Fara í efni

ÞAÐ ER HÆGT AÐ TRYGGJA MANNRÉTTINDI Í PALESTÍNU!


Erindi flutt í Norræna húsinu á samstöðudegi SÞ með palestínsku þjóðinni

Í dag er alþjóðlegur samstöðudagur með palestínsku þjóðinni og þess vegna erum við samankomin hér. Þessi dagur er tilefni fundahalda víða um heim en efnt er til þessara samstöðufunda að undirlagi Sameinuðu þjóðanna.
Það hefur verið fremur hljótt um Palestínu um nokkurt skeið. Alltof hljótt. Hvernig skyldi standa á því? Hvenær voru málefni Palestínu síðast í fréttum að einhverju marki - upp á hvern dag einsog stundum hefur gerst? Það var um síðustu áramót. Á þriðja dag jóla hóf Ísraelsher árás á Gaza svæðið. Ráðist var á íbúana úr lofti, á landi og af sjó. Fullkomnustu vopnum var beitt. Við munum þetta úr fréttunum. Og við vitum nokkurn veginn hvað það þýðir að beita fullkomnum vopnum: Sprengikúlum með málmflísum sem líkjast rakvélablöðum eða fosfórsprengjum sem deyða fornarlömdin - og brenna þau sem eru í námunda við sprenginguna því fosfórinn er þeirrar náttúru að éta sig inn í hold. Verkfræðihönnun af fullkomnustu gerð. Fosfórsprengjum og málmflísaspregjum var varpað á skóla í árasinni á Gaza. Morðunum linnti ekki fyrr en 14 hundruð manns lágu í valnum, þar af 414 börn.

Síðan hefur verið heldur kyrrara. Eða hvað?
21. maí síðastliðinn bloggar Hjálmtýr Heiðdal:
"Ég er staddur á hótelherbergi í Gazaborg og er að reyna að sundurgreina í huganum allt það sem ég hef upplifað hér á tveimur dögum. Í rauninni líður mér líkt og að heil vika sé liðin frá þeirri stundu þegar við gengum í gegnum fangelsismúr Ísraela inn í stærsta fangelsi heims. Hér býr 1,5 milljón manna við skort og stöðugan ótta við loftárásir. Í gær keyrðum við um hverfi þar sem fallbyssukúlur Ísraela féllu fyrir þremur dögum og í dag heyrðum við sprengingar og skothvelli og fréttum síðar að Ísraelar hefðu drepið tvo Palestínumenn."

Hjálmtýr segir frá húsunum sem ísraelski herinn jafnaði við jörðu á heimleið eftir árásarstríðið og hvernig banni sé enn framfylgt um innflutning á byggingarvörum til að torvelda endurreisn og hann segir okkur frá fiskimanni sem hann og ferðafélagar hans íslenskir hittu; fiskimanni sem misst hafði hönd í árásum Ísraela. Hann minnir á að samkvæmt Oslóarsamkomulaginu svokallaða eigi sjómenn að geta stundað veiðar allt að 20 km frá landi en að nú sé svo komið að fari þeir lengra frá landi en 3 kílómetra er skotið á þá.
Þetta er til að gera lífsbjörgina erfiðari.
Ég minnist þess sjálfur að heimsækja skóla í Palestínu þar sem kennarar sögðu frá skyndiárásum - svona litlum - svo litlum að þær komust aldrei í fréttir - þar sem allar tölvur skólans voru eyðilagðar. Tilraun til að gera mannauð framtíðarinnar að engu. Ég man líka eftir samtali við bændur í Qalqiliya. Þar var ég staddur 6. janúar árið 2005. Að kvöldi þess dags skrifaði ég:
"Þorpið Qalqiliya er í Palestínu, eða hvað? Að nafninu til er þetta rétt. Í reynd er þorpið meira og meira að líkjast gettói. Qalqiliya er verið að umlykja rafmagnsgirðingum og múr, hinum illræmda kynþáttamúr. Til stendur að þorpið eða gettóið verði opið þrisvar á dag í innan við klukkutíma í hvert skipti! Qalqiliya var kröftugt samfélag sem þjónaði sveitunum umhverfis. Sú þjónusta er nú smám saman að veslast upp. Sveitafólkinu er gert ómögulegt að komast leiðar sinnar með vörur á markaðinn í bænum eða sækja þangað þjónustu. Jafnvel sjúkrabíl með konu í barnsnauð er vísað frá varðhliðunum utan opnunartíma. Enda þótt girðingin umlyki ekki enn allt þorpið er Qalqiliya þegar aðskilin sveitunum í kring; þeim sveitum sem Ísraelsmenn ætla að hafa af Palestínumönnum. Við ferðafélagarnir,  Eiríkur Jónsson, Borgþór Kjærnested og Qussay Odeh, hjálparhella okkar hér á svæðinu... komum að einu hliðinu við Qalqiliya þar sem bændur biðu eftir því að hliðin yrðu opnuð svo þeir kæmust yfir á akrana sína. Ungt fólk í ísraelskum hermannaklæðum, vopnað vélbyssum, gaf skipanir til bændanna, sem margir hverjir voru við aldur og hafa ræktað þetta land alla sína ævi. Við verðum að þrauka, sagði gamall maður við okkur með tárin í augunum, í þann mund sem ísraelskur hermaður setti fjóra fingur upp í loftið til merkis um að hann og þrír aðrir Palestínumenn skyldu nú stíga fram og láta skoða skilríki sín og fá úr því skorið hvort þeir fengju leyfi til að fara í gegnum hliðið."

