppgerða harma, óútkljáðar deilur og óleystar flækjur, og á næsta leiti eru ástin, sorgin og sektin. Undir niðri kraumar svo sterk vitund um dauðans óvissa tíma.

Á flugstöðinni eru það ekki ytri aðstæður, sem skipta sköpum, heldur innri heimur farþeganna. Hér er horft inn í hugarheim fólksins þar sem hugsanir þess eru myndgerðar og atvik úr lífi þess sett á svið.

Eitt af því sem dregið er fram í þessari sneiðmynd af samfélagi líðandi stundar er staða barnsins. Meðal farþega er ungur drengur á leið til föður síns, en það örlar ekki á tilhlökkun, hann veit að mótorhjólið stendur hjarta föðurins nær en hann sjálfur. Strákurinn er einn og yfirgefinn, líkt og aðrir í þessum biðsal.

Þannig birtast persónurnar hver af annarri. Þrátt fyrir glens og spaug öðru hvoru, fer það ekki framhjá neinum að hér er svipmynd af fólki sem er ekki aðeins að glíma við hversdagsleg viðfangsefni eins og virðist í fyrstu. Hér hangir meira á spýtunni. Hver og einn er berst upp á líf og dauða um eitthvað sem veldur úrslitum í lífi hans.

Kannski verður ferðin norður lausn frá þessari baráttu. Ef til vill eiga farþegarnir von á því innst inni að ljósglæta kvikni óvænt í myrkrinu, að morgundagurinn verði betri en dagurinn í dag, að nýr heimur opnist þar sem allt verður gott og allt verður satt og allt verður fagurt. Það er eins og haldið sé í veika von.

Upp í hugann kom annað dramatískt leikrit, sem sýnt var ekki alls fyrir löngu í höfuðborginni, leikritið Sölumaður deyr eftir Arthur Miller um sölumanninum Willy Loman, konu hans og syni þeirra tvo. Ekki er það skortur á tjáningu sem vandanum veldur í þeirri fjölskyldu, því að orðaflaumurinn er mikill. Vandinn er annar og meiri eins og sést í þessum orðum annars sonanna undir lok verksins: “Í þessu húsi hefur sannleikurinn aldrei verið sagður”.

Eftir því sem höfundurinn sagði er Willy Loman ofur hversdagslegur maður. Hann er maðurinn sem við mætum á förnum vegi, í strætó, í búðinni, glaður og reifur hið ytra – en hið innra er allt hans líf í rúst. Willy Loman lifir í heimi sjálfsblekkingar, hann getur með engu móti horfst í augu við raunveruleika líðandi stundar, hann býr sér til sýndarveruleika sem hann lifir í. Og hann þvingar fjölskyldu sína til að búa við sömu lífslýgina frá upphafi og þar til hann deyr í lok verksins fyrir eigin hendi.

Áhorfandinn fær einlæga samúð með sölumanninum enda var það markmið höfundarins að skapa samúð með því að afhjúpa heim blekkingar og lífslýgi sem þjakar svo marga að hans mati.

Í leikritinu Norður ber margt á góma. Undirstraumurinn er samt aðeins ein spurning sem vaknar þótt hún sé aldrei orðuð. Það er þungavigtarspurning mannsins um tilgang. Hún svífur yfir sviðinu og sendir áhorfendum eindregin skilaboð um meginviðfangsefni leikritsins.

Það viðfangsefni er víðar til umræðu. Þekktur og vinsæll íslenskur rithöfundur var nýlega á málþingi með prestum. Í lok góðrar kvöldstundar, sem leið hratt við áhugaverðar umræður, var rætt um trúarlegar spurningar, hvers eðlis eru þær? Rithöfundurinn taldi að þær snerust ekki um trú í þrengri merkingu, hans spurning um trúna hefði verið eitthvað á þessa leið: “Er ég einn og yfirgefinn í þessum heimi, er líf mitt án tilgangs og markmiðs – eða ekki?”

Þessi spurning um trú og tilgang skipti sköpum í lífi hans, það eitt að koma orðum að henni, var að hans mati mikill áfangi. Hann vissi þá eitthvað mikilvægt um sjálfan sig.

Það er ekki aðeins í kirkjunni eða á vettvangi trúarbragðanna sem þessi trúarlega spurning knýr dyra. Hún leikur lausum hala á leiksviðinu. Hún minnir sífellt á sig, hún vaknar þegar við skiljum ekki lengur hvað er að gerast í kringum okkur, ekki hvað síst þegar við erum komin að einhverjum markalínum í lífi okkar. Hún er aldrei langt undan í mótlætinu, í þjáningunni, í sársaukanum, eða frammi fyrir siðferðislegum álitaefnum sem reynast okkur ofviða, frammi fyrir ákvörðunum sem skipta sköpum í lífi okkar og annarra. Kemur hún ekki upp á yfirborðið þegar ótti og kvíði ógna lífsgleði okkar og lífslöngun, þegar sjúkdómar setja líf okkar úr skorðum, og atvinnuleysi heldur fyrir okkur vöku og setningin “Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig” er komin fram á varirnar; vekur það ekki allt hugsanir um tilgang?

Trúarlegar hugsanir koma einnig upp í huga okkar þegar allt leikur í lyndi: þegar sættir hafa náðst, þegar heilsan er aftur fengin, þegar mikilvægum áfanga er náð, eða á gleðistund þegar barn fæðist, áður en hvítvoðungurinn hefur opnað augun og grípur þéttingsfast um fingur þinn eins og hann vilji segja: “Ég er kominn afi, ég treysti þér í þessum skrýtna heimi.” Kviknar þá ekki í djúpi hugans þrá til hins góða, fagra og fullkomna og löngun til að eiga hlutdeild í þeim veruleika hvað sem öllu öðru líður?

