Fara í efni

ÞAÐ ER ÓSATT AÐ VIÐ BERUM ÖLL SÖK


Ráðandi öfl í þjóðfélaginu reyna nú að slá skjaldborg um valdakerfið í landinu. Nú má ekki tala um sökudólga og sem allra minnst um það sem farið hefur úrskeiðis. Sumir ganga svo langt að halda því fram að fjármálahrunið hafi verið öllum að kenna, sjúkraliðum ekkert síður en bankastjórum, strætisvagnastjórum ekkert síður en fjárfestingarstjórum vogunarsjóða, löggæslumönnum ekkert síður en ráðherrum sem skipulögðu einkavinavæðingu ríkisbankanna - og aðstoðarmönnum þeirra.
Hvers vegna skyldi ég hnýta aðstoðarmönnum ráðherra við þessa upptalningu? Ætli þau hugrenningartengsl megi ekki rekja til leiðar Fréttablaðsins um helgina þar sem höfundur, Björn Ingi Hrafnsson, gerir þjóðina alla að sökudólgum. Björn Ingi var einmitt aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar, eins ákafasta einkavæðingarráðherra Framsóknarflokksins.
Björn Ingi Hrafnsson trúir okkur fyrir því að hann hafi notið veisluhalda einkavæðingarinnar í botn. Það eigi reyndar við um okkur öll, „sem fannst gaman í veislunni og gott að þurfa ekki lengur að eiga fyrir hlutunum." Björn Ingi segir okkur að við höfum verið „óheppin" en þegar allt kemur til alls berum við „hér öll sök, mismikla að vísu."
En er það rétt að við berum öll sök?
Liggur ekki sökin fyrst og fremst hjá þeim sem stýrðu ferðinni og þeirra hirð? Er ekki kominn tími til að ræða hina pólitísku ábyrgð; ábyrgð fyrri ríkisstjórna og ábyrgð núverandi ríkisstjórnar? Það verður varla gert ef fjölmiðlarnir verða meðvirkir hinum seku og leggjast í pólitíska afneitun. Einsog leiðari Fréttablaðsins í dag.
Þrengingar Íslendinga eru af mannavöldum. Það þarf að skýra þær og skilgreina og draga rétta lærdóma. Við hljótum að ætlast til þess að fjölmiðlar landsins leggist á sveif með almenningi og láti af því að fegra pólitíska drauga fortíðar. Daður við þá er varasamt. Þeir gætu tekið upp á því að ganga aftur.