Í þessari sömu ferð skrifa ég eftirfarandi um viðræður við forsvarsmenn öryrkja í Palestínu:"Hjá öryrkjabandalaginu palestínska var okkur sagt á áhrifaríkan hátt frá hlutskipti öryrkja í Palestínu, sem margir hefðu orðið öryrkjar af mannavöldum, vegna limlestinga og ofbeldis ísraelska hersins. Formaður öryrkjabandalagsins, Ziad Anno, minnti á limlestingarstefnu "broken bones policy" Rabins (friðarverðlaunahafa Nóbels) frá tíunda áratugnum en samkvæmt þessari stefnu skyldu menn limlestir fremur en drepnir. Formaðurinnn þekkti vel til Íslendinga og nefndi hann sérstaklega Svein Rúnar Hauksson lækni, formann félagsins Ísland Palestína, en nafn hans er mjög þekkt hér um slóðir. Lifnar mjög yfir mönnum þegar Sveinn Rúnar er nefndur á nafn."

"...Skyldu menn fremur limlestir en drepnir..."! Fólk svipt lífsbjörg sinni - og ungviðinu meinað um menntun. Allt gert af úthugsaðri yfirvegun: Broken bones policy. Policy! Stefna, allt úthugsað sem, sett fram í fínu skjali, yfirlesið, með réttri kommusetningu: "fremur limlestir en drepnir"!
En samt, þrátt fyrir þetta..., þótt nánast allur heimurinn - ekki fólkið í heiminum, það bregst alltaf rétt við þegar það er spurt beint - nei það eru valdakerfi heimsins sem sameinist um að leggja blessun sína yfir ofbeldið, virða ekki niðurstöður lýðræðislegra kosninga, horfa upp á morðárásir, árásir á skóla, sjúkrahús og þess vegna einnig hjálparstöðvar Sameinuðu þjóðanna, það er þau, valdakerfin, sem láta viðgangast að skrúfað sé fyrir vatnið og hitann... já samt, þrátt fyrir allt þetta, segir bóndinn í Qalqiliya : Við verðum að þrauka! Og ég man að hann bætti við: Eg trúi því ekki að svona verði þetta að eilífu.
En hvað gerum við? Hvað gerum við til að svona verði þetta ekki að eilífu? Hvað gerum við sem viljum sýna gamla bóndanum í Qalqiliya samstöðu? Hvernig sýnum við honum samstöðu í verki? Við gerum það til dæmis með því að gefa út vandað blað, Frjálsa Palestínu. Blað sem upplýsir um veruleikann. Blað sem segir frá, ekki bara á meðan stóru árásirnar eiga sér stað - líka þessar litlu - ófréttnæmu - ofbeldið sem framið er í kyrrþey - blað sem segir okkur frá nýútkominni skýrslu Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, um árásina á Gaza fyrir ári; skýrlsu sem unnin var undir verkstjórn Richards Goldstone, suður-afrísks dómara, síonista og yfirlýsts stuðningsmanns Ísrlaels. Niðurstöður Goldstone-skýrlsunnar eru þær að Ísraelssstjórn sé sek um stríðsglæpi gegn íbúum Gaza.
"Það var ekki uppörvandi...", segir Sveinn Rúnar Hauksson, í grein í Frjálsri Palestínu, "það var ekki uppörvandi að verða vitni að hjásetu Noregs við afgreiðslu málsins hjá Mannréttindaráðinu. Norðmenn vilja greinilega líta á sig sem hlutlausan málamiðlara eftir að hafa gegnt mikilvægu hlutverki í Oslóar-samkomulaginu 1993."