Trúin er aldrei langt undan. Hún fylgir manninum eins og skuggi og vekur hugsanir og tilfinningar sem vísa langt út fyrir heim mannsins, inn í óendanleikann og óforgengileikann.

Trúin er ekki aðeins einkamál einstaklingsins. Hún er einn af túlkunarþáttum menningarinnar líkt og tungumálið, listin og vísindin. Allt eru það aðferðir mannsins til að túlka heim sinn og tilvist, koma til móts við hugsanir sem koma til hans án þess hann hafi óskað eftir þeim.

Tungumálið notum við til að móta spurninguna og orða svarið með skiljanlegum hætti, vísindin eru ein leið mannsins til að skilja og skilgreina heim sinn og sjálfan sig og listin er mikilvægasta leið mannsins til að túlka tilvist sína. En trúin er vettvangur þar sem hann fæst við spurninguna sem skiptir hann mestu máli og sem knýr hann sífellt áfram.

Jesús svaraði ýmsum spurningum mannsins en spurningu mannsins um tilgang og merkingu svaraði hann með því að bjóða upp á samfylgd sína. Við munum eftir sögunni um lærsveinana tvo sem voru á leið til þorpsins Emmaus að kvöldi páskadags. Jesús slóst í för með þeim á leiðinni og fylgdi þeim í áfangastað. En þeir þekktu hann ekki, ekki fyrr en brauðið var brotið. Þá sáu þeir að þetta var hann, en þá hvarf hann þeim sýnum.

Jesús er sá sem gengur með okkur á veginum, bíður með okkur á flugstöðinni, vakir við rúm hins sjúka, er ekki fjarri hinum örvæntingarfulla, hann útdeilir ekki svörum á báða bóga við öllum spurningum lífsins en hann gengur með þér, hann býður þér návist sína og fylgd sína. Og kallar okkur öll til hins sama, m.a. í Fjallræðunni, í texta dagsins:

Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum. Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist.

Þannig eru orð Fjallræðunnar úr guðspjalli þessa sunnudags, allra heilagra messu. Fjallræðufólkið getum við nefnt það fólk sem hefur hlustað á þessi orð Jesú og tekið þau til sín, orðin um návist hans, orð um hógværa og þá sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti, um þá sem miskunna öðrum, um friðflytjendur í ófriðlegum heimi.

Ein slík kona kemur fyrir í bókinni Töluð orð eftir Andrés Björnsson, en sú bók geymir áramótaræður frá útvarpsstjóraárum höfundar. Á einum stað er að finna þessar áhugaverðu hugleiðingar um fátæka konu norður í Skagafirði.

Hún fær þennan vitnisburð sem hlýtur að snerta hvern mann: “Líf hennar var óbrotið, [segir hann], og siðareglur fáar, raunar aðeins ein: Verið góð við þá sem hafa lítinn mátt. Það er stór synd að neyta aflsmunar.”

Í lok hugleiðinga sinna segir: “Enginn, [hvorki] karl né kona, verður nokkru sinni stórmenni af háu embætti einu saman. Það verða menn aðeins af mannkostum og sjálfsafneitun.”

Við lestur slíkra frásagna hlýtur lesandinn að spyrja sjálfan sig: Hvað um okkur, hver eru okkar lífsviðhorf? Er það svo stór synd að neyta aflsmunar í vitund okkar sem nú lifum á þessu landi? Virðist samtíminn ekki oft á tíðum einmitt hefja slíkt fólk til virðingar, er þá ekki – oftar en ekki – aðeins spurt um sigurvegarann, en leikreglurnar látnar liggja milli hluta? Virðist ekki oft sem það skipti mestu að neyta aflsmunar þegar unnt er, jafnvel í mannlegum samskiptum, í hjónabandinu, í systkinahópi, í viðskiptum, í stjórnmálum, á vinnustað?

Lífsviðhorf þessarar konu er endurspeglun á þeim lífsgildum sem við tengjum Jesú Kristi, orðum hans og verkum, og birtast í texta dagsins úr Fjallræðunni. Það er Fjallræðukona sem talar, og setur hið óbrotna innihald trúarinnar fram í fáum orðum, en þó öðru fremur í einföldum lífsstíl sem hefur skýra drætti og djúpt innihald.

Það er dýrmætur vitnisburður um þá trú sem við kennum við Jesúm Krist, það er lífsviðhorf mannúðar og mennsku, lífsviðhorf sem kallar manninn til sjálfs sín, til þess að horfast í augu við sjálfan sig, leita þess sem satt er, fagurt og gott.

Saltið breytir öllu, hversu fá sem kornin eru. Og hvað jafnast á við ljósið? Jesús er nálægur, nánd hans breytir öllu í dimmum heimi þar sem við reynum að orða þá spurningu sem mestu skiptir svo að við séum móttækileg fyrir það svar sem breytir öllu.

Er hann ekki einmitt nálægur í þeim sem vinna verk hans, þeim sem taka orð hans til sín í allri hógværð, er hann ekki nálægur í þeim eins og saltið og ljósið?

Af trúnni sprettur metnaður til góðra verka, þrá eftir réttlæti sem er hafið yfir hagsmuni einstaklinga og samfélags og löngun til að hlífa þeim sem minna mega sín.

Að trúa á Jesúm er að þrá samfélag við hann sem er salt jarðar og ljós heimsins.

Amen