Þetta sagði Sveinn Rúnar. Og ég spyr sjálfan mig - og við hljótum að gera það öll, viljum við kannski líka vera hlutlaus, tala fyrir friði þannig óaðfinnanlegt sé? Hvernig skyldi maðurinn sem missti báða fætur sínar í árásinni á Gaza skilgreina hlutleysi, eða sjómaðurinn sem missti hönd sína í skotárás, maðurinn sem Hjálmtýr Heiðdal segir okkur frá? Eða öll hin, sem eiga um sárt að binda? Hvernig skyldi þeim verða við þegar Öryggisráð SÞ mun neita - að kröfu Bandaríkjastjórnar - að virða niðurstöður rannsóknarskýrslu Goldstone-nefndarinnar? Og hvað skyldi þeim þykja um hlutleysi Norðmanna eða værukærð íslenskra stjórnvalda? Þar er ég líka að tala um sjálfan mig.

Það er nefnilega værukærð að gera ekki neitt - eða aðhafast lítið. Það er ekki hlutleysi. Það er að vera samsekur. Það er hárrétt sem Auðólfur Gunnarsson læknir sagði í Morgunblaðsgrein í janúar síðastliðnum þegar blóðið flaut í Gaza: "Íslendingar eru lítil þjóð sem byggir tilvist sína á lýðræði og mannréttindum. Henni ber því að láta rödd sína heyrast, hvar og hvenær sem það getur orðið að liði til að stöðva blóðbað og mannréttindabrot eins og þau, sem nú eiga sér stað í Gaza. Annars erum við öll samsek."

Samtökin sem standa að þessum fundi, félagið Ísland Palestína eru óhlutdræg samtök. Þeim hefur alla tíð verið sama um það hver segir sannleikann. Bara að hann sé sagður. Hvort sem talsmaðurinn er úr þessum flokknum eða hinum; hvort sem hann kemur úr austri eða vestri, er kommúnisti eða kapítalisti. En samtökin eru ekki hlutlaus í þeim skilningi sem vísað var til. Þau taka afstöðu.
Í áttahundruð ára gamalli íslenskri bók, Konungsskuggsjá, er fjallað um að þjóðir geti lent í andlegri kreppu. Að árgalli geti komið í siðu og mannvit þjóða. Þar segir ennfremur að þegar nágrannaþjóðir verða þess varar, beri þeim skylda til að koma til hjálpar.
Við erum að horfa uppá vitfirringu þjóðar, við erum að horfa upp á Ísraela hegða sér einsog trylltir menn. Trylltar þjóðir höfum við oft séð áður. Nágrannarnir sem Konungsskuggsjá vísar til eru nú heimurinn allur - líka við.  Við getum brugðist við með gjörðum okkar. Það er ekki hlutleysi. Við getum líka brugðist við með því láta misþyrmingarnar og kúgunina sem vind um eyru þjóta. Það er ekki heldur hlutleysi. Það er hugleysi.

Við skulum heita því öll að taka afstöðu með gamla manninum í Qalqiliya. Að láta tárvotar vonir hans rætast. Við skulum ræða af yfirvegun hvernig það best verður gert. Engar patentlausnir eru til. En hitt er ljóst að heimurinn má ekki sofna. Og ef hann heldur vöku sinni mun sigur vinnast. Fólkinu í heiminum tókst á endanum að uppræta appartheid stefnuna í Suður-Afríku, einræðisstjórnir í Suður-Ameríku voru felldar, Pinochet og Videla, Berlínarmúrinn liggur sundurbrotinn í minningarmolum í stofuhillum Þýskalands og Bandaríkjastjórn kemst ekki lengur upp með Guantanamó.
Það er hægt að rjúfa einangrun Qalqiliya,
það er hægt að rjúfa einagrun Gaza,
það er hægt að fella kynþáttamúrana í Palestínu,
það er hægt að tryggja frelsi og full mannréttindi í Palestínu!
Heitum því að láta okkar ekki eftir liggja til að það megi takast!